Óskipt sameign, auðlindagjaldið (bréf frá 2009)

Sjávarútvegsráðuneytið

Hr. Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra

Skúlagötu 4

150 Reykjavík.

Reykjavík, 23. október 2009.

Efni: Eignarréttur sjávarjarða og hlutdeild í veiðigjaldi (auðlindagjaldi).

I.

Til Réttar hafa leitað, Samtök eigenda sjávarjarða, pósthólf 90, 780 Hornafirði, en þau eru samtök þeirra sem eiga og/eða nytja sjávarjarðir, svo og þeirra sem eru áhugamenn um hlunnindarétt jarða. Stór hluti eigenda sjávarjarða eiga aðild að samtökunum.

Vísað er til bréfs samtakanna til sjávarútvegsráðherra 13. september 2004, en þar var farið fram á að hluti auðlindagjaldsins rynni til eigenda sjávarjarða. Sjávarútvegsráðuneytið svaraði bréfinu án alls rökstuðnings þann 21. september 2004, en um kröfur eigenda sjávarjarðar til hlutdeildar í auðlindagjaldi sagði einfaldlega:

„Með bréfi þessu vill ráðuneytið árétta, að það hafnar þeim hugmyndum og óskum sem settar eru fram í bréfi yðar.“

II.

Samtök eigenda sjávarjarða una ekki þessu svari ráðuneytisins og krefjast þess að stjórnvöld endurskoði afstöðu sína til þessara mála ellegar rökstyðji með ítarlegum hætti hvers vegna þau telji að eigendur sjávarjarða eigi ekki rétt á hlutdeild í auðlindagjaldinu. Til stuðnings fyrrgreindum kröfum er vísað til áðurgreinds bréfs samtakanna 13. september 2004 auk eftirfarandi sjónarmiða:

Óumdeilt er að nytjastofnar þeir á Íslandsmiðum, sem lög um stjórn fiskveiða ná til, eiga uppruna sinn m.a. í netlögum sjávarjarða. Því til stuðnings er vísað til skrifa tveggja sjávarlíffræðinga við Háskóla Íslands og Hafrannsóknunarstofnun í Morgunblaðinu 13. apríl 2008:

„Grunnsævið er gulls ígildi. Færa má rök fyrir því að grunnu hafsvæðin við Ísland séu ein mikilvægasta auðlind þjóðarinnar. Þar er vagga fjölmargra nytjastofna og þaðan streyma nýliðarnir út á miðin. Meðal annars hafa réttindi sjávarjarða verið í umræðunni. […] Grunnsævið í kringum Ísland (grynnra en 50 m) gegnir veigamiklu hlutverki sem uppeldisslóð fyrir okkar helstu nytjafiska.“

Samtök eigenda sjávarjarða vekja jafnframt athygli ráðuneytisins á því að eignarréttur eigenda sjávarjarða til netlaga nýtur verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sem og 1. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. l. nr.  62/1994. Fjallað var um þetta atriði í áliti Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Björns Guðna Guðjónssonar nr. 40169/05 gegn íslenska ríkinu en þar segir:

„Ennfremur er það niðurstaða dómsins að réttur kæranda til þess að stunda fiskveiðar í netlögum úti fyrir sjávarjörðinni sem um ræðir hafi myndað „eign“ í skilningi 1. gr.  samningsviðauka 1.“

Að lokum vísa samtökin sérstaklega til þingsályktunar frá júní 1998 (465. mál, þskj. 1504. Alþingi 1997-98, 122. löggjafarþing) um skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald, en þar má greina vilja löggjafans til þess hvert auðlindagjaldið skuli renna. Þar segir:

„Nefndin kanni möguleika á að nota auðlindagjald til að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skili sér á réttmætan hátt til þeirra sem hagsmuna hafa að gæta.“

 

III.

Með vísan til framangreinds er þess krafist að stjórnvöld endurskoði afstöðu sína til þessara mála og hefji formlegar viðræður um lausn fyrrgreinds máls eigi síðar en 6. nóvember nk. ellegar rökstyðji með ítarlegum hætti hvers vegna þau telji að eigendur sjávarjarða eigi ekki rétt á hlutdeild í auðlindagjaldinu. Berist ekki svar við bréfi þessu innan þess frests verður litið svo á að stjórnvöld hafni viðræðum við eigendur netlaga um lausn málsins og hyggist þar með halda áfram að innheimta gjald af þeim sem nýta auðlindina án tillits til löglegra réttinda eigenda sjávarjarða í nytjastofnunum og þar með rökréttri kröfu til hlutdeildar í umræddu gjaldi.

Virðingarfyllst,

Ragnar Aðalsteinsson, hrl.

Fylgiskjöl:

 1. Bréf Samtaka eigenda sjávarjarða til sjávarútvegsráðuneytisins, 13. september 2004.
 2. Bréf sjávarútvegsráðuneytisins til Samtaka eigenda sjávarjarða, 21. september 2004.
 3. Jónas Páll Jónasson og Björn Gunnarsson: „Grunnsævið gulls ígildi?“. Birtist í Morgunblaðinu 13. apríl 2008.
 4. Þingsályktun um skipan opinberrar nefndar um auðlindgjald, 465. mál, þskj. 1504. Alþingi 1997-98, 122. löggjafarþing.

Bréf til sjávarútvegsnefndar frá 2009

Samtök eigenda sjávarjarða.

Pósthólf 90,

780 Hornafirði.

 

Skrifstofa Alþingis – nefndarsvið,

Sjávarútvegsnefnd,

Austurstræti 8-10,

150 Reykjavík.

 

Reykjavík, 11. júní 2009.

 Málefni:  Athugasemdir Samtaka eigenda sjávarjarða við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.  (Lagt fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009).

Ég undirritaður, formaður Samtaka eigenda sjávarjarða, vísa í samtal mitt við Gaut Sturluson, lögfræðing nefndarsviðs og tölvupóst hans 9. júní 2009.

Formáli:

Hinn 5. júlí 2001 voru Samtök eigenda sjávarjarða stofnuð á fundi sem haldinn var í Reykjavík.  Félagar í SES eru um 400.  Jarðir með skráðan útræðisrétt eru rúmlega 1.000.  Heildarfjöldi jarða sem eiga land að sjó eru taldar vera 2.240.

Markmið Samtakanna er eftirfarandi:

 • Að fá útræðisrétt sjávarjarða virtan á ný og staðfestan í lögum um stjórn fiskveiða.
 • Að vinna að því að eignarréttindi sjávarjarða innan netlaga, sem og tiltöluleg eignarhlutdeild í sjávarauðlindinni í heild, verði virt og í heiðri höfð.

Frá því að Samtökin voru stofnuð hafa ofangreind markmið ítrekað verið kynnt á opinberum vettvangi.

Nú liggur fyrir að stefnumál Samtakanna hafa ekki fengið framgang við hefðbundna umræðu við lagasetningu á Alþingi þegar lög um stjórn fiskveiða hafa verið endurskoðuð.

Í nýlegu áliti Mannréttindadómstóls Evrópu, í máli grásleppubónda, kemur eftirfarandi fram:  “Ennfremur er það niðurstaða dómsins að réttur kæranda til þess að stunda fiskveiðar í netlögum úti fyrir sjávarjörðinni sem um ræðir hafi myndað “eign” í skilningi 1. gr. samningsviðauka 1” (undirstrikun bréfritara).  Refsimál þetta er sérmál grásleppubóndans en er ekki mál sjávarjarða í heild.

Hluti auðlindarinnar, svo nefnd netlög eru í einkaeign, samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu.  Sjór, dýralíf og plöntulíf er á ferð milli netlaga og ytra svæðis og er því sjávarauðlindin óskipt og á flakki.  Eigendur sjávarjarða eru meðeigendur að sjávarauðlindinni og eigendur eins mikilvægasta hluta hennar, þ.e. grunnsævisins næst landi.

Samtök eigenda sjávarjarða eru fjölmenn hagsmunasamtök um sjávarauðlindina, auk þess sem stefnumál þeirra er stærsta og umfangsmesta byggða- og réttlætismál síðari tíma.

Samtökin eru með heimasíðu.  Slóðin er:          www.ses.is

Athugasemdir við frumvarpið:

 Samkvæmt skilgreiningu í Lögbókin þín eftir Björn Þ. Guðmundsson, prófessor í lögum, þá eru netlög eftirfarandi:  ”Netlög nefnist ákveðið belti meðfram landi í sjó og vötnum sem tiltekin eignarréttindi eru bundin við.  Netlög eru talin falla undir eignarrétt eiganda → landareignar“.  Ennfremur er vísað í meðfylgjandi auglýsingu frá 3. október 2003.

Misjafnt er hvernig þetta belti í sjó er skilgreint.  Annars vegar er um að ræða netlög 115 metra út frá stjórstraumsfjöruborði þar sem aðdjúpt er og hins vegar netlög út á dýpi 20 möskva selnótar eða út á 7,45 metra dýpi út frá stórstraumsfjöruborði þar sem grunnsævi er meira (skýringar Páls Vídalín, lögmanns 1667-1727).

 

Eins og kemur fram í formála, þá er sjórinn, dýralíf og plöntulíf á ferð milli netlaga og ytra svæðis.  Engin bein skil eru á milli þessara svæða.  Sjávarauðlindin er því óskipt sameign.  Í því sambandi mætti vísa í svonefnda deilistofna, flökkustofna, sem eru á ferð milli svæða og semja þarf um.

Tveir sjávarlíffræðingar við Háskóla Íslands og Hafrannsóknarstofnun segja eftirfarandi í grein sinni í Morgunblaðinu 13. apríl 2008:   “Grunnsævið gulls ígildi.  Færa má rök fyrir því að grunnu hafsvæðin við Ísland séu ein mikilvægasta auðlind þjóðarinnar.  Þar er vagga fjölmargra nytjastofna og þaðan streyma nýliðarnir út á miðin.  Meðal annars hafa réttindi sjávarjarða verið í umræðunni”.  Svo segir:  “Grunnsævið í kringum Ísland (grynnra en 50 m) gegnir veigamiklu hlutverki sem uppeldisslóð fyrir okkar helstu nytjafiska”.  Fleiri vísindamenn taka í sama streng svo sem dr. Veerle Vanderweeld, framkvæmdastjóri alheimsáætlunar um varnir gegn mengun hafsins frá landi, en hún segir í viðtali í Morgunblaðinu 27. október 2000:  “Skilgreind strandsvæði eru einnig hýbýli 90% fiska og skeldýra”.  Vísað er í viðtal við dr. Kenneth Sherman, forstjóra Narragansett hafrannsóknarstofnunarinnar á Rhode Island í Fréttablaðinu 31. janúar 2002 en hann segir m.a.:  “Vistkerfi óháð landamærum og efnahagslögsögu.  Hann vísar í strandsvæði, frá árkerfum að landgrunnsmörkum og ytri mörkum helstu straumkerfa.  Tvö eða fleiri samliggjandi lönd deila oft eina og sama vistkerfinu”.  Höfðað er til hlutdeildar í deilistofnum.  Vísað er í viðtal í Morgunblaðinu 4. júlí 2005 við dr. Kathy Sullivan, geimfara og könnuð í Explorers Club, en hún segir:  “Strandsvæðin skipta miklu máli fyrir fiskveiðar og eru mikilvægar fiskuppeldisstöðvar.  Umhverfisgæði almennt taka mið af ástandi strandsvæðanna sem eru lungu og lifur jarðarinnar”. Að lokum ber að nefna í þessu sambandi tvo þætti dr. David Attenborroughs “Hafið bláa hafið” en þeir voru sýndir í íslenska sjónvarpinu 16. og 23. nóvember 2003.  Þættir 7 og 8 fjalla um strandsvæði sem má segja að hér á landi séu oft nefnd netlög.  Þættirnir skýra vel hversu mikilvæg netlögin eru.  Hversu fjölskrúðugt dýra- og plöntulíf er á strandsvæðunum og hvað það er mikilvægt fyrir lífið utar í hafinu.

Landhelgi er skilgreind út frá landi og eru því netlög í landhelgi Íslands og innan auðlindalögsögunnar.

Nú er ljóst að mannréttindadómstóll Evrópu lítur svo á að netlög séu eign í skilningi 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu.  Alþingi getur því ekki lengur hundsað þennan eignarrétt og ber að virða hann.

 

Alþingi hefur ekki umboð eða heimildir til að ráðstafa þessum eignarrétti sjávarjarða.  Alþingi ber að fara að lögum sem það hefur sjálft sett svo sem eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og fleiri lögum um netlög.

Lagt hefur verið fram frumvarp sem nefnt hefur verið frumvarp um strandveiðar.  Sjávarströndin og netlögin þar fram undan er víða í einkaeign.  Það er álit eigenda sjávarjarða að Alþingi geti ekki sett lög um stjórn fiskveiða er varðar strandveiðar og ráðstöfun á auðlindinni án þess að meðeigendur að henni séu hafðir með í ráðum.  Annað væri fádæma yfirgangur og sæmir ekki Alþingi.

Það er krafa eigenda sjávarjarða, sem meðeigenda að óskiptri sjávarauðlindinni, að þeir verði hafðir með í ráðum með lagasetningu er tengist sjávarauðlindinni og sérstaklega þegar um er að ræða lagasetningu sem tengist strandsvæðum.

Óskað er eftir fundi með sjávarútvegsnefnd Alþingis um þessi mál sem allra fyrst.

Virðingarfyllst,

Samtök eigenda sjávarjarða.

 

______________________________

Ómar Antonsson, formaður.

  Meðfylgjandi er til upplýsinga:

 1. Auglýsing, dags. 3. október 2003 er skilgreinir rétt og eign sjávarjarða í auðlindinni samkvæmt íslenskum lögum.
 2. Bréf, dags. 7. nóvember 2002 til Dr. Franz Fischlers, ráðherra Evrópusambandsins.

 

 

Enska útgáfan af bréfinu til ráðherra 14-2-2014

Samtök eigenda sjávarjarða.

(Association of Coastal Property Owners)

PO Box 90,

780 Hornafjördur,

Iceland.

Mr. Sigurður Ingi Jóhannsson, Minister of Fisheries,

Ministry of fisheries,

Skúlagötu 4, 101 Reykjavík.

sigurdur.ingi.johannsson@anr.is

Hornafjördur, Iceland 11th February 2014.

I refer to my letter to you dated, 7th January 2014 .


It has been reported in the media that recent negotiations have been conducted on the mackerel stock and the mackerel fisheries in the North Atlantic between the EU, Norway, Iceland and the Faroe Islands.

It has been informed by the media that those who have taken part in these negotiations, on behalf of Iceland , are at least two persons, Mr. Sigurgeir Thorgeirsson , Permanent Secretary in the Ministry of Fisheries , titled in the news as chairman of Icelandic committee and Mr. Kolbeinn Árnason, Director of the National Federation of Icelandic Fishing Vessel Owners. More is not known. Kolbeinn seems to be involved in these negotiations only on behalf of those who use the resource but not on behalf of the owners. It is not known on what grounds he is allowed to come to these talks.

As has been explained to the Minister of Fisheries , the Icelandic government is not the only owner of all the marine resource in Iceland and has no right to dispose of the entire resource. Owners of coastal properties are also parties involved and a owner and may in this connection refer to the Icelandic law and the opinion of the European Court of Human Rights , which states :

3 The Courts ‘s assessment :
“Moreover, the Court finds that the applicant´s right to engage in fishing in the net zone adjacent to the coastal property in question constituted a “possession” within the meaning of Article 1 of protocol No. 1”.

This opinion is based on the provisions of the European Convention on Human Rights , but Iceland has ratified and signed the treaty . Reference is made to it by Eiríkur Tómasson , professor of law at the University of Iceland (now judge of the Supreme Court) on 7 Committee meeting (according to the minutes) for a review of the Law of fisheries management, 19 February 2010:

“Chairman, member of parliament Guðbjartur Hannesson, asks how long-term property rights have been defined and whether ideas from other resource legislation are carried forward in respect to fisheries legislation rights of use . It was stated that the owners of coastal property have rights at stake. E.T. said net zone created property rights, but the state can still impose conditions on fishing within them. If this right would be recalled to the state it would have to pay compensation.
It discussed how difficult it is to define the property and use , especially taking into account the employment law that may arise from the ownership or right of use”.

Further reference is made to the definition of property rights experts, including Gaukur Jörundsson former judge at the European Court of Human Rights , which states that the water (sea) that is above a private land is classified as private property and the sea in the net zone property on the respective ground.

The most fertile part of the sea is in the net zone and the living resources, together with the sea itself, move without obstruction in and out of the net zone and the outer region which is under the control of the state.

The above two parties, Sigurgeir and Kolbeinn, have neither full mandate nor permission to discuss the entire fishing rights of mackerel stock in marine resource around Iceland. They are not in any way representing the coastal property owners. Of complete irresponsibility is the case that they are in unelected discussions and making decisions in meetings with foreign bodies in the interests of the marine resource around Iceland without property owners as bystanders .

Mackerel passes between the outer zone in Icelandic waters and the privately owned net zone. The mackerel is named straddling stock (migratory stock). Similarly goes mackerel between the economic zone of the European Union, Norway, the Faroe Islands and Iceland. On that ground Iceland bases its claim for a share in the stock.


Owners of coastal properties are herewith putting forward the request to the Icelandic Minister of Fisheries , that he sees to discussion will be left out until the correct and legal entities have been assigned to them.

Yours sincerely,

On behalf of the Icelandic Association of Coastal Property Owners,

Ómar Antonsson, Chairman.

Enclosed:

1.Advertisement 3rd October 2003, explaining property rights.

2.Letter, dated 7th November 2002 to Dr. Franz Fischler,

Commissioner for Agriculture, Rural Development and Fisheries.

Google translated copy from the Icelandic, sent to:

 • Mr. John Spencer, Adviser, at the Directorate General for Maritime Affairs and Fisheries (DG MARE). EU’s negotiator on mackerel. E-mail: edward-john.spencer@ec.europa.eu
 • Mrs. Elisabeth Aspaker, Norwegian Minister of Fisheries, PO Box 8118 Dep., N 0032, Oslo, Norge. E-mail: postmottak@nfd.dep.no
 • Mr. Jacob Vestergaard, Fareo Islands´ Minister of Fisheries. E-mail fisk@fisk.fo

Bréf til sjávarútvegsráðherra 14-2-2014

Samtök eigenda sjávarjarða.

(Association of Coastal Property Owners)

PO Box 90,

780 Hornafjördur,

Iceland.


Hr. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra,

sjávarútvegsráðuneytinu,

Skúlagötu 4, 101 Reykjavík.

sigurdur.ingi.johannsson@anr.is


Hornafirði, 11. febrúar 2014.

Ég vísa í bréf mitt til þín, dags. 7. janúar 2014.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að undanfarið hafa farið fram samningaviðræður um makrílstofninn og makrílveiðar á Norður-Atlantshafi milli Evrópusambandsins, Noregs, Íslands og Færeyja.

Það hefur verið upplýst í fjölmiðlum að þeir menn sem þátt hafa tekið í þessum samningaviðræðum, sem sagt er að séu á vegum Íslendinga, séu a.m.k. tveir þeir Sigurgeir Þorgeirsson, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, titlaður í fréttum sem formaður íslensku samninganefndarinnar og Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna.  Ekki er vitað um fleiri.  Kolbeinn virðist taka þátt í þessum viðræðum eingöngu fyrir hönd aðila sem nýta auðlindina en ekki fyrir hönd eignaraðila.  Ekki er vitað á hvaða forsendum honum er heimilað að koma að þessum viðræðum.

Eins og skýrt hefur verið út fyrir sjávarútvegsráðherra, þá er íslenska ríkið ekki eitt eigandi sjávarauðlindarinnar við Ísland og hefur ekki eitt allan ráðstöfunarrétt yfir auðlindinni.  Eigendur sjávarjarða eru þar einnig hlutaðeigendur og má í því sambandi t.d. vísa í lög og í álit Mannréttindadómstóls Evrópu en þar segir:   3.  The Courts´s  assessment:

“Moreover, the Court finds that the applicant´s right to engage in fishing in the net zone adjacent to the coastal property in question constituted  a  “possession” within the meaning of Article 1 of protocol No. 1”.

 Þetta álit byggir á ákvæði í mannréttindasáttmála Evrópuráðsins, en Ísland hefur staðfest og undirritað samning um sáttmálann.  Vísað er í það sem haft er eftir Eiríki Tómassyni, prófessor í lögum við Háskóla Íslands (sem nú er hæstaréttardómari) á 7. fundi nefndar (samkvæmt fundargerð) um endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu, 19. febrúar 2010:

 

“Formaður(Guðbjartur Hannesson, innskot skýrsluritara) spyr hvernig langtímaafnotaréttur hefur verið skilgreindur og hvort hugmyndir úr annarri auðlindalöggjöf séu yfirfæranlegar á fiskveiðilöggjöfina m.t.t. afnotaréttar. Fram kom að eigendur sjávarjarða hafa réttinda að gæta.  ET sagði netlög skapa eignarrétt, en ríkið má samt sem áður setja skilyrði um veiðar innan þeirra. Ef þessi réttur yrði innkallaður til ríkisins þyrfti að greiða bætur fyrir.

Rætt var um hversu vandasamt það er að skilgreina eign og afnot og þá sérstaklega að teknu tilliti til þess atvinnuréttar sem getur skapast af eignarrétti eða afnotarétti”.

 Ennfremur er vísað í skilgreiningar eignarréttarsérfræðinga, m.a. Gauks Jörundssonar, fyrrverandi dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, þar sem kemur fram að vatn (sjór) sem yfir landi liggur telst til fasteignarinnar og er því sjórinn í netlögum eign viðkomandi jarðar. 

 Vatn og sjór, þ.m.t. lífríkið, er á hreyfingu milli innra og ytra svæðis og því er um óskipta sameign að ræða.

 Ofangreindir tveir aðilar, þeir Sigurgeir og Kolbeinn, hafa hvorki umboð né heimildir til að ræða alfarið veiðirétt makrílsstofnsins í sjávarauðlindinni umhverfis Ísland.  Þeir eru hvorki fulltrúar né málssvarar eigenda sjávarjarða. Um fullkomið ábyrgðarleysi er að ræða að þeir séu í umboðslausum viðræðum og taki ákvarðanir á fundum með erlendum aðilum vegna hagsmuna í sjávarauðlindinni umhverfis Ísland án þess að hagsmunaaðilar eignarréttinda séu nærstaddir.

 Makríll fer á milli ytra svæðis í íslenskri landhelgi og netlaga í einkaeign.  Hann er því svo nefndur flökkustofn.  Á sama hátt fer makríll á milli efnahagslögsögu Evrópusambandsins, Noregs, Færeyja og Íslands.  Á þeim grundvelli byggir Ísland kröfu sína um hlutdeild í stofninum.

Samtök eigenda sjávarjarða setja fram þá ósk til sjávarútvegsráðherra, að hann sjái til þess að látið verði af þessum viðræðum þar til réttir og löglegir aðilar hafa verið skipaðir í þær.

 

Virðingarfyllst,

f.h Samtaka eigenda sjávarjarða

 

Ómar Antonsson, formaður.

 

Meðfylgjandi:

1.     Auglýsing 3. október 2003.

2.     Bréf, dags. 7. nóvember 2002 til Dr. Franz Fischler, Commissioner for Agriculture, Rural Development and Fisheries.


Translated copy from the Icelandic sent to:

 • Mr. John Spencer, Adviser, at the Directorate General for Maritime Affairs and Fisheries (DG MARE).  EU’s negotiator on mackerel.  E-mail:       edward-john.spencer@ec.europa.eu
 • Mrs. Elisabeth Aspaker, Norwegian Minister of Fisheries, PO Box 8118 Dep., N 0032, Oslo, Norge.  E-mail:  postmottak@nfd.dep.no
 • Mr. Jacob Vestergaard, Fareo Islands´ Minister of Fisheries.  E-mail            fisk@fisk.fo

 

Úr ræðum þingmanna (ráðherra) á Alþingi.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins vill að farið sé að íslenskum lögum, í stað þess að sýna aðgerðarleysi gegn lögbroti á eigendum sjávarjarða eins og flestum öðrum þingmönnum er tamt. Hann kemur að kjarna málsins í baráttu SES við ríkisvaldið í eftirfarandi setningu  „Ríkið fer þarna fram í valdi þess að vera hinn sterki og þeir sem eiga jarðirnar verða fyrir bótalausu eignarnámi vegna þess að þeir geta ekki varist ríkisvaldinu“. Þetta ber vott um kjark og heiðarleika viðkomandi þingmanns.

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins og núverandi sjávarútvegs- , landbúnaðar-, umhverfis- og auðlindaráðherra rennur einnig blóðið til skyldunnar og í erindi á Alþingi bendir hann á nauðsyn þess að koma þessum málum á hrein og hann segir meðal annars  “ …er ákaflega mikilvægt að Alþingi og ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins hafi eitthvert frumkvæði að því og hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd taki það til sín strax á næsta hausti. Það er ákaflega mikilvægt að þetta verði gert og samræmt þarna markmið jarðalaga og eins markmið laga um eignarrétt íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins, og það skilgreint“.

Nú stjórnar Sigurður Ingi þessu ráðuneyti og mun því örugglega sjá til þess að þetta mikilvæga mál verði farsællega til lykta leitt. Fyrr en þessu máli er lokið mun réttlát og lagaleg skipulagning strandsvæða ekki vera möguleg og öll leyfi yfirvalda til atvinnustarfsemi í netlögum og nágrenni þeirra byggð á veikum grunni og munu lenda í uppnámi þegar eigendur sjávarjarða fá sinn lögvarða rétt til baka.

 

133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

útræðisréttur strandjarða.

140. mál

[15:20]

Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Útræðisréttur strandjarða er forn réttur sem ríkið hefur tekið bótalaust af eigendum jarðanna. Ríkið fer þarna fram í valdi þess að vera hinn sterki og þeir sem eiga jarðirnar verða fyrir bótalausu eignarnámi vegna þess að þeir geta ekki varist ríkisvaldinu.

Þetta minnir mig að hluta til á það sem gerist í framkvæmd ríkisins á þjóðlendulögunum. Þar fer ríkið líka fram í krafti þess að vera hinn sterki gegn þeim sem erfitt eiga með að verja sig. Ég fullyrði t.d. varðandi þjóðlendulögin að þeir þingmenn sem samþykktu þau á sínum tíma á hinu háa Alþingi gerðu sér aldrei grein fyrir því að ríkið mundi fara fram með því offorsi sem ríkið hefur gert og taka eignarlönd og lönd sem menn hafa þinglýsta pappíra fyrir og þinglýsta kaupsamninga af mönnum bótalaust, eins og gert var með útræðisrétt strandjarða.

139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

skeldýrarækt.

201. mál

[18:36]

Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

…………en það gerir það ekki og torveldar það reyndar að nokkru leyti.

Í umræðu hér síðustu daga um sjávarútvegsmál hefur verið rætt um það að hluti af svokölluðu veiðigjaldi eða auðlindarentu greinarinnar renni að einhverju leyti aftur til þeirra landsvæða þar sem auðlindarentan verður til. Ég tel það til bóta þó að ekki sé sama hvernig útfærslan á því er. En hér er einmitt verkefni þar sem slíkir fjármunir gætu komið að og veitir ekki af að koma fjármunum til atvinnusköpunar á því svæði. Í tillögum okkar framsóknarmanna í sambandi við sjávarútveginn og veiðileyfagjaldið hefur það einmitt verið tiltekið að hluti af þessu gjaldi eigi að fara til nýsköpunar í sjávarútvegi og síðan hafa verið tilteknir fleiri hlutir eins og til dæmis fiskeldi og rækt og þá ekki síst skeldýrarækt, kræklingarækt eða því um líkt. Það er ákaflega mikilvægt að við getum sett slíkan grundvöll undir uppbygginguna að einhverjir fjármunir séu líklegir.

Það hefur komið fram í umfjöllun að menn rugli saman eldi og ræktun. Áður fyrr, vegna þess að ekki voru til um það lög, var farið með kræklingarækt og aðra rækt eins og fiskeldi sem er allt annar hlutur.

Einnig hefur það komið til tals í nefndinni að skilgreiningar skorti, til dæmis hvað varðar eignarland og netlög. Samtök eigenda sjávarjarða hafa gagnrýnt það harðlega hvernig farið er með þau og verið er að tala um svæði sem tilheyra mörgum sjávarjörðum. Fulltrúar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins hafa að nokkru leyti vísað athugasemdum samtakanna á bug og lagt annað mat á þetta og meðal annars bent á að skilgreiningar séu fyrir hendi í öðrum lögum. Sem dæmi má nefna að bæði Bændasamtökin og Samtök eigenda sjávarjarða gagnrýndu skilgreininguna á hugtakinu netlög og lögðu samtökin til að skilgreiningu frumvarpsins yrði breytt til samræmis við skilgreiningu laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum. Á móti kom fram hjá fulltrúum ráðuneytisins að skilgreining frumvarpsins væri orðrétt í samræmi við skilgreiningu á þessu hugtaki í ýmsum öðrum lögum og með skilgreiningunni sé stefnt að samræmi. Það er kannski ofsögum sagt.

Skilgreiningar á netlögum hafa gegnum tíðina verið mismunandi. Þær skilgreiningar koma fram í gildandi löggjöf, til dæmis í Jónsbók, og í lögum settum af Alþingi, bæði fyrir og eftir lýðveldisstofnun. Margar þessar skilgreiningar standa óbreyttar frá fornu fari og hefur Alþingi hingað til ekki séð tilefni til að gera breytingar á þeim. En í ljósi þessarar gagnrýni frá Samtökum íslenskra eigenda sjávarjarða, Bændasamtakanna og fleiri er ákaflega mikilvægt að Alþingi og ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins hafi eitthvert frumkvæði að því og hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd taki það til sín strax á næsta hausti. Það er ákaflega mikilvægt að þetta verði gert og samræmt þarna markmið jarðalaga og eins markmið laga um eignarrétt íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins, og það skilgreint.

Aðrir hlutir sem ég gagnrýndi í frumvarpinu þegar það kom fyrst fram var………..

 

Bréf til skipulagsstjóra, 24. janúar 2014

Samtök eigenda sjávarjarða.

Pósthólf 90,

780 Hornafirði.

 Skipulagsstofnun,

Ásdís Hlökk Theódórsdóttir, skipulagsstjóri,

 Laugavegi 166, 150 Reykjavík.

asdishlokk@skipulagsstofnun.is

 Hornafirði, 24. janúar 2014.

Málefni:

Skipulagsstofnun fari að lögum og reglum sem henni eru settar til að starfa eftir og sjái til þess að eigendur sjávarjarða séu hafðir með í ráðum við skipulag á eða í nálægð við stjórnarskrárvarin eignaréttindi þeirra.

Samtök eigenda sjávarjarða (SES) vísa í neðangreinda skipulagsreglugerð nr. 90 frá 16. janúar 2013, 1. Kafli, gr. 1.1.

Markmið reglugerðar þessarar eru:

a) að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir þar sem efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi er haft að leiðarljósi,

b) að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi,

c) að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi,

d) að tryggja að samráð sé haft við almenning* við gerð skipulagsáætlana þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana,

e) að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar við gerð skipulagsáætlana varðandi útlit bygginga og form og aðgengi fyrir alla.

 *Almenningur: Einn eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar, samtök þeirra, félög eða hópar

 1.2. gr.

Gildissvið.  Reglugerð þessi gildir um gerð skipulagsáætlana, meðferð og framsetningu þeirra ásamt grenndarkynningu og veitingu meðmæla með framkvæmda- og byggingarleyfum þar sem skipulag liggur ekki fyrir. Reglugerðin nær til landsins alls og hafs innan sveitarfélagamarka. Bygging húsa og annarra mannvirkja ofan jarðar og neðan og aðrar framkvæmdir og aðgerðir sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. ákvæði skipulagslaga, laga um mannvirki og reglugerða settra samkvæmt þeim.

 Við bendum á að Skipulagsstofnun hefur virt að vettugi rétt SES sem fulltrúa eigenda sjávarjarða á Íslandi, með því að gæta ekki réttaröryggis eigenda sjávarjarða og hafa ekki samráð við þá um skipulagsmál í netlögum, sem hafa bein áhrif á eign þeirra og efnahag eins og að leyfa mannvirki t.d. fráveitur, fiskeldi, strenglagnir um netlög og fjörur og leyfi til efnistöku á hafsbotni svo eitthvað sé nefnt, án minnsta samráðs (þess ber að geta að sjórinn og lífríkið er á ferðinni milli netlaga og ytra svæðis).

 Eigendur sjávarjarða eru meðeigendur í sjávarauðlindinni með lögvarinni einkaeign sinni á sjónum og því sem honum tilheyrir og hafsbotninum út á ca. 7 metra dýpi frá fjöruborði á stórstraumsfjöru sem er dýptarviðmið og gildir um fiskveiðar, sjá Rekabálk Jónsbókar 1281. Einnig gildir fjarlægðarreglan (60 faðmar) 115 m, frá stórstraumsfjöruborði um önnur réttindi, sjá Veiðitilskipunina 1849.  Auk þess er vísað í álit Mannréttindadómstóls Evrópu sem er eftirfarandi: 

3.  The Courts´s  assessment:

“Moreover, the Court finds that the applicant´s right to engage in fishing in the net zone adjacent to the coastal property in question constituted  a  “possession” within the meaning of Article 1 of protocol No. 1”.

 Skipulagsstofnun hefur ekkert samráð haft við löglega hlutaðeigndur í sjávarauðlindinni, þ.e. eigendur sjávarjarða og þar með netlaga, t.d. þegar umhverfismat fer fram vegna sjávareldis. 

 Þess er krafist að skipulagsstofnun fari að lögum og reglum sem henni eru settar til að starfa eftir og sjái til þess að Samtök eigenda sjávarjarða séu höfð með í ráðum við skipulag á eða í næsta nágrenni við stjórnarskrárvarin eignaréttindi þeirra.

Virðingarfyllst,

F.h. samtaka eigenda sjávarjarða.

Ómar Antonsson, formaður

omar@litlahorn.is

Meðfylgjandi er til upplýsinga:

 1. Auglýsing samtakanna 3. október 2003.
 2. Letter, dated 7th November 2002 to EU Commissioner Dr. Franz Fischler.
 3. Assessment of the European Court of Human Rights, Council of Europe.

Case no.  40169/05,  2 December 2008.

 1. Bréf, dags. 18. nóvember 2013 til Matís ohf, til upplýsinga.
 1. Ses upplýsingar 12 erindi vegna sjávarjarða.
 2. Ses atvinnuveganefnd glærur 31okt2011.

 Afrit:

Samband íslenskra sveitarfélaga

formadurhh@samband.is

Innanríkisráðuneytið

hanna.birna.kristjansdottir@irr.is

Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið

sigurdur.ingi.johannsson@anr.is

Stjórn Samtaka eigenda sjávarjarða.

Bréf frá félaga – veiðar á sjógöngusilung í netlögum

Til umhugsunar fyrir íslenska þjóð !

 Megin tilgangur þessara skrifa er, hve almennt er orðið í íslensku samfélagi, að settar séu athöfnum einstaklinga sem og atvinnulífi einhverskonar reglur og lagabókstafir. Oftar en ekki eru reglur þessar studdar lagabókstöfum Evrópusambandsins ellegar bara alþjóðalögum. Stundum þykir mér sem stjórnvöld hreinlega gangist upp í því að sækja sér lagafyrirmyndir út fyrir landsteinana og tjóir þá lítið vesölum almúgamanni að þverskallast við. Það er að verða ískyggilega stór hluti vinnandi fólks á íslandi sem hefur af því atvinnu að gæta þess að granni hans fari að settum lögum og reglugerðum.

Alveg sérstaka furðu vekur undirrituðum þó nýlega sett reglugerð Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis No 449/2013, „um búnað og frágang neta vegna veiða göngusilungs í sjó“. Nú er undirritaður ekki beint hagsmunaaðili sem eigandi né lögbýlingur á sjávarjörð, en hef þó komið að veiðum sem liðsmaður veiðirétthafa á Meyjarhóli í Svalbarðsstrandarhreppi. Ómælt hagræði hefur verið að fyrirkomulagi veiðanna með tildrætti sem nú er bannaður með öllu samkvæmt hinni nýju reglugerð. Veiðarnar hafa stundað tvær háaldraðar manneskjur og gengið vel. Svo fullorðið fólk sinnir ekki lengur veiðum eftir gildistöku hinna nýju laga. Undirritaður hóf veiðar fyrir landeiganda við annan aðstoðarmann í byrjun júlímánaðar sl. Eftir að hafa gert tilskipaðar breytingar á veiðifyrirkomulaginu fengum við leigðan lítinn og hentugan vatnabát til vitjana. Flestir bátar landeigenda eru of stórir vélknúnir bátar, sem henta afar illa til vitjana frá fjörum. Netalögnin samanstóð af tveimur 25 metra samtengdum netum, samtals því 50 metra löng. Svo slysalega vildi til í einni vitjuninni, þegar við hugðumst snúa kænunni til lands, að við settumst báðir helst til of langt til sömu hliðar og hvolfdi þá bátnum afar skjótlega. Engin leið er að vega sig um borð í svo lítið far, og því ekki annað í stöðunni en synda til lands. Eftir að hafa losað okkur úr netinu syntum við þessa 50 metra að landi. Í þessu umrædda tilviki áttu í hlut sæmilega syndir karlmenn og því ekki veruleg vá fyrir dyrum, – og þó. Ekki verður í þessari frásögn frekar fjallað um það hættustig sem skapaðist, en 50 metra sjósund kappklæddra og stígvélaðra manna er þéttings áraun. Undirritaður er all vel kunnugur aðstæðum við sjóveiði í silunganet á jörðum í Svalbarðs- og Grýtubakkahreppi og þeim ábúendum sem þær stunda. Sumir þessara ábúenda munu ekki stunda þessar veiðar hér eftir bæði vegna hás aldurs og ekki síður vegna fjárútláta samfara nýjum veiðiaðferðum. þetta er hin ramma staðreynd.

Því verður ekki annað séð en hið nýja fyrirkomulag veiðanna sé í hæsta máta plagandi fyrir flesta veiðirétthafa landið um kring og næsta óskiljanleg tilskipan heilbrigt hugsandi fólki.

Afar ógeðfelldur orðrómur er á kreiki, nefnilega sá, að helstu tillögumenn að breytingunni séu skipaðir eftirlitsmenn veiðanna. Ekkert verður fullyrt í þessum skrifum þar um, en sé svo, ættu viðkomandi að finna sér annan og mannúðlegri starfa en slíka tillögugerð af þessu tagi. Vafalítið reynist eftirlit veiða á silungi í sjó eftirlitsmönnum auðveldari með hinni nýju tilskipan, ekki síst þegar við er að eiga „síbrotamenn“ úr röðum veiðirétthafa, sem einskis láta ófreistað að fara á svig við lög.

Í þessu samhengi skal þó fullyrt, að þessi ævafornu hlunnindi sjávarjarða verða tæplega afnumin þrátt fyrir hina öflugu sveit eftirlits- og reglugerðasmiða í íslensku samfélagi. En í guðanna bænum, þá skulum við ekki missa sjónar á hinum mannlega þætti regluverksins, sem meðal annars er, að setja netaveiðum í sjó viti borið regluverk kringum skemmtilegar og hófsamar nytjar á sjógöngusilungi.

 

Ritað í byrjun september 2013,

Árni Geirhjörtur Jónsson

Kotabyggð 1

Svalbarðsstrandarhreppi.

Yfirgangurinn heldur áfram

REGLUGERÐ

um búnað og frágang neta vegna veiða göngusilungs í sjó.

 1. gr.

Reglugerð þessi varðar eingöngu lagnetaveiðar á silungi í sjó.

 2. gr.

Lagnet skal leggja innan netlaga og skal lengd þess ekki vera meiri en 50 metrar. Netið skal leggja þvert á fjöru og skal dýpt nets ekki fara yfir 2,5 metra.

 3. gr.

Óheimilt er að mynda gildru með staurum, grjóti eða öðrum föstum búnaði, en heimilt er að festa net í beina línu á stangir og fergja blýlínu svo net veiði við botn, enda séu endar netsins vel merktir með baujum. Útendi nets skal vera tryggilega festur í stjóra eða á stöng. Ekki er heimilt að setja lykkju í stjóra eða annan búnað við útenda nets sem nota mætti til að draga net frá eða að landi.

 4. gr.

Lagnet skal eigi vera smáriðnara en svo að 3,0 sm séu milli hnúta (6,0 sm riðill) þegar net eru vot. Netið skal hins vegar eigi vera stórriðnara en svo að 4,0 sm (leyfilegt frávik +/- 0,2 sm) séu milli hnúta (8,0 sm riðill) og notað sé einfalt girni, sem fari ekki yfir 0,4 mm að þykkt.

 5. gr.

Bil milli lagneta í sjó skal vera minnst 100 metrar eftir endilangri strönd. Mæla skal lengd nets frá útenda þess í bakka. Þó má bil aldrei vera skemmra en fimmföld lengd lagnets ásamt leiðara. Í sundum milli strandar og eyja eða hólma skal bil milli neta eftir endilöngu sundi vera hið sama og að framan getur, hvoru megin sunds sem net liggur.

 6. gr.

Net, sem ætlað er til veiða á göngusilungi, skal merkt í báða enda með bauju ásamt nafni ábúanda og lögbýlis, sem hefur umræddan veiðirétt. Ef maður veiðir fyrir landi annars aðila skal hann geta framvísað leyfi landeiganda til veiðanna og merkja netið með nafni og heimilisfangi sínu.

 7. gr.

Í samræmi við 2. mgr. 18. gr. laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum, er óheimilt að stunda netaveiðar á silungi í netlögum sjávarjarða frá kl. 22.00 á föstudagskvöldi til kl. 10.00 á þriðjudagsmorgni. Um annan friðunartíma fer samkvæmt lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.

 8. gr.

Um brot á ákvæðum þessarar reglugerðar fer samkvæmt 50. gr. laga nr. 61/2006, um lax- og sil­ungsveiði, með síðari breytingum, enda varði brotið ekki þyngri refsingu samkvæmt öðrum lögum.

 9. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 32. gr. laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi frá sama tíma reglugerð nr. 402/2012, um búnað og frágang neta vegna veiða göngusilungs í sjó.

 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 23. apríl 2013.

 F. h. r.

Ingvi Már Pálsson.

Sigríður Norðmann.

 B-deild – Útgáfud.: 13. maí 2013

 

http://www.reglugerd.is/interpro/dkm/WebGuard.nsf/b7fd33650490f8cf00256a07003476bb/06b34102117876ab00257b6b004dbf47?OpenDocument