Auglýsing

Tilkynning frá Samtökum eigenda sjávarjarða.


Samtök eigenda sjávarjarða tilkynna hér með að allar veiðar og önnur atvinnustarfsemi innan netlaga sjávarjarða þar með taldar hrognkelsaveiðar eru bannaðar án leyfis eigenda viðkomandi jarða.


Miða skal við fjarlægðarregluna 60 faðma (115 metrar) og dýptarviðmiðið 12 álnir eða 4 faðma (6,88 metrar) dýpi á stórstraumsfjöru varðandi fiskveiðar. Innan þessara marka er um svæði í einkaeign að ræða og geta þeir sem virða það ekki átt von á því að verða kærðir.


Samtök eigenda sjávarjarða

 

Úr tillögum VG um fyrstu aðgerðir í sjávarútvegsmálum

Vinstri græn vilja að réttlætið nái fram að ganga

„Undirbúin verði tilraun með að heimila sumarveiðar á minni bátum með handfrjálsum búnaði frá sjávarjörðum og einnig gefist upprennnandi sjómönnum sem öðlast vilja reynslu og þjálfun kostur á hinu sama á grundvelli sérstakra reynsluleyfa. Ætíð verði um staðbundna/svæðisbundna, takmarkaða og óframseljanlega möguleika að ræða og jafnframt sé fyllsta öryggis gætt.“

Frétt í RUV

Ríkisútvarpið frétt 17. janúar 2008, kl. 16:00.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður samtaka eiganda sjávarjarða, segir að niðurstaða Manréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um óréttlæti í íslenska kvótakerfinu styðji málflutning umbjóðenda sinna.

Þeir reka nú mál fyrir mannréttindadómstóli Evrópu eftir að jarðeigandi var dæmdur til að greiða sektir og sæta því að grásleppuhrogn voru gerð upptæk þótt veiðarnar hefðu verið stundaðar innan netalaga jarðar hans. Svokölluð netalög ná hundrað og fimmtán metra út í sjó og hafa margir eigendur sjávarjarða talið að sér væri heimilt að róa til fiskjar og leggja net innan netalaganna án kvóta.

Íslenskir dómstólar komust hinsvegar að þeirri niðurstöðu að til þess þyrftu þeir kvóta. Ragnar telur að umfjöllun og niðurstaða Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna styrkji málflutning eigenda sjávarjarða enda komi þar fram að undirstöður kvótakerfisins séu óréttlátar og andstæðar jafnréttisreglu þjóðarréttarins.

Fréttatilkynning frá SES vegna dóms Mannréttindanefndar Sameinuðuþjóðanna

Samtök eigenda sjávarjarða
Pósthólf 90
Hornafirði

Fréttatilkynning

Stjórn Samtaka eigenda sjávarjarða vekur athygli á fram komnum úrskurði Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, í máli tveggja sjómanna gegn íslenska ríkinu, en þar kemur fram alvarlegur áfellisdómur á íslenska kvótakerfið í sjávarútvegi.  Úrskurðurinn gengur m.a. út á að jafnræðis borgarna um atvinnurétt til fiskveiða sé ekki gætt, ásamt því að greiða beri sjómönnunum fullar bætur og koma á fiskveiðistjórnunarkerfi sem uppfyllir kröfur alþjóðalaga.

Stjórn Samtaka eigenda sjávarjarða vekur ennfremur athygli á því að sjávarjarðir á Íslandi eiga bæði þinglýstan eignarrétt til sjávarins – netlög – og óskipta hlutdeild í sjávarauðlindinni í heild vegna sjávarins og lífríkisins og atvinnurétt á eigninni. Jafnframt vísa Samtök eigenda sjávarjarða til þess, að íslensk stjórnvöld hafa hvorki virt þinglýstan eignarrétt eigenda sjávarjarða né atvinnurétt til útræðis.  Samningur Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, 26. grein samningsins um almennu jafnræðisregluna hefur því verið brotinn á eigendum sjávarjarða, bæði hvað varðar eignarrétt og atvinnurétt.

Í þeirri baráttu að ná fram rétti sínum, sem eigendur sjávarjarða hafa ólöglega verið sviptir, munu samtökin taka mið af þessum úrskurði Sameinuðu þjóðanna.

Samtökin eru með heimasíðu.  Slóðin er: www.ses.is

Horni, 17. janúar 2008.

Virðingarfyllst,
f.h.  Samtaka eigenda sjávarjarða
Ómar Antonsson, formaður,
Horni,  781 Hornafirði,
s. 892 0944.

Kanna rétt Sama til fiskveiða út af Finnmörku

Frétt fengin frá Skip.is  3.7.2006 um rétt Sama til fiskveiða út af Finnmörku

Kanna rétt Sama til fiskveiða út af Finnmörku

Norska ríkisstjórnin hefur skipað nefnd sem á að fara ofan í saumana á réttarstöðu Sama og annarra hópa hvað varðar veiðar í norsku lögsögunni undan ströndum Finnmerkurfylkis. Þessi vinna tengist endurskoðun á hinum svokölluðu Finnmerkurlögum.

Í tilkynningu frá sjávarútvegsráðuneyti Noregs segir að Finnmerkurlögin fjalli m.a. um landnýtingu og rétt til veiða í ám, lækjum og vötnum í fylkinu, en ekki er kveðið á um fiskveiðar í hafinu.

Fulltrúar Sama hafa lengi krafist þess að fá leyfi til fiskveiða. Það sé réttur þeirra sem frumbyggja í Finnmörku. Svo virðist sem sjávarútvegsráðherra Noregs, Helga Pedersen sem er frá Finnmörku, hafi meiri skilning á kröfum Sama en fyrirrennarar hennar. Hún segir í tilkynningunni að með skipun nefndarinnar sé tryggt verði að tekið verði tillit til allra sjónarmiða. Nefndarformaður verður Carsten Smith fyrrverandi hæstaréttardómari.

Fara með málið eins langt og það kemst

Uppruni : Frettabladid

Samtök eigenda sjávarjarða höfða mál á hendur ríkinu.

Nýfallinn dómur Hæstaréttar tók ekki á eignarrétti sjávarbænda á hlunnindum í sjó.

Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður segir viðbúið að mál bændanna endi í Strassborg.

Á næstu vikum höfða Samtök eigenda sjávarjarða mál á hendur ríkinu til að fá viðurkenndan rétt bænda sem eiga land að sjó til fiskveiða, bæði almennt og einnig í netlögum. Netlög marka ytri eignamörk jarðeigna, um 115 metra út í sjó.

Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður undirbýr málið fyrir hönd samtakanna. „Þessi mál eru óhemju flókin og því erfitt að negla nákvæmlega niður hvenær málið verður höfðað, en það er alveg örstutt í það,“ sagði Ragnar og kvaðst hafa orðið fyrir vonbrigðum með dóm Hæstaréttar í síðustu viku þar sem fjallað var um grásleppuveiðar trillukarls á Ströndum innan netlaga. „Ekki liggur samt fyrir hvort hentar að fara með það mál til Strassborgar,“ sagði hann en taldi viðbúið að eitthvert sjávarnytjamála bænda endaði þar fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. „Ég bjóst að sjálfsögðu við að Hæstiréttur myndi gera betri grein fyrir viðhorfi sínu en að staðfesta héraðsdóminn,“ sagði Ragnar og kvað ekki hafa verið tekið á ágreiningnum sem uppi var um heimildir landeigenda til fiskveiða. Dómurinn horfði hins vegar til þess að manninn skorti leyfi til grásleppuveiðanna og hafði því brotið lög um veiðar í atvinnuskyni.

„Almennt er það þannig að ef grípa þarf inn í eignarréttindi borgaranna þarf að gera það gegn bótum. Hæstiréttur hefði fremur átt að sýkna manninn og senda ríkisvaldinu þannig skilaboð um að ef ætti að taka þessar eignir af rétthöfum í kring um landið þá þyrfti að setja lög um bætur,“ segir Ragnar og taldi löngu markað í löggjöf að öll eignarréttindi innan netlaga væru hluti af jörðum. „Eignaréttarmál héðan enda úti í Strassborg, líka út af þjóðlendunum, en íslensku dómarnir sem gengið hafa eru ekki í samræmi við dóma sem gengið hafa um eignarétt fyrir Mannréttindadómstóla Evrópu,“ bætti hann við.

Ómar Antonsson, formaður Samtaka eigenda sjávarjarða, segir höfuðáherslu lagða á að fá viðurkenndan rétt bændanna til veiðihlunninda í sjó og telur lítinn áhuga á bótum fyrir eignarnám. „Þarna er eignarréttur sem okkur er meinað að nýta,“ sagði hann og taldi bara framkvæmdaatriði hvernig þeim málum yrði háttað eftir að bændurnir hafa fengið sitt fram fyrir dómstólum.

Óli Kristján Ármannsson, blaðamaður
Fréttablaðið