Kanna rétt Sama til fiskveiða út af Finnmörku

Frétt fengin frá Skip.is  3.7.2006 um rétt Sama til fiskveiða út af Finnmörku

Kanna rétt Sama til fiskveiða út af Finnmörku

Norska ríkisstjórnin hefur skipað nefnd sem á að fara ofan í saumana á réttarstöðu Sama og annarra hópa hvað varðar veiðar í norsku lögsögunni undan ströndum Finnmerkurfylkis. Þessi vinna tengist endurskoðun á hinum svokölluðu Finnmerkurlögum.

Í tilkynningu frá sjávarútvegsráðuneyti Noregs segir að Finnmerkurlögin fjalli m.a. um landnýtingu og rétt til veiða í ám, lækjum og vötnum í fylkinu, en ekki er kveðið á um fiskveiðar í hafinu.

Fulltrúar Sama hafa lengi krafist þess að fá leyfi til fiskveiða. Það sé réttur þeirra sem frumbyggja í Finnmörku. Svo virðist sem sjávarútvegsráðherra Noregs, Helga Pedersen sem er frá Finnmörku, hafi meiri skilning á kröfum Sama en fyrirrennarar hennar. Hún segir í tilkynningunni að með skipun nefndarinnar sé tryggt verði að tekið verði tillit til allra sjónarmiða. Nefndarformaður verður Carsten Smith fyrrverandi hæstaréttardómari.

Bréf frá Landbúnaðarráðherra

Tilnefning í samráðsnefnd

Landbúnaðarráðherra hefur óskað eftir að SES tilnefni mann í samráðsnefnd á vegum landbúnaðarráðuneytisins.

Landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að skipa samráðsnefnd, samkvæmt 1. kafla bráðabirgðaákvæðis laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði en þar segir:

„Frá gildistöku laga þessara og til loka ársins 2010 skal starfa samráðsnefnd um framkvæmd þeirra, laga um eldi vatnafiska, laga um Veiðimálastofnun, laga um fiskrækt og laga um varnir gegn fisksjúkdómum. Hlutverk samráðsnefndar er að fylgjast með og stuðla að greiðari framkvæmd og virkum skoðanaskiptum þeirra er lögin varða helst. Nefndin skal skipuð af landbúnaðarráðherra og í henni sitja ellefu fulltrúar tilnefndir af eftirtöldum aðilum: Landssambandi veiðifélaga, Landssambandi stangveiðifélaga, Landssambandi fiskeldisstöðva, Félagi eigenda sjávarjarða, fisksjúkdómanefnd, Veiðimálastofnun, Landbúnaðarstofnun, Fiskistofu, umhverfisráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti. Þá skipar landbúnaðarráðherra einn nefndarmann án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Samstarfsnefnd skv. 1. mgr. skal innan 18 mánaða frá gildistöku laga þessara og í samráði við hagsmunaaðila móta framtíðarstefnu um netaveiði á laxi og silungi og skila tillögum þar að lútandi til landbúnaðarráðherra, eftir atvikum í formi lagafrumvarps“.

Landbúnaðarráðuneytið leitar eftir því að Félag eigenda sjávarjarða tilnefni einn mann í ofangreinda samráðsnefnd.