Hvað eru netlög?

Netlög er sá hluti jarða sem nær út í sjó. Stærð þessa hlutar jarðarinnar er skilgreindur á tvo mismunandi vegu. Samkvæmt rannsóknum dr. Ole Lindquist (1994), segir Páll lögmaður Vídalín að í Jónsbókarhandriti standi eftirfarandi skýring á netlögum: „það eru netlög utarst, er selnet stendur grunn 20 möskva djúp að fjöru sjóar, og koma þá flár uppúr sjó, en það er 12 álna djúp að fjöru“ og í öðru má lesa „þat eru netlög utaz, er selnót stendur grunn 20 möskva djúp ath fjöru, oc komi þá flár uppúr sjó, þat er fjögra faðma djúp“. Þetta gefur okkur dýptarviðmiðið 6,88 metra. Þetta er í fullu gildi og getur því verið um talsvert hafsvæði að ræða þar sem aðgrunnt er.

Tilskipunin um veiðar á Íslandi, 20. júní 1849 segir í 3. gr. „ á landi skulu veiði ráða rétt landamerki jarðar hverrar. Ef jörð liggur að sjó, á eigandi veiðar á haf út, 60 faðma frá stórstraumsfjörumáli, og eru það netlög hans.“ (í dag er talað um 115 metra) 115 metrana á að nota þar sem aðdjúpt er en dýptarviðmiðið þar sem er aðgrunnt. Veiðitilskipunin gildir þó ekki um fiskveiðar heldur eingöngu um veiðar á fuglum og dýrum.

Það er mjög mikilvægt að landeigendur verji netlög sín af fullri hörku því þarna er um gríðarlega auðlind að ræða sem á bara eftir að vaxa að verðgildi. Óviðkomandi vilja nota ströndina og netlög í mörgum tilgangi, eins og fyrir skolplosun, landtök fyrir strengi, námuvinnslu, fiskveiðar, fiskeldi, orkuvinnslu, ferðaþjónustu, vegagerð, hafnir, varnargarða og jafnvel til ferskvatnsvinnslu, til að nefna nokkur dæmi.

„Undirstrikar að eignarréttur eigenda sjávarjarða er varinn“

Frétt úr Bændablaðinu 11. júní 2009. Eftir MÞÞ

Hæstiréttur hefur dæmt Íslenska gámafélagið ehf. til að greiða Sigurði Baldurssyni bónda á Sléttu við Reyðarfjörð 6,3 milljónir króna auk dráttarvaxta, að líkindum 13 til 14 milljónir króna í allt, en sanddæluskip á vegum félagsins dældi jarðefnum af botni fjarðarins undan bænum og innan netlaga hans.

„Undirstrikar að eignarréttur eigenda sjávarjarða er varinn“

Hæstiréttur hefur dæmt Íslenska gámafélagið ehf. til að greiða Sigurði Baldurssyni bónda á Sléttu við Reyðarfjörð 6,3 milljónir króna auk dráttarvaxta, að líkindum 13 til 14 milljónir króna í allt, en sanddæluskip á vegum félagsins dældi jarðefnum af botni fjarðarins undan bænum og innan netlaga hans. Félagið hélt því fram að efnistaka hefði öll farið fram utan netlaga Sléttu og benti á að Sigurður hefði veitt samþykki fyrir efnistöku en ekki hefði verið samið um verð.

Fram kom í dómi Hæstaréttar, sem féll á dögunum, að gámafélagið hefði ekki haldið til haga eða lagt fram gögn í málinu um hvar efni hefði verið tekið, þrátt fyrir að því hefði verið það í lófa lagið til að styðja þá staðhæfingu að jarðefni hefði ekki verið tekið innan netlaga Sléttu.

Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður og lögmaður Sigurðar segir að dómurinn sé stefnumarkandi og að hann auki mjög öryggi bænda og eigenda jarða við sjó. „Þessi dómur undirstrikar að eignaréttur eigenda sjávarjarða er varinn,“ segir hann og bendir á að samkvæmt netlögum hafi eigandi jarðar við sjó eða vatn umráðarétt yfir 115 metra breiðu belti frá stórstraumsfjörumáli og á sjó út.

Forsaga málsins er að við byggingu stórskipahafnar við Reyð arfjörð í tengslum við byggingu álvers tók verktaki, Íslenska gámafélagið, efni úr sjó vegna framkvæmdanna. Benti félagið á, sem fyrr segir, að Sigurður hefði veitt samþykki fyrir efnistöku en ekki hefði verið samið um verð. Sigurð tók að lengja eftir uppgjöri vegna efnistökunnar og innti forsvarsmenn félagsins eftir stöðu mála hvað það varðaði, en fékk þá þau svör að ekkert efni til hafnargerðarinnar hefði verið tekið á svæði sem tilheyrði jörð hans. Féllst Hæstiréttur ekki á þessa staðhæfingu Íslenska gámafélagsins, að efni hefði aðeins verið tekið utan netlaga Sléttu á svæði sem tilheyrði landi Fjarðabyggðar, enda báru vitni í málinu því við að hafa séð sanddæluskip við efnistöku nálægt landi og innan netlaga. Í yfirliti vegna efnistökunnar frá forsvarmönnum Arnarfells, sem um hana sá, kom fram að alls hefðu 126 þúsund rúmmetrar af sandi og möl verið fluttir í land með sanddæluskipinu til hafnargerðarinnar. Hæstarétti þótti jarðeigandi hafa sýnt fram á að gámafélagið hefði tekið efni úr landi hans og hann því eiga rétt á sanngjörnu endurgjaldi fyrir. Mótmælti gámafélagið kröfu Sigurðar um greiðslu á 75 krónur fyrir hvern rúmmetra af jarðefni og bar því við að kostnaður við vinnslu efna úr sjó væri hærri en þar sem þau væru tekin úr efnisnámu úr landi. Engin gögn voru þó lögð fram til stuðnings þessari málsástæðu.

Í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta, þar sem metin voru jarðefni sem tekin voru eignarnámi úr námu í landi Sléttu, sagði að ágreiningslaust væri að verðmæti þeirra hefði verið 50 krónur fyrir hvern rúmmetra og að nefndinni þætti það verð hæfilegt. Með hliðsjón af því var Íslenska gámafélagið ehf. dæmt til að greiða Sigurði Baldurssyni 50 krónur fyrir hvern rúmmetra með dráttarvöxtum frá því mánuði eftir að hann sendi félaginu bréf þar sem tiltekið var magn jarðefna, sem krafist var greiðslu fyrir, auk einingaverðs.

Karl Axelsson segir að í málinu hafi Hæstiréttur snúið sönnunarbyrði við; Íslenska gámafélagið hafi verið krafið um að sýna með óyggjandi hætti fram á að það hefði engin efni tekið í landi er tilheyrði Sigurði. Það hafi félagið ekki gert. „Þessi dómur er að mínu mati góður, hann undirstrikar rétt eigenda sjávarjarða um landið og hann hefur varnaðaráhrif. Ég tel að verktakar og aðrir hafi oft farið frjálslega um eign bænda og eigenda sjávarjarða hvað jarðefni varðar. Þetta er eign sem skiptir sífellt meira máli nú, þegar torveldara verður að afla jarðefna til framkvæmda í landi. Í þessari eign eru því fólgin mikil verðmæti,“segir Karl. Hann fagnar því þessari niðurstöðu Hæstaréttar og telur dóminn stefnumarkandi hvað varðar réttindi eigenda sjávarjarða innan netlaga.

Á útgerðin eftir að gera upp við bændur?

Undanfarin ár hafa síldveiðar upp í landssteina og innan netlaga jarða aukist verulega. Skip frá fjarlægum landshlutum hafa mokað upp síld í Grundarfirði og siglt með hana til sinnar heimahafnar til frekari vinnslu. Til eru lög sem segja fyrir um greiðslu vegna síldveiða innan netlaga jarða og fara þau hér á eftir. Bændur eigið þið kanski útistandandi skuld? Hvernig væri að kanna málið?

Lagasafn. Íslensk lög 15. maí 2009. Útgáfa 136b.

Tilskipun fyrir Ísland um síldar- og upsaveiði með nót 1872 12. febrúar

Breytt með l. 54/1935 (tóku gildi 30. jan. 1935), l. 4/1936 (tóku gildi 1. febr. 1936), l. 116/1990 (tóku gildi 31. des. 1990) og l. 19/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992 nema 1. og 3. mgr. 29. gr. sem tóku gildi 17. apríl 1991).

1. gr. Sérhverjum þeim, sem heimilt er að fiska í landhelgi, skal leyft að króa af síld eða upsa með nót upp að landi annars manns, og draga veiðina þar á land; svo má hann og setja þar báta, nætur og önnur veiðarfæri á land upp til aðgerðar og þerris, og salta þar niður aflann; en gjalda skal hann fyrir allt þetta landshlut, 4 af hundraði af veiðinni.

[Heimilt er að veiða með herpinót í netlögum annars manns, og skal þá gjalda landshlut, 3 af hundraði af veiðinni, enda sé nótinni ekki fest við land né lagt við festar í netlögum. Nótinni telst ekki lagt við festar, þótt skip, sem er að háfa veiði úr herpinót liggi fyrir akkeri. Nú er slíkri nót fest við land eða lagt við festar innan netlaga, og skal þá gjalda landshlut 4 af hundraði.]1) L. 4/1936, 1. gr.

2. gr. Geri nótarmenn með þessu skaða á túni, engjum eða haga, eða á friðlýstu æðarvarpi eða selalögnum, eða það verði almennum afnotum landeignarinnar til fyrirstöðu, skulu fyrir það koma sanngjarnar skaðabætur, sem óvilhallir menn er rétturinn nefnir þar til, skulu meta, ef mönnum kemur ekki saman.

3. gr. Landshlutur fellur undir ábúanda þeirrar jarðar, þar sem gjalda skal landshlut, þótt eigi sé hann eigandi jarðarinnar, nema öðruvísi sé um samið milli hans og landsdrottins.

4. gr. Hafi fleiri en einn tilkall til landshlutar af landi, þar sem landshlut skal greiða, er nótarformanninum heimilt að borga landshlut allan og skaðabætur fyrir skemmdir, sem kunna að hafa orðið á landeigninni, til einhvers þeirra, nema umboðsmaður gefi sig fram af hendi allra hinna, sem hlut eiga að máli.

5. gr. Þegar nót er upp dregin, er formaður skyldur til, áður en nótarmenn fara burt, að segja til veiðarinnar þeim, sem eftir næstu grein á undan á hlut að máli, og svo framarlega sem mönnum ekki hefir komið saman um annað, skal þá þegar gjalda landshlut með þeim parti af veiðinni, sem lögákveðinn er, og í því, sem veiðst hefir. Sé ekki farið eftir ákvörðun þessari, eða ef rangt er sagt til veiðarinnar, skal landshlutur goldinn tvöfalt. Sé rangt sagt til veiðarinnar í sviksamlegum tilgangi, kemur það þar að auk undir hin almennu hegningarlög.

6. gr. Bátar, veiðarfæri og afli nóteigenda skulu standa í veði fyrir landshlut og skaðabótum eftir 2. gr.

Sjá lögin í heild á vef Alþingis.