Eignar- og útræðisréttur sjávarjarða.

Bréf til sjávarútvegsráðherra ( – Afrit – )

Reykjavík, 13. september 2004.

Hr. Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra
Sjávarútvegsráðuneytið
Skúlagötu 4
101 Reykjavík

Efni:  Eignar- og útræðisréttur sjávarjarða.

Samtök eigenda sjávarjarða, Pósthólf 90, 780 Homafirði, eru samtök þeirra sem eiga og eða nytja sjávarjarðir, svo og þeirra sem eru áhugamenn um hlunnindarétt jarða.Stór hluti eigenda sjávarjarða eiga aðild að samtökunum.

Tilgangur samtakanna er:

 • Að fá útrœðisrétt sjávarjarða virtan á ný og staðfestan í gildandi lögum um stjórn fiskveiða;
 • Að vinna að því að eignarréttindi sjávarjarða innan netlaga, sem og tiltöluleg eignarhlutdeild í sjávarauðlindinni í heild, verði virt og í heiðri höfð.

Samtök eigenda sjávarjarða hafa falið mér að skrifa yður eftirfarandi:

Samkvæmt lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða eru nytjastofnar á Íslandsmiðum sameign íslensku þjóðarinnar. Samkvæmt lögunum teljast til nytjastofna sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð í íslenskri fiskveiðilandhelgi og sérlög gilda ekki um.

Samkvæmt fiskveiðistjórnunarlögunum telst til fiskveiðilandhelgi Íslands hafsvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands eins og hún er skilgreind í lögum nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.

Við undirbúning og setningu laga um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 hefur þess ekki verið gætt, að eigendur sjávarjarða eiga svokölluð netlög, sem eru skilgreint belti sjávarins úti fyrir jörðunum mælt frá stórstraumsfjöruborði. Þetta merkir að netlögin eru háð einkaeignarrétti eigenda sjávarjarðanna og nær réttur þeirra til hvers kyns réttinda í sjónum innan netlaga, á sjávarbotni innan netlaga svo og undir sjávarbotni innan netlaga. Kemur þessi skilgreining víða fram í löggjöf. Nokkur ágreiningur kann að vera um hversu langt netlögin ná frá stórstraumsfjöruborði, en skilgreining þess skiptir ekki máli á þessu stigi málsins.

Með lögunum um stjórn fiskveiða hefur löggjafarvaldið ráðstafað réttindum eigenda sjávarjarða,  sem háð  eru  einkaeignarrétti,  og á sú ráðstöfun sér ekki stoð í stjórnarskránni. Með þeim takmörkunum á eignarréttindum eigenda sjávarjarða yfir netlögunum eru eignarréttindi yfir netlögunum skert með þeim hætti að ekki fær staðist  eignarréttarákvæði  stjórnarskrárinnar.  Alþingi  hefur  þó  ekki  heimilað framkvæmdavaldinu að taka umrædd réttindi að hluta eða öllu leyti eignarnámi, endaþarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Með lögum nr. 85/2002 og síðari breytingum var gerð sú breyting á lögum um stjórn fiskveiða, að samþykktur var nýr kafli, V. kafli, um veiðigjald. Leggja skal á veiðigjald fyrir veiðiheimildir sem veittar eru á grundvelli laganna. Í þessum nýja kafla laganna er nánar skilgreint hvernig reikna skuli út veiðigjaldið, hvernig skuli leggja það á og innheimta. Ekki er tekið fram hvert veiðigjaldið renni, en ætla verður að það renni í ríkissjóð. Ekki var haft samráð við eigendur sjávarjarða.

Óumdeilt er að nytjastofnar þeir á Íslandsmiðum, sem lög um stjórn fiskveiða ná til, eiga uppruna sinn m.a. í netlögum sjávarjarða. Með lögunum er annars vegar gert ráð fyrir því að skerða eignarréttindi eigenda sjávarjarða yfir netlögunum og hins vegar að innheimta gjald fyrir nýtingu nytjastofna, sem eiga sér uppruna að minnsta kosti að hluta í netlögum sjávarjarða. Ekki er gert ráð fyrir því að eigendur sjávarjarða hafi neinn umsagnarrétt um framangreint og enn síður er gert ráð fyrir því að hluti veiðigjaldsins renni til eigenda sjávarjarðanna, svo sem óhjákvæmilegt virðist vera að lögum.

Með vísan til framangreinds hefur umbj. m. falið mér að tilkynna yður, að óskað sé formlegra viðræðna um lausn framangreindra ágreiningsefna sem allra fyrst og hefjist þær eigi síðar en innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfs þessa. Berist mér ekki svarvið bréfi þessu innan tveggja vikna munu umbj. m. líta svo á að stjórnvöld hafni viðræðum við umbj. m. um lausn málsins og hyggist þar með halda áfram að skerða eignarréttindi þeirra og innheimta gjald af þeim sem nýta nytjastofnana án tillits til réttinda umbj. m. yfir nytjastofnunum og þar með rökréttri kröfu til hlutdeildar í umræddu gjaldi. Mun umbj. m. þá sækja rétt sinn lögum samkvæmt.
Afrit  af  bréfi  þessu  er  jafnframt  sent forsætisráðherra, fjármálaráðherra, umhverfisráðherra og landbúnaðarráðherra.

Rétt þykir að taka fram að þessi afstaða umbj. m. er ekki ný og vísast til meðfylgjandi bréfa umbj. m. til sjávarútvegsnefndar Alþingis 27. júlí 2001 og 4. febrúar 2002, bréfs umbj.  m.  til  landbúnaðaráðherra  19.  febrúar  2002,  bréfs  umbj.  m.  til sjávarútvegsnefndar 21. mars 2002, bréfs umbj. m. til umhverfisráðherra 4. febrúar 2003, bréfs umbj.  m.  til forsætisráðherra 6. júní 2003, brefs umbj.  m.  til sjávarútvegsnefndar 1. júlí 2003, bréfs umbj. m. til landbúnaðamefndar Alþingis 1. júlí 2003 og bréfs umbj. m. til sjávarútvegsráðherra 11. ágúst 2003. Afrit af bréfum þessum fylgja hér með.

Virðingarfyllst,
(sign)
Ragnar Aðalsteinsson hrl.

Innlagt:
Bréf til sjávarútvegsnefndar Alþingis 27. júlí 2001
Bréf til sjávarútvegsnefndar Alþingis 4. febrúar 2002
Bréf til landbúnaðaráðherra 19. febrúar 2002
Bréf til sjávarútvegsnefndar 21. mars 2002
Bréf til umhverfisráðherra 4. febrúar 2003
Bréf til forsætisráðherra 6. júní 2003
Bréf til sjávarútvegsnefndar l.júlí 2003
Bréf til landbúnaðarnefndar Alþingis l.júlí 2003
Bréf til sjávarútvegsráðherra 11. ágúst 2003.

Afrit:
Forsætisráðherra
Fjármálaráðherra
Umhverfisráðherra
Landbúnaðarráðherra

 

Samþyktir Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks

Samþyktir Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks

Hér að neðan má lesa samþykktar ályktanir frá ríkisstjórnarflokkunum sem tengjast útræðisrétti strandjarða.

Í ályktunarkafla samþykktum á 27. flokksþingi framsóknarflokksins um atvinnumál stendur meðal annars:

„Byggðakvóti verði aukinn til að treysta búsetu í viðkvæmustu sjávarbyggðum. Unnið verði að því að koma í veg fyrir brottkast afla. Útræðisréttur strandjarða verði virtur á ný og staðfestur í fiskveiðilögum.

Í stjórnmálaályktun sem samþykkt var á 35. landsfundi Sjálfstæðisflokksins má lesa eftirfarandi:

„…. sem m.a. hefur tengst hlunnindanýtingu og varðveislu verklegra hefða. Í þessu sambandi er einnig áhugavert að hugað verði að lagaákvæðum um forn útræðishlunnindi.

Ráðstefna haldin 22. nóvember 2002

Erindi á ráðstefnu

Samtök eigenda sjávarjarða efndu til ráðstefnu 22. nóvember 2002.

Efni hennar var „RÉTTUR SJÁVARJARÐA TIL ÚTRÆÐIS“

Mörg fróðleg erindi voru flutt á ráðstefnunni.

Birtast hér 3 þeirra, en öðrum verður bætt við síðar eða eins fljótt og kostur er

Ávarp Guðna Ágústssonar

RÉTTUR SJÁVARJARÐA TIL ÚTRÆÐIS
Ávarp landbúnaðarráðherra, Guðna Ágústssonar,  á ráðstefnu Samtaka eigenda sjávarjarðaí Bændahöllinni 22. nóvember 2002

Við lesum það í Íslandssögunni að þegar illa áraði flutti fólkið að sjónum. Við lesum í Íslendingasögunum að höfðingjasetrin voru nálægt sjó eða áttu ítök við sjó. Nútímabóndinn fær þetta vart skilið. Þegar hann ekur um Breiðafjörðinn sér hann þar fyrrum stórbýli með lítið undirlendi og litla ræktunarmöguleika. En þar er gott sauðland og þar er fjaran og sjórinn með öllu sínu lífi og lífríki. Íslenski bóndinn sótti björg í bú og nýtti til þess öll ráð sem hann kunni og þó erfitt væri til lands þá gaf sjórinn og fjaran lengi það sem þurfti til að komast af.

Þegar ræktunarbúskapur varð lykilorð í íslenskum landbúnaði á síðustu öld urðu miklar breytingar. Sjálfsþurftarhugsunin vék fyrir nýjum tækifærum og bændur tóku þátt í þeirri þjóðfélagsbreytingu sem enn stendur. Landgæði og ræktunarmöguleikar voru aðgangur bænda að nýjum tímum, nýrri uppbyggingu, nýrri sókn. Þá gerist það að önnur gildi víkja og menn einhenda sér að nýjum verkefnum. Þéttbýlismyndun, verkaskipting, sérhæfing voru stór þáttur í þessum breytingum og bændur tóku þátt í þeim af heilum hug. Hlunnindabúskapur ýmiss konar var tímafrekur og oft erfiður og tækni til að létta störf fylgdi ekki öðrum tæknibreytingum. Þá tók sjórinn sinn skerf því það var aldrei hættulaust að róa til fiskjar á opnum bátum.

Samfara þessum breytingum varð til öflug stétt útgerðamanna sem samhliða veiðum stundaði vinnslu á sínum afla, bast samtökum um sölu afurða og vann gott starf fyrir þjóðarbúið. Þá var erfitt fyrir bændur að keppa við útgerðamennina í sjósókn, samgöngur stopular og vont að koma afla til vinnslu þannig að uppfyllti þá staðla sem til hennar voru gerðir.

Á þessum tímum háðum við einnig nýja sjálfstæðisbaráttu er landhelgin var stækkuð í áföngum í 200 mílur. Erlendu skipin hurfu og bændur og aðrir þeir sem stunduðu nærmiðin fengu að vera í friði með sín veiðarfæri.
Þó ég hafi ekki farið ítarlega yfir þessa þróun s.s. aflatölur, fjölda jarða sem nýttu sitt útræði, fjárhagslega hagsmuni og aðrar lykilstærðir tel ég ljóst að nýting þessara réttinda minnkaði mjög mikið. Það hlýtur að vera tengt mikilli veiði annarra á þessum tíma og tiltölulega lágu verði afurða, a.m.k. í samburði við það sem nú þekkist.

Þessi þróun hélt áfram, tækni jókst, skipum fjölgaði og þau stækkuðu og gátu sótt lengra en áður og haldið gæðum aflans lengur en áður. Svo fór að sóknin varð of mikil, fiskistofnar gáfu sig og nauðsynlegt var talið að takmarka sókn. Þá varð til grunnurinn að því fiskveiðistjórnunarkerfi sem við nú búum við.

Það kerfi var sett af illri nauðsyn, um það er ekki deilt. Það er miklu fremur deilt um hvernig það hefur þróast og hver áhrif þess eru á þjóðarhag og byggðir landsins. Það var von þeirra sem settu þetta kerfi í upphafi að það væri tímabundið og sá réttur manna að sækja í sameiginlegan sjóð auðlindarinnar yrði aftur virkur. Það hefur ekki gerst enn.

Það mál sem hér er sérstaklega til skoðunar er fyrir margra hluta sakir mjög áhugavert. Lögfræðingar hafa farið yfir þetta mál og eru auðvitað ekki sammála um þessa hluti. Ég þykist þó greina það í þeirra skrifum að réttur jarðanna sé fyrir hendi. Þessi réttur hefur verið metinn í fasteigna- og jarðamati og sannanlega eru þau nýtanleg með nútímatækni og nú er einnig nægur mannskapur til að sinna þessum störfum samhliða öðrum störfum í búskapnum.

Mig undrar ekki að þessi umræða sé komin fram með þeim hætti sem þessi fundur boðar. Hér eru tækifæri til að treysta byggðir og til að auka atvinnu og það er ekki undarlegt að eigendur vilji kanna með hvaða hætti þessi meinta eign þeirra sé virk. Og sjórinn við strendur landsins bíður upp á fleiri möguleika en veiðar. Þar er hægt að stunda ýmsan atvinnurekstur, ég vil nefna hér kræklingaeldi, þannig að það er mjög skiljanlegt að vísað sé til fortíðar og þessi mál tekinn upp. Ég get ekki tekið afstöðu til þessa máls hér í dag en ég lýsi mig reiðubúinn til að vinna að lausn þess.

Þessi umræða minnir á annað mál sem fer hátt í umræðu dagsins. Það er þjóðlendumálið. Í áratugi höfðu menn deilt um það hver væri eigandi ákveðinna landssvæða. Ákveðnir flokkar vildu taka allt land af bændum og nýtingu þess. Deilt var um hvort til væri einskinsmanns land, hver færi með afnotaréttinn og hver færi með opinbert forræði landsins. Alþingi leysti það mál með lögum um þjóðlendur og ég tel að í samráði við bændur hafi verið mörkuð góð stefna. Ég er auðvitað ekki ánægður með allan framgang þess máls en ég er sáttur við hversu dómar féllu á Suðurlandi. Í þeim lögum er líka kveðið skýrt á um beitarrétt, nýtingu veiðiréttar og forræði. Það kostar að vísu átök við stjórnarandstöðuna en þessi afnota- og beitarréttur hlaut að vera bændanna. Þúsund ára réttur bænda var staðfestur á Alþingi með stækkun sveitarfélaga til jökla. Auðvitað gátu bændur gerst óbilgjarnir og talið afrétti eign jarða eða sveitarfélaga. Þeir réttu sáttarhönd og áttu alls ekki von á stríði af hálfu ríkisins um þinglýst eignamörk jarða við hálendið.

Ég velti því fyrir mér hvort hægt sé að fara sömu leið í þessu máli, hvort hægt sé að ná sátt um meintan eigna- eða afnotarétt. Þá yrði skoðaður réttur til að nýta bætur eða gjald til þeirra sem þennan rétt eiga, verði það metið svo.
Ég óttast að verði málinu haldið áfram af fullum þunga og lítilli sanngirni af beggja hálfu þá stefni í óefni. Í lögfræðiáliti sem ég hef séð t.d. frá Skúla Magnússyni lektor og Má Péturssyni lögfræðingi Bændasamtaka Íslands eru álitaefnin mörg og það tæki alltof langan tíma að fá úrlausn eftir þeim leiðum.

Fiskveiðistjórnunarkerfið er auðvitað stöðugt til endurskoðunar og við þá endurskoðun verður að taka tillit til margra þátta. Sá þáttur sem hér um ræðir er einn af þeim og nefndin sem endurskoðaði lögin um fiskveiðistjórnun tók hann með í sinni vinnu en lagðist gegn því að þessi meinti eignaréttur verði virkur.

En lífið heldur áfram og ekkert stendur í stað. Nú heyrum við af nýjum kröfum Evrópusambandsins að við breytingar á EES-samningi verði það krafa þeirra að fá heimild til að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi. Fram að þessu hefur sú regla verið skýr að það er ekki heimilt. Fiskistofnarnir eru þjóðareign og ég sé ekki að þeir verði nein skiptimynt í samningum við ESB og munu aldrei verða. Áður en það gerist mun mikið vatn renna til sjávar.

Það eru kannski svona hugmyndir og fréttir sem vekja mann til umhugsunar. Við verðum að vera reiðubúin til að líta í eigin barm og vera ófeimin við að skoða breytingar á því kerfi sem við búum við um stjórn fiskveiða. Réttur jarðeigenda til að nýta staðbundna fiskistofna er einn af þeim þáttum. Ég endurtek að ég er tilbúinn að fara yfir það mál með samherjum mínum á Alþingi og í ríkisstjórn.

Erindi Guðrúnar Ásu

ÚTRÆÐI FRÁ SJÁVARJÖRÐUM – SAGA, HEFÐIR, RÉTTUR
Guðrún Ása Grímsdóttir, sérfræðingur á Árnastofnun.

Erindi á ráðstefnu Samtaka eigenda sjávarjarða 22. nóvember 2002.

Af ákvæðum í rekabálki Jónsbókar, sem sótt eru í Grágás, verður ekki annað ráðið en að eigandi sjávarjarðar eigi skýlausan rétt á öllu sjávargagni fyrir landi sínu innan við netlög. Það er að nútímamáli 115 metra færi út frá stórstraumsfjörumörkum. Að auki á landeigandi rétt á reka, eða eins og í lögunum segir, hann á „allt það er flýtur“ á svo löngu færi að maður sjái úr fjörumáli fisk á borði báts úti fyrir landi. Um fiskveiðirétt utan við netlög er lögbókin skýr: „Allir menn eigu að veiða fyrir utan netlög að ósekju“ (Jónsbók, 196). þetta merkir að utan tilgreindra takmarka er sjávarfiskur talinn óskipt hlunnindi sem hver megi sækja að frjálsu. En máltækið segir: Þeir fiska sem róa.

Ég tók að mér að reifa ögn á þessu þingi sögu og hefðarrétt útræðisjarða til fiskveiða. Ég ætla mér engan veginn að segja þá óendanlegu sögu, heldur grípa niður í einstök dæmi til íhugunar um það, hvernig lagaákvæðinu „Allir menn eigu að veiða fyrir utan netlög að ósekju“ var fylgt eftir og hvort þessi lagabókstafur hafi í reynd þróast eigendum sjávarjarða meir í vil en öðrum.

Nú er vitað mál að þegar í upphafi bygg›ar var landi skipt þannig að einungis lönd ákveðinna jarða lágu að sjó en aðrar ekki. Og það mun ótvírætt að landamerki sjávarjarða voru miðuð við fjörumörk, náðu ekki útí sjó. þannig segir til að mynda um landamerki Mýrartungu í Króksfirði í bréfi frá 17. öld: „Þessum jarðarinnar landamerkjum ítakalaust sem er að austan Bæjará ofan úr fjalli til fjöru, en að vestan Geitará ofan úr fjalli og Laxá, síðan ræður Laxá til sjóar“ (Bréfabók Brynjólfs biskups, AM 271 fol., nr. 114). Í lýsingu Jarðabókar ÁMPV segir svo um Bæ í Trékyllisvík: „Jörðin á ekkert til sjófar, en vík ein, kölluð Kolgrafarvík á millum Skarðs og Knarrarness, er lögð jörðunni til húsa ….“ (Jarðabók ÁMPV VII, bls. 388). Orðalagið „til sjóvar“ er fast í landamerkjalýsingum sjávarjarða og vísar til þess að landamerki enda við sjó, þótt rekamörk og netlög jarðar teygist utar. Til samanburðar má minna á að í landamerkjalýsingum heiðajarða sem eiga afréttalönd er algengt orðalag að lönd skiptist „þar sem vötnum hallar“ og er þá miðað við landamerki á vatnaskilum á heiðum uppi.

Sjávarjarðir, þar sem var náttúruleg lending fyrir hendi og skammt á mið, voru einna hæst metnar að dýrleika að fornu mati á sama hátt og jarðir, sem víðáttumikil afréttarlönd liggja undir, voru hærra metnar en aðrar. Réttur ábúenda sjávarjarða til þess að stunda heimræði er jafn skýlaus og beitarréttur ábúenda heiðajarða og hvorttveggja, heimræði og beit, er talið með hlunnindum jarða. Dæmi má taka af Saurbæ á Rauðasandi, sextíu hundraða jörð skv. Jarðabók ÁMPV. Meðal ríkismanna á fyrri hluta fimmtándu aldar gekk Saurbær kaupum og sölum  „með öllum þeim gögnum og gæðum sem Bæ hafði fylgt að fornu og nýju“ (Ísl. fornbréfasafn IV, 262). Hlunnindum jarðarinnar, þ.e.a.s. gögnum hennar og gæðum, er hinsvegar fyrst lýst í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns meðal annars með þessum orðum: Hrísrif til eldiviðar nokkuð. Silúngsveiði nokkur, hefur fyrrum meiri verið. Grasatekja nokkur á fjöllum. Selveiði að gagni. Reki góður. Sölvafjara undir Naustabrekku. Heimræði á sumrum, þá fiskur er fyrir og vegna brims gefur (Jb. ÁMPV VI, 299). Hér er ótvírætt að heimræði er talið með hlunnindum jarðarinnar og því innifalið í verðmætamati hennar, og þess vegna skýlaus eign jarðareiganda. Þessu til áréttingar má taka annað dæmi úr Jarðabókinni frá Stakkhamri í Miklaholtshreppi: „Heimræði á jörðin og verstöðu um vor sumar og haust þar sem heitir Stekkhamarsnes, gengur þar skip heimabóndans og stundum inntökuskip“ (Jb ÁM PV V, 51).

En spurning er með hverjum hætti nýttu sjávarbændur þau sérstöku hlunnindi jarðarinnar að eiga lendingu í heimalandi og stutt á mið að sækja? Mér vitanlega hefir enginn kafað djúpt í heimildir eða hugskot sitt til þess að kanna sérstaklega þýðingu heimræðis fyrir ábúendur sjávarjarða strand lengis umhverfis landið. Sem þó er undarlegt miðað við hið gríðarlega heimildamagn sem hafa má uppúr Íslenzku fornbréfasafni að ekki sé minnst á Jarðabók Árna og Páls sem enginn hefir notað gagngert í þessu skyni. Og þetta er því undarlegra ef hafðar eru í huga allar þær fullyrðingar sem uppi eru hafðar í ræðu sem riti um það að meginstefna ráðandi manna í landinu allar aldir fram á þá tuttugustu hafi verið að hindra að íslenskur sjávarútvegur fengi að þróast á vísu fiskveiðandi þjóða við Norður Atlantshaf þar sem borgir risu við strendur. Ég held að þeir sem halda því fram að íslenskur sjávarútvegur hafi öldum saman verið eftirbátur landbúnaðar séu á villigötum. Við getum horft til Vestfjarða í þessu tilliti. Það má telja nær fullvíst að vegna takmarkaðs graslendis séu jarðir þar óbyggilegar af landbúskap einum og hefðu aldrei af honum einum getað alið allan þann fjölda fólks sem þar óx upp og æxlaðist um aldir allt vestan af Rauðasandi og norður um Strandir í Hrútafjarðarbotn. Í annálum fyrri alda er margoft greint frá því að þegar harðæri voru í landi og búfjárfellir í góðsveitum flykktist fólk vestur á firði í von um lífsbjörg. Sterkasti vitnisburður um að árabátaútgerð var lífsmagn vestfirskra byggða er sú staðreynd að þaðan fóru einungis örfáir til Vesturheims þegar þangað voru fólksflutningar miklir úr öllum öðrum héruðum landsins. Vestfirðingar sátu við sinn keip og fiskuðu á heimamiðum jafnt og í útverum uns stórskipaútgerð kom til á Íslandsmiðum og fjöldi bæja lagðist sjálfkrafa í auðn. Trollveiðar skröpuðu burt lífsskilyrði fiska á grunnmiðum þar sem víðast hvar var einungis árabátum lendandi frá náttúrunnar hendi. Ábúendur á sjávarjörðum voru vitaskuld í mun betri færum að afla fiskjar en þeir sem bjuggu á landi sem ekki náði að sjó. Þótt fiskurinn undan landi væri öllum frjáls að landslögum, var þó ekki sjálfgefið að hægt væri að róa frá sjávarjörð; allt valt á því að lending væri hentug og ekki langræði á fiskimið. Og þar sem svo hagaði til sóttust aðrir, sem ekki höfðu land að sjó, eftir aðstöðu til útgerðar: lendingu, skipsuppsátri, búðarstöðu og verkunaraðstöðu á mölum. Allt þetta þurfti nokkurt landrými sem kom niður á lífsrými ábúenda jarðanna þar sem skilyrði voru hentug til útgerðar. Sá sem vildi gera út skip frá annars manns jörð hlaut því að gjalda landsdrottni eða ábúanda sjávarjarðar vertoll eða undirgift fyrir afnot af landi og gilti það jafnt hvort heldur var heimræði frá jörð eða róið úr útverum. Af heimildum er ljóst að þetta gjald var ekki tekið af fiskveiðum heldur landnotum. Vertollur á sér langa sögu aftur í aldir, og er einkum tengdur höfuðbólum á Vestfjörðum eins og Hóli í Bolungarvík eða Vatnsfirði við Djúp að öðrum mörgum jörðum ónefndum. Orðið vertollur var haft um gjaldið á miðöldum jafnt og á síðari öldum, helst var það notað á Snæfellsnesi að hluta og í Dala-, Barðastrandar-, Ísafjarðar-, og Þingeyjarsýslum. Orðið undirgift tíðkaðist hinsvegar víðast hvar um sunnan og suðvestanvert landið og jafnvel fyrir norðan allt frá 16. öld, en það hefir án efa borist hingað með konungsútgerð sem stórjókst á 16. öld. Í erindisbréfi Knúts Steinssonar hirðstjóra til Íslandsferðar á útmánuðum 1555 er þessi skilgreining á tollinum í Vestmannaeyjum og má ætla að hún eigi víðar við: „… þeir sem útróðrarskip hafa fyrir kongsins landi, þeir skulu gefa kong. mæestet undirgipt af sínum skipum, sem vani er til að gefa undir skip á Íslandi“ (Ísl. fornbréfasafn XIII, 15). Orðalagið er skýrt, gjaldið er greitt ábúanda undir skip, þ.e.a.s. undir skipstöðu, búð og verkunaraðstöðu í landi og mun venjan hafa verið sú að gjalda landeiganda eða ábúanda einn lóðarfisk af hverju skipi úr hverjum róðri.

En hugum nú ögn að því hverjir áttu helst sjávarjarðir? Hverjir reru? Hverjir fiskuðu? Snemma á öldum helguðu kirkjustofnanir og auðmenn sér með einhverju móti tollfría skipstöðu á jörðum þaðan sem best var að gera út. Hvað varðar veraldlega auðmenn má minnast á Bessastaði þar sem Snorri Sturluson hafði bú á 13. öld og kóngsvaldið danska sat síðar og gerði út báta í svo stórum stíl að Álftanes kallaðist Kóngsnes á seytjándu öld. Guðmundur Arason hinn ríki sem kenndur er við Reykhóla í Reykhólasveit og var uppi á fyrri hluta fimmtándu aldar, auðgaðist með eindæmum, en hlaut óvild venslamanna sinna og sviptur eigum hvarf hann úr landi 1448. Þá voru auðæfi hans uppskrifuð, féllu undir kóng en mágar hans, Björn hinn ríki og Einar Þorleifssynir keyptu. Á mektardögum sínum átti Guðmundur sex höfuðból og lágu lönd nær allra að sjó: Reykjahólar í Reykjahólasveit, Kaldaðarnes í Bjarnarfirði, Núpur í Dýrafirði, Brjámslækur á Barðaströnd, Saurbær á Rauðasandi og Fell í Kollafirði en fjöldi jarða lá undir hvert þetta höfuðból hans (Ísl. fornbréfasafn IV, 683–694). Nær öll höfððból Guðmundar voru 60 hundraða jarðir, góðbýli miðsveitis með skjólgóð og grasloðin lönd fyrir búsmala og af fimm þeirra nýttist allt sjávargagn sem auðið verður, enda voru stórskip í nausti á hverju hans býli.

Eftir máldögum voru kirkjum tryggð réttindi á skipstöðu hvar sem því var við komið. Til að mynda átti kirkjan á Núpi í Dýrafirði samkvæmt Vilkinsmáldaga 1397 skipshöfn á Skaga tolllaust og eiga innstir reit á Melum og skálagjörð á Brekku (Ísl. fornbréfasafn IV, 143). Kirkjan á Mýrum í Dýrafirði átti „skálagjörð á Fjallnes. Hafa skip í fiski hvort heldur sem vill sexært eður áttært og taka sjálfur toll af þeim skipverjum ef aðrir róa á skipi en heimamenn. Eiga skála ystir og reit á möl.“ (s.r.  IV, 144). Kirkjan á Söndum í Dýrafirði átti skipshöfn á Skaga (s. r. IV, 145); Maríukirkja a› Desjarmýri í Borgarfirði eystra átti fiskvist að Ölduhamri (s.r. 223), kirkjan að Refstöðum í Vopnafirði átti skipshöfn í Krossavík hinni ytri (s. r. IV, 218) og kirkjan að Hofi í Vopnafirði átti skálavist að Rauðubjörgum og tveggja skipa höfn ef vildi (s.r IV, 215).

Biskupsstóllinn í Skálholti eignaðist með einhverju móti einhvern tíma á fyrri öldum útróðrarjörðina í Þorlákshöfn og fimm jarðir í Grindavík og lét stóllin ganga þaðan hartnær tíu skip úr vörum. Í Jarðabók Árna og Páls frá því laust eftir 1700 er glögg lýsing á því hvernig útgerð var háttað á vegum stólsins í Þorlákshöfn, Þar sem voru fjórar lendingar fyrir landi, tvær merkilega góðar og verstaða merkilega góð.:
Skip gánga hjer: 1o stólsins fimm, einn tólfæríngur, fjórir teinæringar. það eru kölluð skylduskip, og gánga þau undirgiftalaust, hefur og hvert skip sjerdeilis búð, sem staðurinn viðheldur, en hásetar og formenn kaupa soðning. þar fyrir utan gánga skip staðarins 6 eður færri og í undirgift fyrir þau niðurfellur af leigum og landskuld  … Hjer að auki gánga ítakaskip … frá Hjalla, Arnarbæli, Hrauni og Breiðabólstað og halda skipeigendur þeim búðum við. Að auk alls þessa gánga skip so mörg ábúenda sem þeir fá við komið … . Undirgift þessara inntöku skipa tekur ábúandi, en þeir sem skipin eiga, leggja við til búðanna; gjaldast þá xxx álnir fyrir sexæring, fyrir áttæring xl álnir, fyrir teinæring lx álnir …. Alt þetta betalast heimabóndanum í landaurum eftir samkomulagi, en sjómenn kaupa soðning og þjónustu ut supra……(Jb ÁMPV, II, 435–436)

Útróðrarmenn biskupsstólsins í Skálholti sem reru frá helstu verstöðvum í Þorlákshöfn og suður með sjó voru ekki á eigin vegum. Fiskurinn sem þeir drógu að landi, þessi guðs gjöf, einskis manns eign að landslögum, fór mikils til uppí landskuldir og leigur fyrir þær jarðir sem róðrarmenn komu frá. þeir voru allflestir lánaðir frá jörðum dómkirkjunnar í Skálholti sem átti á annað hundrað bújarða með hjáleigum á Suðurlandsundirlendinu og fjölda skipa til útróðra, vergögn og skipsuppsátur með allri suðurströndinni. Langflestum jörðum stólsins í Árnessýslu og Rangárvallasýslu fylgdu kvaðir sem skýrt koma fram í lýsingu Jarðabókar Áran Magnússonar og Páls Vídalíns á Skálholtsdómkirkjujörðinni Efstadal í Laugardal. Ábúandi þar varð að gjalda kvaðir sem voru mannslán um vertíð á staðarins skipum í Grindavík, Selvogi, eða Þorlákshöfn, „hvert sem ráðsmaður kallar“, segir bókin. Í annan stað fylgdi jörðinni sú kvöð að gjalda hestlán í Grindavík eða Þorlákshöfn eða Eyrarbakka. Sömu kvaðir giltu á flestum öðrum jörðum Skálholtsdómkirkju á Suðurlandsundirlendinu. þaðan dreif útróðrarmenn dómkirkjunnar allstaðar að á vertíðum í fiskver við suðurströndina til þess að veiða uppí leigur og landskuldir, sem húsbændur þeirra guldu fyrir reisn dómkirkjunnar í Skálholti í veislukosti, skrúða, kirkjuviði og hreinu siðferði.
Aðrir reru uppí hlut Skálholtsstaðar til þess að sjá staðnum fyrir matarforða en vitnisburðir eru til um, að skólapiltar, sem seinna urðu prestar víðsvegar um þetta stóra Skálholtsbiskupsdæmi, nærðust að miklu leyti á hörðum fiski dregnum úr sjó undan Suðurnesjum. Útróðrarmenn staðarins voru kallaðir staðarpiltar, þeir báru sjálfir minnst úr býtum. Var nokkur furða þótt sumir tækju það ráð að leynast burt úr veri eins og kom fyrir Brand Ingvarsson, óþekktan að öðru leyti en því að hann strauk úr veri á Hvaleyri við Hafnarfjörð mánudaginn fyrir Maríumessu á langaföstu 1660 af skipi stólsins sem þar var  gert  út. Brandur skildi eftir 35 fiska færi af staðargögnunum, en tók með sér skinnstakkinn, mötu sína, skæði og sjóvettlinga (Bréfabók Brynjólfs biskups Sveinssonar, AM 272 fol., nr. 297).

Sama fyrirkomulag og var á útróðrarjörðum biskupsstólsins í Skálholti  var á kóngsjörðum suður með sjó og jörðum í einkaeign hringinn í kringum landið. Langa sögu mætti segja eftir Jarðabók ÁMPV af háttum Guðrúnar Eggertsdóttur í Saurbæ á Rauðasandi, en hún átti flestar jarðirnar í sinni sveit og réði því yfir ábúendum og öllum þeirra búsgögnum, skipum jafnt sem kötlum, í sinni sveit. Tímans vegna getum við ekki staldrað við frú Guðrúnu en tökum hér dæmi úr Jb.ÁMPV um Arnarstapa á Snæfellsnesi þar sem Magnús Björnsson sýslumaður bjó og hélt fjölda þurrabúða í landi jarðarinnar. Um útveg frá Arnastapa segir Jarðabókin:
Heimræði er í allri þessari byggð ár um kríng og verstaða góð; gánga skip ábúenda, landsdrottna og inntökuskip eftir því sem þeir fá viðkomið. Hafa ábúendur frjálst að hver hafi fyrir landi skip svo mörg sem hann leigir mörg ii hndr. jarðar, sá þrjú er vi hndr. leigir, hinn eitt, er leigir ii hndr. etc. og eru þeir allir til fyrirsvars taldir, sem svo eru skrifaðir til jarðardýrleika í þessari bók, og NB mega þeir einir skipaútveg hafa, en grasnytjar og þurrabúðarmenn alls öngvan (Jb. ÁMPV, V, 178).

Í beinu framhaldi þessa er kominn tími til þess að spyrja nutu allir jafnt þess að veiða fyrir utan netlög að ósekju? Svarið hlýtur að vera að svo hafi ekki verið. Þeir reru sem höfðu til þess rétt frá því landi sem þeir höfðu ábúð á og þeir sem ekki bjuggu á sjávarjörð keyptu sér réttinn með því að eiga skip og gjalda vertoll og jafnframt var reglan sú að skipseigendur voru jarðeigendur, sumir stórjarðeigendur einsog biskupsstólar og menn af landeigendakyni einsog Guðrún Eggertsdóttir. Slíkir eignamenn höfðu á að skipa fjölda  leiguliða sem með byggingarskilmálum jarða gengust undir þá kvöð að róa á skipum landeigenda uppá skarðan eigin hlut.

Af því sem hér hefir verið sagt ber helst að leggja áherslu á að frá upphafi skiptu kirkjustofnanir og veraldlegir auðmenn með sér bestu sjávarjörðunum og áttu á að skipa fjölda leiguliða á jörðum sínum sem með tímanum voru skyldaðir til þess að róa á skipum þessara aðila og gjalda með þeirri kvöð landskuld og leigur af ábýlisjörðum sínum sem oft lágu langt uppi í landi. Hlunnindi sjávarjarða voru nýtt af landsdrottnum og ábúendum sem réðu yfir skipi og nægilegum mannafla, þ.e.a.s. leiguliðum eða hjáleigubændum, en aðkomumenn á svonefndum inntökuskipum guldu vertolla eða undirgift fyrir aðstöðu til útgerðar á landi og gerðu út skip sín með hásetum úr leiguliðastétt. þurrabúðarfólki leyfðist ekki að róa í eigin nafni. Fiskveiðar utan netlaga, sem eftir lagabókstafnum voru frjálsar öllum mönnum að ósekju, voru í reynd takmarkaðar við valdastofnanir og eignamenn; þeir sem fiskanna öfluðu á öldum áður voru flestir leiðuliðar eða hjáleigubændur fámennrar jarðeigendastéttar.

Að lokum þetta:
Í Bréfabókum Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups fyrir og eftir miðja 17. öld er varðveittur fjöldi byggingarbréfa jarða og umboðsbréfa þeim til handa sem höfðu jarðaumboð fyrir biskupinn. Í þeim bréfum er ævinlega sett fram sú skýlausa krafa til ábúenda og jarðaumboðsmanna að þeir láti engin hlunnindi undan jörðinni ganga, að land hvorki skerðist né spillist og ábúandi gangi frá jörðinni, hvort sem fer þaðan lífs eða liðinn, með sömu ummerkjum og hann tók við.

Nefna má dæmi af kennimannsbréfi séra Hannesar Björnssonar frá 1660 sem þá settist að Ferjubakka í Borgarfirði; hann skyldi jörðinni „bíhalda við góða bygging, hefð og makt, byggja, rækta og forbetra að öllu því sem ber svo ekkert níðist, forargist, úr falli né undangangi (Bréfabók Brynjólfs Sveinssonar, AM 272 fol., nr. 274).

Annað dæmi:
Séra Þorsteinn Jónsson á Eiðum hafði umboð yfir fjölda jarða Brynjólfs biskups á Austurlandi m.a. sjávarjarða við Þistilfjörð. Í umboðsbréfi sem biskup gaf  séra Þorsteini er tilskilið að umboðsmaðurinn sjái til þess að  ábúendur haldi öllu undir jarðirnar hvöra um sig til lands og sjávar, fjalls og fjöru til ystu ummerkja það sem þeim hefur fylgt að fornu og nýju og framast að lögum fylgja á og má (Bréfabók Brynjólfs Sveinssonar biskups, AM 280 fol., bls. 250–51).

Ég held að ráðlegt væri að athuga byggðasögu Íslands í ljósi hinnar eindregnu viðleitni landsdrottna til þess að viðhalda kostum hverrar jarðar, halda sérhverri í rækt og byggingu og umfram allt sjá til þess að frá engri jörð tapist landgæði utan önnur vinnist í staðinn. Hvort jörð er byggileg veltur  á því að land hennar sé hvergi skert innan landamerkja hvort heldur þau ganga þaðan sem vötnum hallar af heiðum uppi og niður í byggð, ellegar ná af fjallsbrún ofan að hlein.

Erindi Árna Snæbjörnssonar

Hlunnindi jarða og ýmsar aðgerðir sem takmarka nýtingu þeirra

Erindi á ráðstefna Samtaka eigenda sjávarjarða 22. nóvember 2002
Árni Snæbjörnsson, hlunnindaráðunautur BÍ

Ágætu fundarmenn.

Í eftir farandi erindi mun ég rekja stuttlega hver eru helstu hlunnindi jarða. Einnig verða tilgreind nokkur atriði þar sem réttur landeigenda til hlunnindanytja er takmarkaður m.a. með ýmsum aðgerðum löggjafans.

Hver á rétt inn til hlunnindanytja
Hlunnindi jarða voru um aldir stór þáttur í afkomu fólks í byggðum landsins. Með búseturöskun og breyttum lífsháttum á síðari tímum breyttist þetta, sumt féll í gleymsku og annað hefur komið í staðinn, en margt hefur þó haldið gildi sínu. Sem lítið dæmi um breyttar áherslur má nefna að sportveiði margs konar hefur komið í  stað þess að veiða sér til bjargar og jafnvel til að bjarga fólki frá hungri. Því má ekki gleyma að það sem í dag er talið til verðmæta getur verið einskis nýtt á morgun. Eins geta ný eða breytileg viðhorf eða aðstæður í þjóðfélaginu gert hlunnindi úr því sem áður var ekki talið eða mælt sem verðmæti. Þess vegna er ekki réttmætt að réttlæta ákveðnar nytjar með því að ganga á aðra þætti og hindra nýtingu þeirra eða jafnvel eyðileggja, því hugsanlega er þá verið að eyðileggja verðmæti framtíðarinnar.  Þá hafa hlunnindanytjar alla tíð verið hinum dreifðu byggðum mjög mikilvægar og stuðlað að búsetujafnvægi.
Hér skal á það minnt að á Íslandi hafa gæði landsins alltaf fylgt einstökum jörðum eða  afréttum. Því er við hæfi að rifja upp nokkur grundvallaratriði úr veiðitilskipuninni frá 1849, en hún byggir aftur á enn eldri lagaákvæðum. En hún ásamt ýmsum öðrum lagaákvæðum er sá lagagrunnur sem hlunnindanytjar byggja á.
Þar segir m.a.  “Á Íslandi skulu héðan í frá jarðeigendur einir eiga dýraveiði …,  (fiskur = dýr í þessum skilningi, innskot. ÁS) nema öðruvísi sé ákveðið í tilskipan þessari”.   Einnig er í veiðitilskipuninni kveðið á um veiðiítök utan við landareign.
Ennfremur segir;  “Á afréttum , sem fleiri eiga saman, ber veiði þeim mönnum sem afrétt heyrir til. Á almenningum er veiði öllum mönnum jafnheimil”.  Að lokum skal vitnað í eftirfarandi;      “Á landi skulu veiði ráða rétt landamerki jarðar hverrar. Ef jörð liggur að sjó, á eigandi veiði á haf út, 60 faðma frá stórstraumsfjörumáli, og eru það netlög hans”. En þess má geta að samkvæmt skilningi fjölda manna, þar á meðal margra  lögfræðinga, afmarka netlögin landamerki jarðanna til sjávarins.
Að fenginni langri reynslu tel ég að full ástæða sé til þess að standa vörð um þau hlunnindi sem enn eru nytjuð og endurheimta önnur.

Hlunnindi jarða
Hér verður gefið stutt en ekki tæmandi yfirlit yfir helstu hlunnindi sem fylgja jörðum hér á landi, enda er hugtakið hlunnindi afar víðtækt og nær til fjölda atriða sem erfitt er að gefa tæmandi skil.
Þótt tilefni fundarins sé  fyrst og fremst að fjalla um eina grein hlunninda – rétt sjávarjarða til að draga fisk úr sjó – þá er  við hæfi að fjalla einnig um ýmis önnur hlunnindi.

Fjöldi jarða á Íslandi hefur margvísleg og eftirsóknarverð hlunnindi eins og eftirfarandi vísa frá nítjándu öld um Reykhóla í Reykhólasveit vitnar um.

“Söl, hrognkelsi, kræklingur
hvönn, egg, reyr, dúnn, melur
kál, ber, lundi, kolviður.
Kofa , rjúpa, selur”.

Eiríkur Sveinsson, 1855

Helstu hlunnindi jarða eru:

Æðarvarp og dúntekja – 400 jarðir í öllum sýslum landsins nema í Rangárvallasýslu.
Umtalsverð verðmæti eða um 200 milljónir á ári í gjaldeyri.
Selur – Landselur, útselur. Skinn, kjöt, hreifar, spik og selaskoðun. Vannýtt hlunnindi    sem   þó eru augljóslega á uppleið.
Reki – Smíðaviður, girðingarstaurar, eldiviður, skraut/listmunir. Úrvinnsla í vaxandi        mæli.
Silungur – Veiðar í ám, vötnum, sjó, kvíar og lón. Vannýttir möguleikar.
Lax – Núorðið eru aðalverðmæti laxveiða bundin við stangveiði og veiði í net er að hverfa. Eldi í kvíum fer vaxandi. Lax og laxveiðar eru líklega þau hlunnindi sem gefa mestar tekjur?
Jarðhiti – Fjölþætt not.
Fjörunytjar – Söl, purpurahimna, marinkjarni (algeng til manneldis).
Þang, þari (verksmiðjurekstur).
Skeljar og skelfiskur, þ.e. kræklingur, kúfiskur/kúskel, kuðungur/beitukóngur og hörpuskel, ígulker.
Strandjurtir, skarfakál, fjöruarfi sæhvönn, marhálmur, sjávarfitjungur,
kattartunga, strandsauðlaukur, mura, melur.
Grasnytjar – Fjölþætt not. Fjallagrös, ber, sveppir, birki, fjalldrapi, hvönn, heilgrös, hálfgrös, heilsu- og lækningajurtir.
Fugla- og eggjataka – Lundi, langvía, stuttnefja, álka, teista, fýll, súla, skarfur, mávur,
kría, rita,  rjúpa, gæs, endur o.fl.
Útræði/heimræði – (Þ.e. aðstaðan og rétturinn til sjávarins innan og utan netlaga). Þorskur, ýsa, hrognkelsi o.s.frv.  Hvalur, rostungur, flækingsselir o.fl.
Jarðefni – Sandur, möl, steinar, grjót, vikur/gjall, surtarbrandur, skrautsteinar o.fl.
Landsréttindi. Eigin not.  Sala eða leiga vegna sumarhúsa, skógræktar, beitar, útivistar,
ferðaþjónustu, hlunnindanytja eða annarra landnota.

En eins og fyrr greinir þá tilheyra öll hlunnindi sem eru innan landamerkja lögbýla, ásamt landsréttindum, viðkomandi jörð – eiganda/ábúanda.

Aðgerðir sem takmarka hlunnindanýtingu
Ég hef í vaxandi mæli orðið var við áhyggjur bænda og annarra landeigenda varðandi þá þróun, að ýmis hlunnindi eða annar réttur jarða til að nýta auðlindir sínar er ekki virtur eða er dreginn í efa.
Allt frá upphafi byggðar hafa fjölþættar sjávarnytjar fylgt jörðum á Íslandi. Bæði innan landamerkja jarðanna þar með talið innan netlaga sem og ítök og réttindi í almenningum. Með þéttbýlismyndun og atvinnuháttabreytingum hafa ýmsir ekki sætt sig við hina rótgrónu  og gömlu eignarréttarreglu jarðanna og nytjar samkvæmt henni. Smátt og smátt hefur réttur jarðanna verið skertur (sjá dæmi síðar) og stundum með lagasetningu. Þetta hefur oft verið það lítið hverju sinni að ekki hefur náðst samstaða um andmæli eða beinar  mótaðgerðir. Þá finnst mörgum erfitt að fá viðurkenningu yfirvalda á því að viðkomandi takmarkanir séu bótaskyldar frá samfélaginu eða öðrum. Þannig tapa landeigendur  ýmsu af því sem áður var talið til verðmætra hlunninda.
Í þeim tilvikum þegar landeiganda hefur þótt á sér brotið og á það hefur reynt, hefur það gefist illa að fara í málaferli til þess að ná fram rétti landeigenda til hlunnindanytja. Lagaákvæði eru á sumum sviðum þannig að dómsniðurstöður hafa í reynd orðið bændum og öðrum landeigendum lítt hagstæðar. Þeir dómar, sem hafa fallið og tengjast hlunnindanytjum jarða, hafa e.t.v. skapað visst fordæmi sem gæti að óbreyttum lögum haft áhrif í öðrum málum af svipuðum toga. Því þyrfti að taka saman þá efnisþætti úr lögum, þar sem óvissa væri augljós varðandi réttindi landeigenda, og eins þá þætti sem menn væru óánægðir með og reyna síðan að fá lögum og tilheyrandi reglugerðum breytt.

Nokkur dæmi um atriði/tilvik þar sem gengið hefur verið á hlunnindarétt jarða.
Eins og fyrr segir þá finnst mörgum sem réttur jarða til  hlunnindanytja  hafi verið skertur frá því sem áður var og í mörgum tilvikum út  fyrir  það  sem  ásættanlegt  er. Hér verða nefnd nokkur tiltæk dæmi um slíkt, þótt alls ekki sé um fullnaðarúttekt að ræða.

 • Þorskveiðar (og veiðar á kvótabundnum tegundum). Bann nema menn hafi veiðiheimild, jafnvel innan netlaga. Þó leyfilegt til eigin nota.
 • Hrognkelsaveiðar. Bann nema að hafa veiðiheimild, einnig innan netlaga. Leyfilegt að veiða til eigin nota. Rauðmagaveiðar leyfilegar. Veiðileyfishafar virða ekki netlög.
 • Selveiðar. Aðgerðir hringormanefndar á sínum tíma þegar veiðimenn voru hvattir til veiða hvar sem var og hvort sem um leyfi landeigenda var að ræða eða ekki. Að friðlýsing sellátra er ekki með sama hætti og áður. Minna á mál Kjartans Magnússonar, þurfa hlunnindabændur að fylgja því fordæmi?
 • Silungsveiði í sjó. Þar hefur réttur landeigenda verið þrengdur með reglugerðarákvæðum og skírskotun til arðmeiri hlunninda.
 • Ígulkeraveiðar og aðrar nytjar botndýra upp í landssteina. Án leyfis landeiganda.
 • Ferðaþjónusta innan landamerkja lögbýla, þar með talið innan netlaga. Aðilar í ferðaþjónustu leita stundum ekki leyfis landeigenda þegar  ferðafólki beint inn í lönd bænda hvort sem er á sjó eða landi. Þetta hefur valdið ófriði á varpfuglum, skemmt eða eyðilagt sellátur, spillt gróðurfari o.s.frv.
 • Friðlýsingarmörk æðarvarps ekki virt. En þau ná tímabundið  250m út frá stórstraumsfjöruborði. Oft er óheppileg umferð eða netaveiði innan þessara marka í óþökk landeigenda.
 • Land undir ýmsar framkvæmdir án eða fyrir afar litlar bætur.
 • Efnistaka úr landi fyrir litlar eða jafnvel engar bætur. Lögboðnar bætur ekki alltaf greiddar, þ.e. bændum eða landeigendum ekki alltaf kynntur réttur sinn og þeir eru einnig varnarlausir gagnvart vanskilum (gjaldþroti) verktaka. Einokun verktaka við grjót- eða malarnám. Mismunun Vegagerðarinnar og fleiri aðila á því hvort um s.k. markaðssvæði er að ræða eða ekki.
 • Skipuleg fæling fiska út fyrir netlög og þeir síðan veiddir.
 • Ágangur á fjörur og lönd í nágrenni þéttbýlis og á ferðamannaslóðum.
 • Framkvæmdir sem óbeint draga úr hlunnindum, þ.e. vegur færður til, vatni veitt annað, vatnsmiðlun
 • Fuglaveiðar innan landamerkja lögbýla án leyfa.
 • Friðun rjúpu á tilgreindum svæðum, en ekki annar staðar (Landnám Ingólfs). Án
 • samráðs við landeigendur og án bóta.
 • Friðlýsing eða sérstök friðun svæða sem takmarka þar með nytjar eða hafa bein áhrif á nytjar og framkvæmdir þeim tengdum (friðun vargdýra, bann við efnistöku, takmörkun verklegra framkvæmda o.fl.).
 • Kröfugerð fulltrúa ríkisins í þjóðlendumálinu er öllum kunn. Við þá kröfugerð eru  bændur og landeigendur mjög ósáttir og finnst að með henni sé gróflega gengið á fornan rétt lögbýla og annarra landa í einkaeign.

Að lokum
Framangreind upptalning er orðin býsna löng og nærri árlega lengist þessi listi. Því er rétt að nefna dæmi um víðtæka hlunnindanýtingu á jörðum þar sem full sátt er um nytjarnar, en hér er átt við þangskurð innan netlaga á Breiðafirði. Þótt fjölmargir aðilar komi að þessum umfangsmiklu nytjum, þá byggist sáttin á því að alltaf er leitað leyfis og samráðs við landeigendur.
Þá er það býsna merkilegt að á sama tíma og eðlilegt er talið að fá leyfi landeiganda til þangskurðar, þá eiga t.d. hrognkelsa- eða fuglaveiðar sér stað innan sama svæðis án leyfis og virðist sem  ýmsir geri greinarmun þar á.
Við eigum víðtæk og verðmæt hlunnindi sem í eitt þúsund ár hafa tilheyrt jörðum þ.e. landeiganda eða ábúanda. Á sama tíma og mikilvægt er að viðhalda þeim auðlindum sem í náttúrunni felast og nýta þær á skynsamlegan hátt, þá þarf jafnframt að tryggja nytjarétt þeirra sem hann eiga. Bændum og öðum landeigendum er best treystandi í þessum efnum.

Kæra send dómsmálaráðherra 21. október 2003

Málskot til æðra stjórnvalds

Samtök eigenda sjávarjarða
Pósthólf 90
780 Hornafirði

Dómsmálaráðuneytið.
Björn Bjarnason, ráðherra,
Arnarhvoli,
101 Reykjavík.

Reykjavík, 21. október 2003

Efni: Málskot til æðra stjónvalds. Kærð er sú ákvörðun ritstjóra Lögbirtingarblaðsins, sem fram kemur í meðfylgjandi bréfi hans dags. 9. október 2003, að synja sóknaraðila um birtingu auglýsingar um lögfestu.

Kært er til dómsmálaráðherra.
Kærandi: Samtök eigenda sjávarjarða kt. 581001-2150.
Kærði: Lögbirtingablaðið Síðumúla 29 150 Reykjavík.

Kröfur sóknaraðila: Að dómsmálaráðherra ákvarði að rétt sé að birta í Lögbirtingablaðinu auglýsingu frá Samtökum eigenda sjávarjarða dags. 3. október 2003 “um einkaeign á hafsvæðinu í netlögum og að sjávarjörðum fylgir eignarhlutdeild í sjávarauðlindinni í heild”, en sókaraðila hefur verið synjað um birtingu slíkrar auglýsingar.

Fylgiskjöl:
1.         Umrædd auglýsing.
2.         Bréf ritstjóra Lögbirtingablaðs dags. 9. okt. 2003 þar sem hina kærðu ákvörðun er að finna.

Málavextir eru þeir, að sóknaraðili óskaði birtingar á auglýsingunni á fskj. 1, en  ritstjóri Lögbirtingablaðs synjaði, með þeim rökstuðningi sem er að finna á fskj. 2.

Um lagarök vísar sóknaraðili einkum til:
1.         Landsleigubálks Jónsbókar, 16. og  17. kapítula.
2.         Laga nr. 64/1943 um birtingu laga og annarra stjórnvaldserinda, bæði til laganna í heild sinni og sérstaklega til niðurlagsákvæðis 3. gr. þar sem segir: “Einnig skal heimilt vera að birta í Lögbirtingablaði auglýsingar og tilkynningar einstakra manna”.

Í landsleigubálki Jónsbókar er mælt fyrir um réttarúrræðið lögfestur. Í 16. kapítula er efnisregluna að finna,  þ.e. við hvaða aðstæður er hægt að grípa til þessa réttarúrræðis og hver er þýðing eða réttaráhrif lögfestu:
“Nú ganga menn á landamerki ok verða eigi á sáttir, þá eigu þeir at lögfesta til þeira merkja, er þeir segja rétt er þar eigu lönd við fyrir utan … Ef maðr lögfestir haga sinn, þá skal sá er þar á land næst reka láta bú sitt allt í þat horn landsins er first er lögfestu hins. Nú hafa fleiri menn lögfest, þá skal hann láta reka í miðjan haga sinn um aptna. Hann skal hafa rekit fé sitt ór haga hins þá er sól er í austri miðju, þat er hann mátti finna. Þat heita hirðis rismál. Hann skal láta sitja at um dag, ok ef svá er gert, þá er hann sýkn saka, þó at hagi hins beitist. Hvergi á maðr at bæta fyrir hagabeit nema lögfest sé, nema hann láti reka at landi eða í land hins, svá at hann vildi at hagi hins beittist. Þá bæti fyrir skaða … þeim er gras á, ok svá ef hann varðar minnr við, þar er lögfest er, en fyrr var skilt, ok svá ef hann fær eigi þann mann til hirðis at skynsömum mönnum virðist at vel megi gæta ef hann vill.”

Þetta Jónsbókarákvæði snertir ekki kæruefnið í máli þessu að öðru leyti en því að efni hinnar umþrættu auglýsingar er lögfesta.

Réttarfarsákvæðið um lögfestur er að finna í næsta ákvæði landsleigubálks:
Kap. 17. Um lögfesting, hver rétt er. “Ef maðr lögfestir holt eða haga eða veiðistaðir, þá skal lögfesta at kirkju eða á þingi, þar sem jörð liggr. Hann skal svá segja: Ek lögfesti hér í dag eign mína er N. heitir, akra ok töður, engjar ok skóga, haga ok allar landsnytjar er því landi fylgja, til ummerkja þeira er aðrir eigu í móti mér, bæði at orðfullu ok lögmáli réttu. Fyrirbýð ek heðan af hverjum manni sér at nýta eða í at vinna, nema mitt sé lof eða leyfi til, at vitni þínu N. ok þínu N. ok allra þeira er orð mín heyra. En sá er lögfestir, hann skal tala svá hátt, at allir heyri þeir er þar eru, ef þeir vilja. En sú lögfesta skal standa tólf mánuði hina næstu eptir, ef eigandi lögfestir eða hans umboðsmaðr.”

Nú er það svo um hin tilvitnuðu réttarfarsákvæði Jónsbókar, sem óumdeilt er að enn eru landsréttur og því að finna í lagasafni, að  þau verður að skýra með samræmistúlkun og að breyttu breytanda. Þar til á seinni tímum voru þingin og kirkjurnar hinn nothæfi  og þess vegna lögboðni vettvangur til þess að koma tilkynningum til almennings á framfæri. Lög og tilskipanir bar að birta á þingum. Lýst var með hjónaefnum að kirkju, og svo mætti áfram telja.

Við breyttar aðstæður var horfið að því ráði að lögbjóða útgáfu sérstakra rita, stjórnartíðinda og lögbirtingablaðs, þar sem lög og stjórnvaldserindi skyldu birt. Birting í þessum ritum kom beinlínis í stað birtingar á þingum og í kirkjum. Það er því varla unnt að túlka ákvæði 17. kap landsleigubálks Jónsbókar á annan veg en þann, að tilkynningar þær er þar um ræðir eigi að birta í Lögbirtingablaði.

Þar, í 17. kap., er ekki um neitt heimildarákvæði að ræða, heldur skýrt og ljóst lagaboð, sem Lögbirtingablaðið getur ekki vikið sér undan. Hin skást frambærilega röksemd fyrir synjun um birtingu væri þá væntanlega einna helst sú, að viðkomandi auglýsing ætti sér ekki lagastoð í framangreindum 16. kap. og félli því ekki undir birtingarákvæði 17. kap. Slíkri túlkun er fyrirfram mótmælt.

Nærtækt dæmi um framangreinda réttarþróun um birtingar er aðferðin við  friðlýsingar æðarvarpa. Lögum samkvæmt bar að birta þær friðlýsingar á manntalsþingum. Manntalsþingin voru haldin allt til 1992. Þegar hætt var að halda þau fóru sýslumenn að birta þessar friðlýsingar í Lögbirtingablaði án sérstakrar lagaheimildar. Þetta var eina leiðin og eðlileg lögskýring sem enginn vefengdi. Þegar lögin um fuglafriðun voru næst endurskoðuð  og reglugerð með þeim, var þessi framkvæmd staðfest þar. Nú lög nr. 64/1994 og rgj. nr. 252/1996, en þar segir í 2. mgr. 2. gr. “Ákvörðun um friðlýsingu æðarvarps skal birt í Lögbirtingablaðinu og gildir í 10 ár frá birtingu.”

Athugasemdir við bréf ritstjóra Lögbirtingarblaðsins, dags. 9. október 2003.

Í bréfinu segir að Lögbirtingarblaðið sé fyrst og fremst vettvangur fyrir lögboðnar auglýsingar stjórnvalda o.s.frv.

Í þessu sambandi er vísað í lög nr. 64 frá 1943, 3. gr. þar sem segir: „Einnig skal heimilt vera að birta í Lögbirtingablaði auglýsingar og tilkynningar einstakra manna”.
Það er því ljóst að Lögbirtingarblaðið getur verið vettvangur fyrir meira en lögboðnar auglýsingar stjórnvalda og skal raunar, skv. lögum vera vettvangur einstakra manna.

Ritstjórinn segir að þessi heimild hafi mjög sjaldan verið notuð.

Það er ekki hægt að sjá að það eigi að koma í veg fyrir birtingu, sem lagaheimild er til, þótt heimildin sé sjaldan notuð.

Þá segir að litið hafi verið svo á, að það sé einkum þegar um er að ræða efni sem varðar almenning eða sérstaka hagsmuni almennings, t.d. umhverfisréttarlegs eðlis, að rétt sé að heimila birtingu í Lögbirtingarblaði

Varðandi auglýsingu Samtaka eigenda sjávarjarða, þá er um að ræða tilkynningu frá stjórn félags, sem ætluð er til upplýsingar fyrir félagsmenn sjálfa um tilkallsrétt þeirra og einnig til þess að fá fram viðbrögð hugsnlegra krefjenda eignarréttar og loks til íhugunar og upplýsingar fyrir almenning um mikilvægt þjóðfélagslegt málefni. Það má þannig til sanns vegar færa að hér sé um að ræða efni sem varðar “almenning eða sérstaka hagsmuni almennings” og að hagsmunirnir séu að einum þræði “umhverfisréttarlegs eðlis”.

Enn segir í bréfi ritstjóra:  “Í auglýsingu yðar er verið að halda fram sérstökum eignarréttindum einstakra manna (eigenda sjavarjarða) sem réttaróvissa ríkir um eða ekki eru óumdeild eða óumdeilanleg að lögum.”

Því er mótmælt að réttaróvissa ríki um að netlög séu hluti af  sjávarjörð og undirorpin beinum og fullkomnum eignarrétti. Beinn eignarréttur jarðareiganda að netlögum er óumdeildur. Það er margdæmt mál og Ólafur Lárusson og Gaukur Jörundsson kenna báðir í ritum sínum að svo sé.

Svo segir ritstjórinn:  “Ef þessi sérstöku eignarréttindi, sem haldið er fram í auglýsingunni, lægju fyrir með staðfestum hætti, s.s. eins og þinglýsing á almennum eignarréttindum, væri væntanlega ekki þörf á birtingu í Lögbirtingarblaði, né í öðrum blöðum.”

Benda má á að þinglýsta friðlýsingu æðarvarpa ber að birta í Lögbirtingablaði, svo sem áður er að vikið. Á því hefur þótt þörf. Þá er það staðreynd, að Lögbirtingarblaðið birtir t.d. stefnur einstakra manna, auglýsingar um að skipulag liggi frammi og aðrar þessháttar tilkynningar, þar sem kallað er eftir viðbrögðum þeirra er kynnu að vilja mótmæla eða telja til réttinda.

Enn segir ritstjórinn:  “Slík birting væri aðeins til þess fallin að valda misskilningi lesenda.”

Hér virðist í raun fullyrt að sjávarjörðum fylgi ekki þær eignarréttarlegu aðildir sem í auglýsingunni greinir, texti auglýsingarinnar sé rangur og villandi að efni til. Sóknaraðili heldur því fram að það sé verkefni dómstóla en ekki ritstjórnar Löbirtingablaðs að skera úr um eignarrétt.

Ritstjórinn segir síðan:  Að lokum má benda á að á sínum tíma var auglýsingum um aðalfundi hlutafélaga úthýst úr Lögbirtingablaði ….. .

Ekki er sambærilegt að líkja auglýsingu og lögfestu Samtaka eigenda sjávarjarða við auglýsingu um fund.

Að lokum: Hér er um mjög mikilvægt hagsmunamál allra sjávarjarða landsins að ræða, þ.e. eigenda/ábúenda þeirra. Þess má geta að sjávarjarðir á Íslandi eru á þriðja þúsund.  Því er brýnt að málið fái sem skjótasta afgreiðslu.

Virðingarfyllst,
f.h. Samtaka eigenda sjávarjarða

________________________________________
Ómar Antonsson, formaður

Auglýsing í Lögbirtingarblaðið sem ekki var birt

Einkaeign á hafsvæðinu í netlögum

Auglýsing

um einkaeign á hafsvæðinu í netlögum og að sjávarjörðum fylgir
eignarhlutdeild í sjávarauðlindinni í heild

Með vísan til meginreglna íslensks réttar um réttaráhrif friðlýsinga og lögfestna, sbr. m.a. 16. og 17. kap. landleigubálks Jónsbókar, og með vísan til samkvæmrar dómiðkunar frá ómunatíð og neðangreindra tilvitnana í sett lög, þá kunngjörist hér með og tilkynnist:

 • Eigendur sjávarjarða eiga eignarréttarlega hlutdeild í sjávarauðlindinni og beinan eignarrétt að fiskveiði í netlögum sem er varinn af 72. gr. stjórnarskrárinnar.
 • Eigendur sjávarjarða eiga ítaksrétt til veiða í fiskhelgi utan netlaga og á hefðbundnum miðum, sem jafna má til afréttarréttinda og er því eignarréttarlegs eðlis og varinn af  72. gr. stjórnarskrárinnar.
 • Útræði/heimræði og útræðisréttur, er einnig varinn af  75. gr. stjórnarskrár, enda jafnframt atvinnuréttarlegs eðlis.
 • Sjórinn og sjávarbotninn í netlögum er víða mikilvæg uppeldisstöð og þar er oft mikil fiskgengd. Lífríkið og sjórinn innan og utan netlaga er ein hreyfanleg og óskipt heild. Þetta staðfestir séreignarhlutdeild sjávarjarða í sameign íslensku þjóðarinnar sem nefnd er í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða.

Sjávarjarðir á Íslandi  eiga og hafa frá ómunatíð átt hlutdeild í sjávarauðlindinni.  Eignarhlutdeild þessi byggist í fyrsta lagi á netlögum, sem er ákveðið svæði í einkaeign í sjó út af landi  (samanber meðal annars 3. kapítula rekabálks Jónsbókar frá 1281, 3. gr. tilskipunar um veiði á Íslandi frá 20. júní 1849, 1. gr. laga nr. 39/1914 um beitutekju, 4. og 5. gr. vatnalaga nr. 15/1923, 14., 72., 77., og 96. gr. laga nr 76/1970 um lax og silungsveiði, 1. og 2. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, 1. gr. laga nr. 64/1994 um fuglaveiðar, 1. og 2. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og 1. gr. laga nr. 13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis).  Í öðru lagi eiga sjávarjarðir fornan atvinnurétt, svokallað útræði/heimræði, sem metið hefur verið í fasteignamati og einnig hvalveiðiréttindi.

Fiskveiðilandhelgi Íslands, sem miðast út frá landi, víðast út frá landi sem er í einkaeign, nær einnig yfir netlög og er því þessi séreignarréttur hluti af landhelginni, sbr. 1. gr laga nr. 41/1979 um landhelgi Íslands.  Hafið og lífríkið í netlögum, ásamt öllum gögnum og gæðum, fylgir sjávarjörðum og er eign eigenda sjávarjarða.  Einn frjósamasti hluti hafsins er í netlögum og er lífríkið ásamt sjónum sjálfum á hreyfingu milli netlaga í einkaeign og ytra svæðis þar sem ríkið fer með umráð.  Auðlindin er því óskipt sameign.

Vísað er til þess, að með lögum um stjórn fiskveiða hefur eigendum sjávarjarða verið einhliða meinað að nýta þessa eign sína, án þess að fullt verð hafi komið fyrir, samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar og án þess að friðunarástæður eða önnur haldbær lagarök fyrir takmörkun eignarréttinda séu fyrir hendi.

Reykjavík, 3. október 2003.

Samtök eigenda sjávarjarða

Sjávarútvegsnefnd 4. febrúar 2002

Réttindi sjávarjarða til útræðis

Samtök eigenda sjávarjarða
Pósthólf 90
780 Hornafirði

Alþingi Íslendinga,
sjávarútvegsnefnd
Einar K. Guðfinnsson, formaður
Austurstræti 8 – 10
150 Reykjavík

4. febrúar 2002

Málefni: Réttindi sjávarjarða til útræðis og eignarhlutdeildar í landhelginni og sjávarauðlindinni.

Stjórn Samtaka eigenda sjávarjarða hefur ítrekað minnt á meginmarkmið félagsins sem eru:

 • Að fá útræðisrétt sjávarjarða virtan á ný og staðfestan í lögum um stjórn fiskveiða.
 • Að vinna að því að eignarréttindi sjávarjarða innan netlaga, sem og tiltöluleg eignarhlutdeild í sjávarauðlindinni í heild, verði virt og í heiðri höfð.

Þessi markmið voru kynnt sjávarútvegsnefnd Alþingis með bréfi dagsettu 27. júlí 2001og öllum alþingismönnum með bréfi dagsettu 16. október 2001. Jafnframt óskuðu Samtökin eftir því að nefnd sú, sem starfaði á síðasta ári að endurskoðun laga um stjórn fiskveiða, tæki óskir Samtakanna inn í tillögur sínar.

Endurskoðunarnefndin tók málið til umfjöllunar og fékk Skúla Magnússon, lektor, til þess að gera álitsgerð um kröfur Samtaka eigenda sjávarjarða. Meirihluti nefndarinnar hafnaði síðan kröfum Samtakanna og byggði niðurstöðu sína á álitsgerð Skúla Magnússonar, lektors.

Samtök eigenda sjávarjarða telja, að þótt margt sé ágætt í álitsgerð Skúla Magnússonar, lektors, þá orki annað tvímælis og sumt sé beinlínis ekki rétt. Í ljósi þess var leitað til Más Péturssonar, hrl., og hann beðinn að gefa lögfræðilegt álit á réttarstöðu eigenda sjávarjarða og kröfugerð samtaka þeirra og fjalla á faglegan hátt um þau atriði í álitsgerð Skúla Magnússonar, lektors, sem orkuðu tvímælis eða kynnu að vera röng.

Álitsgerð Más Péturssonar, hrl., liggur nú fyrir og fylgir hér með. Þar er á augljósan hátt sýnt fram á það að sjónarmið Samtaka eigenda sjávarjarða eru réttmæt.Það er eindregin áskorun okkar að þess verði gætt á Alþingi, í umfjöllun um stjórn fiskveiða og við lagasetningar í því sambandi, að eignarréttindin verði í heiðri höfð og að útræðisréttur jarða verði virtur á ný og staðfestur í fiskveiðilögum.

Virðingarfyllst,
f.h. Samtaka eigenda sjávarjarða

______________________________
Ómar Antonsson,formaður

Meðfylgjandi er:
1) Álitsgerð Más Péturssonar, hrl. til Samtaka eigenda sjávarjarða.
2) Afrit af bréfi til alþingismanna frá 16. október 2001

Til alþingismanna 16. október 2001

Réttindi sjávarjarða til útræðis

Samtök eigenda sjávarjarða.
Pósthólf 90,
780 Hornafirði.


16. október 2001

Til alþingismanna.

Málefni: Réttindi sjávarjarða til útræðis og eignarhlutdeildar í landhelginni og sjávarauðlindinni.

Við viljum vinsamlegast vekja athygli ykkar á því að 5. júlí sl. stofnuðu eigendur sjávarjarða á Íslandi til formlegs félagsskapar. Félag þetta hlaut heitið „Samtök eigenda sjávarjarða“. Stofnaðilar voru um 500.

Markmið samtakanna er:
§ Að fá útræðisrétt sjávarjarða virtan á ný og staðfestan í gildandi lögum um stjórn fiskveiða.
§ Að vinna að því að eignarréttindi sjávarjarða innan netlaga, sem og tiltöluleg eignarhlutdeild í sjávarauðlindinni í heild, verði virt og í heiðri höfð.

Við vekjum athygli ykkar á; 1) Að frá ómunatíð hafa sjávarjarðir á Íslandi átt rétt til útræðis bæði innan sem utan netlaga jarða. 2) Að sjávarjarðir eiga tiltölulegan eignarrétt í óskiptri sjávarauðlindinni. Með vísan til hreyfinga sjávar og samgangs jurta- og dýralífs milli strandsvæða og dýpri sjávar. Auk þess er netlagasvæðið hluti af landhelginni. 3) Að flestum útræðisjörðum tilheyra einnig ákveðin sjávarmið. 4) Að Alþingi hefur ekki haft löglegt umboð eða heimild til að ráðstafa þessum eignarréttindum með lagasetningum. 5) Að ekki er vitað til þess að eigendur þessara réttinda hafi afsalað þeim.

Hvað varðar þessi eignarréttindi er vísað í 72. gr. íslensku stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar og 1. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, um að menn hafi rétt til að njóta eigna sinna í friði, sem fulltrúar íslenska lýðveldisins undirrituðu 19. júní 1953, sem gekk í gildi gagnvart Íslandi 3. september 1953 og var síðan tekin upp í stjórnarskrá lýðveldisins 1994.

Þegar lög voru fyrst sett um stjórn fiskveiða árið 1983, fyrst og fremst í þeim tilgangi að stuðla að verndun nytjastofna, var reiknað með því að þau yrðu tímabundin. Forn eignarréttindi geta ekki horfið með setningu laga um stjórn fiskveiða. Ekki var við þá lagasetningu farið að lögum um framkvæmd eignarnáms nr. 11 frá 1973. Nú hafa mál þróast svo, að ákveðnir aðilar hafa, að því er virðist „eignast“ réttinn til fiskveiða í sjó við Ísland án þess að eiga þennan rétt í raun. Staðreyndin er sú að þessi réttur er, að hluta til, í eigu annarra aðila, eða eigenda sjávarjarða eins og fyrr er greint frá.

Bent skal á að Bændasamtök Íslands hafa beitt sér í máli þessu og skal minnt á ályktun Búnaðarþings sem er eftirfarandi: „Búnaðarþing 1999 fer þess á leit við stjórn B.Í. að hún leiti leiða til að fá útræðisrétt strandjarða virtan á ný og staðfestan í fiskveiðilögum“.

Sjónarmiðum Samtaka eigenda sjávarjarða var komið á framfæri við nefnd þá sem starfaði að endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Nefndin tók ekki tillit til sjónarmiða Samtakanna. Fram hefur komið að mál þessi verða á dagskrá Alþingis á næstunni. Það er eindregin ósk Samtaka eigenda sjávarjarða að eignarréttindi þeirra séu virt og að Alþingi Íslendinga sjái til þess að við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða verði þessi mál leiðrétt í samræmi við rétt til eigna og íslensk lög.

Virðingarfyllst,
f.h. Samtaka eigenda sjávarjarða.
____________________________
Ómar Antonsson, formaður

Sjávarútvegsnefnd 27. júlí 2001

Réttindi sjávarjarða

Samtök eigenda sjávarjarða.
Pósthólf 90,
780 Hornafjörður.

Alþingi Íslendinga,
sjávarútvegsnefnd,
Austurstræti 8-10,
101 Reykjavík.

27. júlí 2001.

Málefni: Réttindi sjávarjarða til útræðis og eignarhlutdeildar í landhelginni og sjávarauðlindinni.

Það tilkynnist sjávarútvegsnefnd Alþingis hér með að 5. júlí sl. stofnuðu eigendur sjávarjarða á Íslandi til formlegs félagsskapar. Félag þetta hlaut heitið „Samtök eigenda sjávarjarða“. Stofnaðilar eru um 500.

Markmið samtakanna er:

– Að fá útræðisrétt sjávarjarða virtan á ný og staðfestan í gildandi lögum um stjórn fiskveiða.
– Að vinna að því að eignarréttindi sjávarjarða innan netlaga, sem og tiltöluleg eignarhlutdeild í sjávarauðlindinni í heild, verði virt og í heiðri höfð.

Hér með tilkynnist sjávarútvegsnefnd Alþingis að sjávarjarðir á Íslandi eiga frá ómunatíð rétt til útræðis bæði innan sem utan netlaga jarða. Auk þess eiga þær tiltölulegan eignarrétt í óskiptri sjávarauðlindinni. Flestum útræðisjörðum tilheyra einnig ákveðin sjávarmið. Alþingi hefur ekki haft löglegt umboð eða heimild til að ráðstafa þessum eignarréttindum með lagasetningum. Ekki er heldur vitað til þess að eigendur þessara réttinda hafi afsalað þeim. Hvað varðar þessi eignarréttindi er vísað í 72. gr. íslensku stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar og 1. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, um að menn hafi rétt til að njóta eigna sinna í friði, sem fulltrúar íslenska lýðveldisins undirrituðu 19. júní 1953, sem gekk í gildi gagnvart Íslandi 3. september 1953 og var síðan tekin upp í stjórnarskrá lýðveldisins 1994.

Þegar lög voru fyrst sett um stjórn fiskveiða árið 1983, fyrst og fremst í þeim tilgangi að stuðla að verndun nytjastofna, var reiknað með því að þau yrðu tímabundin. Forn eignarréttindi geta ekki horfið með setningu laga um stjórn fiskveiða. Ekki var við þá lagasetningu farið að lögum um framkvæmd eignarnáms nr. 11 frá 1973. Nú hafa mál þróast svo, að ákveðnir aðilar hafa, að því er virðist „eignast“ réttinn til fiskveiða í sjó við Ísland án þess að eiga þennan rétt í raun. Staðreyndin er sú að þessi réttur er, að hluta til, í eigu annarra aðila, eða eigenda sjávarjarða eins og fyrr er greint frá.

Bent skal á að Bændasamtök Íslands hafa beitt sér í máli þessu og skal minnt á ályktun Búnaðarþings sem er eftirfarandi: „Búnaðarþing 1999 fer þess á leit við stjórn B.Í. að hún leiti leiða til að fá útræðisrétt strandjarða virtan á ný og staðfestan í fiskveiðilögum“.

Það er krafa eigenda sjávarjarða að eignarréttindi þeirra séu virt og að Alþingi Íslendinga sjái til þess að við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða verði þessi mál leiðrétt í samræmi við rétt til eigna og íslensk lög.
Samtök eigenda sjávarjarða óska vinsamlegast eftir efnislegu svari sem fyrst.

Virðingarfyllst,
Samtök eigenda sjávarjarða.
_________________________
Ómar Antonsson, formaður.

Meðfylgjandi:
Grein úr Bændablaðinu 2. febrúar 1999.

Afrit:
Nefnd um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða,sjávarútvegsráðuneytið, Skúlagötu 4, 101 Reykjavík.
Sjávarútvegsráðuneytið,Hr. Árni Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, Skúlagötu 4, 101 Reykjavík.