Frá Alþingi

Umræða 10. febrúar 2009 um frumvarp Frjálslynda flokksins um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða.

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):
Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Þetta mál er flutt af þeim sem hér stendur og hv. þingmönnum Grétari Mar Jónssyni og Jóni Magnússyni og var lagt fram nokkuð snemma á haustdögum, en er nú að komast til umræðu og hefur málsnr. 63.

Frumvarpið gengur út á að opna fyrir það hér á landi að menn geti stundað takmarkaðar handfæraveiðar á eigin bát. Ég fór fyrir nokkrum dögum upp í pontu, herra forseti, og ræddi þetta lauslega við sjávarútvegsráðherra, með örlítið öðrum blæ en hér er lagt upp með því að við leggjum hér til stefnubreytingu á stjórn fiskveiða til fimm ára alla vega að því er varðar þessa frumvarpstillögu okkar. En umræðan sem ég tók upp við hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir fáum dögum var um það hvort sérstaklega væri hægt að bregðast við, með þeirri hugsun sem hér er lögð til í frumvarpsformi, innan þessa fiskveiðiárs, m.a. með tilliti til þess atvinnustigs sem er í landinu, vaxandi atvinnuleysis, þeirrar stöðu sem komin er upp vítt og breitt — og því miður allar líkur á því að atvinnuleysi haldi áfram að vaxa hér á landi.

Tillagan er svo sem ekki mjög flókin, hæstv. forseti. Hún gerir ráð fyrir því að öllum íslenskum ríkisborgurum, sem hafa til þess tilskilin réttindi, þ.e. skipstjórnar- eða vélstjórnarréttindi ef þess þarf með, vegna stærðar vélar viðkomandi báts, sé heimilt að stunda takmarkaðar handfæraveiðar, þó aðeins þannig að það megi vera tvær sjálfvirkar handfærarúllur á hvern mann og eigi séu heimiluð meiri afköst á viðkomandi bát en tveggja manna áhöfn anni.
Hér er einnig lagt til að tímabilið sem gildi um þessar sérstöku veiðar á hverju ári sé frá 1. apríl til 1. október. Einnig er lagt til að menn sem fá þessa heimild megi ekki vera á stærri fleytum en 30 brúttólesta bátum. Verður að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að það er ágætlega rúmt um tvo menn á 30 rúmlesta bát. Það er ekki mjög þröngt á dekki á því skipi en samt er það svo að einn og tveir menn hafa stundað veiðar í áratugi einmitt á bátum undir 30 brúttólestum og er það vel þekkt vítt og breitt í sjávarbyggðum landsins.

Menn spyrja kannski: Er ekki hér verið að galopna slíka sóknaraukningu þannig að ekki verði við neitt ráðið? Ég vil byrja á því að lýsa þeirri skoðun minni, hæstv. forseti, sem ég veit að margir vita sem sett hafa krók í sjó, að eigi veiðist alltaf á krókinn þó niður fari. Menn þurfa þá alla vega að hitta á fisk sem vill taka krók til að fá afla, það er fyrsta skilyrðið.

Í öðru lagi er sjósókn með handfærum háð veðri, það ber lítinn árangur að reyna að stunda handfæraveiðar í miklum vindi eða miklu sjólagi. Það þekkja allir sem reynt hafa, meira að segja þeir sem bara hafa reynt að veiða með sjóstöng að gamni sínu, að ekki fer krókurinn og sakkan langt niður við slíkar aðstæður og lítið veiðist. Af náttúrulegum ástæðum hafa slíkar veiðar sem hér er verið að leggja til að heimila mjög takmarkaða sóknargetu og ráðast mikið af tíðarfarinu. Við segjum líka í þessum hugmyndum okkar að að sjálfsögðu þurfi þessir bátar, eins og aðrir bátar sem á sjó fara við Ísland, að vera búnir sjálfvirkum tilkynningarskyldubúnaði og hafa öll fullkomin öryggistæki, viðurkennt haffæri o.s.frv. Það er ekki eins og verið sé að heimila að hér sé allt galopið án neinnar kröfu, að menn þurfi að óttast að einhver sóknarbylting verði vegna þessa. Ég bendi einnig á það, hæstv. forseti, að á undanförnum vikum, mánuðum og jafnvel síðustu einu til tveimur árum, hefur mikill fjöldi smábáta verið seldur úr landinu, jafnvel svo mikill að þeir sem eru að spá í að endurnýja báta sína eða stækka þá — ekki er um auðugan garð að gresja í slíkum viðskiptum og er það nokkurt nýmæli á Íslandi miðað við það sem verið hefur á undanförnum árum.

Það er auðvitað hugsanlegt að takmarka sóknargetuna með fleiri þáttum og við nefnum það í 1. gr. frumvarpsins. Við nefnum það að skilgreina megi veiðisvæði þeirra báta sem fá þetta takmarkaða veiðifrelsi. Það er ekkert launungarmál, hæstv. forseti, að við erum sérstaklega að horfa á sjósókn frá sjávarbyggðunum á ströndum þessa lands og með það í huga að gefa mönnum ákveðið frelsi til að sækja á sín heimamið. Við bendum einnig á, hæstv. forseti, að það megi að sjálfsögðu horfa til þess að takmarka fjölda veiðidaganna ef menn óttast að slík ráðstöfun sem hér er tekin upp væri að setja eitthvað verulega á hliðina að því er varðar nýtingu sjávarauðlindarinnar. Sá sem hér stendur hefur hins vegar engar áhyggjur af því að slíkt kerfi sem upp væri tekið með umræddum takmörkunum mundi leiða slíkt af sér en það gæti hins vegar leitt af sér tilfinningu manna fyrir því að þeir hefðu aftur eitthvert frelsi til að stunda fiskveiðar við Ísland. Á þann hátt væri kannski komið til móts við það sem m.a. birtist í niðurstöðum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, að opnað væri á frelsi, þó takmarkað sé, en reyndar er allt frelsi takmarkað. Við þurfum ekki annað en nefna vörubílstjórann sem vill keyra möl, hann þarf sérréttindi á þann bíl. Rútubílstjórinn þarf sérréttindi. Læknar, flugmenn og annað fólk þarf sérréttindi. Kennarar þurfa sérréttindi til að stunda atvinnu sína og við erum að benda á það að eðlilega þurfi menn að hafa skipstjórnarréttindi og jafnvel vélstjóraréttindi ef vélarstærð er þannig í viðkomandi bát. Það er því ekki eins og hér sé verið að leggja til opnun að öðru leyti en því að allir verða að uppfylla þau skilyrði sem sett eru sem eru talsvert takmörkuð eðli málsins samkvæmt. Menn þurfa að hafa, alla vega eins og við höfum hugsað þetta í upphafi, eignarhald á þeim fleytum sem þeir vildu stunda þetta á og strax þar kemur upp veruleg takmörkun.

Ég hef líka heyrt það frá mönnum sem ég hef rætt þessa tillögu við að margir sjómenn, sem áður fyrr hafa stundað vinnu til sjós og gætu hugsað sér að vera þáttakendur í svona regluverki eins og hér er — athafnaregluverki um það hvar þeir mættu veiða, á hve mörgum dögum, svæðum o.s.frv. — þeir hafa margir nefnt það við mig að það væri mjög eðlilegt að setja þá takmörkun á slíkar veiðar að ekki væri sótt á helgum, sunnudögm alla vega, til þessara veiða. Þá hafa menn líka verið að horfa til þess að tryggt sé að hráefnið sem menn koma með að landi komist í sölu á eðlilegum tíma og komist til fiskverkunarhúsa. En eins og menn vita hefur þróun í vinnu til lands einmitt verið á þann veg að það er takmörkun á vinnutímanum og takmörkun á því er snýr að frídögum fólks. Og þó áður hafi verið hér í gildi — og ég hef reyndar hvatt til þess að Íslendingar vinni mikið undir þeim kringumstæðum sem nú eru, og hef nefnt það úr þessum ræðustól að vinnan göfgi manninn og eftirvinna jafnvel enn þá meira, eins og sumir hafa sagt, tel ég eðlilegt að horfa til allra skynsamlegra takmarkana, bæði til að tryggja gæði þess hráefnis sem kemur á land og eins til þess að virk stýring sé á þessu takmarkaða frelsi, og það leggjum við til í þessu máli. Við leggjum einnig til að sá afli sem kæmi á þessa báta yrði ekki reiknaður inn í aflamarkskerfið og breyti því ekki þó að þessi aðferð verði tekin upp og hleypt í framkvæmd og hafi þar af leiðandi ekki áhrif á það heildaraflamark sem nú er úthlutað.

Það er svo annað mál, sem ég væntanlega mæli fyrir á eftir, hæstv. forseti, sem snýr að því hvernig við hugsum okkur að breyta íslenska kvótakerfinu og kalla aflaheimildir heim til íslensku þjóðarinnar sem eiga heimildirnar. Og útgerðarmönnum framtíðarinnar — ef tekst að fá vilja fyrir því í meiri hluta Alþingis að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu þá verði úthlutunin þannig að í framtíðinni hafi menn ekki eignarhlutdeildarleigu, sölu eða veðsetningarrétt á fisk í sjó heldur eingöngu nýtingarrétt. Sá nýtingarréttur sé fenginn frá eignarheimild þjóðarinnar sem eigi aflaheimildirnar og þeim sé svo framvísað eða þær leigðar út eftir ákveðnu kerfi sem enginn vandi er að setja upp í sjálfu sér en ég kem nánar að því síðar í dag, hæstv. forseti.

Við segjum í stuttri greinargerð með þessu máli að það hafi löngum verið réttur Íslendinga við sjávarsíðuna að fá að róa til fiskjar. Það er þekkt að útróðrarjarðir voru líklegri til þess að brauðfæða fólk og gefa tekjur en jarðir sem lágu illa að fiskislóð. Þetta er auðvitað þekkt og byggðir landsins eru þar sem þær eru vegna þess að þær þóttu góðar til sjósóknar, lágu annaðhvort vel að fiskimiðum eða landhættir voru þannig að gott var að sækja þaðan sjó. Þannig háttar til um allar sjávarbyggðirnar.
Útróðrarrétturinn var löngum metinn til verðmæta í jörðum og talinn til sérstakra hlunninda og taldist þar með til verðmæta viðkomandi jarða og menn borguðu af þessu skatta og skyldur. Í gömlum lögum okkar Íslendinga er einnig sagt að mönnum skuli tryggður veiðiréttur í fjörðum og flóum. Það er orðað eitthvað á þá leið að rétt ættu menn til fiskveiði sinnar innan flóa og fjarða nema síldveiði væri. Það lýsir því auðvitað að síldin er ólíkindatól, kemur í firði og kemur í flóa og getur farið þaðan aftur innan örfárra ára. Þetta höfum við vissulega séð vera að gerast við Ísland undanfarin ár þegar svo til allur síldarstofninn kom sér fyrir í Grundarfirði og er núna inn um sker og sund á Breiðafirði og inni í höfnum, m.a. á Suðurnesjum og Vestmannaeyjum og kannski víðar. Síldveiðin þótti ekki það trygg að rétt væri að marka mönnum sem við flóana og firðina bjuggu sérstakan forgang nema botnfiskveiðina sem var skilgreind sem fjarðaveiði manna, vegna þess að ef síldin gaf sig áttu allir að geta tekið þátt í henni og veitt úr síldargöngunum. Þannig var þetta markað í gömlum lögum Íslendinga og má reyndar enn finna í lagasafninu þó að það sé túlkað svo í dag að til þess þurfi aflahlutdeild. Þegar þetta var svo orðað áttu landsmenn auðvitað allir tryggan rétt til forgangs um fiskiveiði nærri byggðum sínum og þannig eru þessi sjónarmið um þennan byggðatengda rétt sem er mjög ríkur í umræðunni um stjórn fiskveiða í dag, strandveiðiréttinn, forgang fólksins við sjávarsíðuna til að nýta strandbyggðina. Ég held að það væri mikið gæfuspor ef við mundum marka það skýrt að menn ættu rétt til strandveiði fyrir framtíðina.

Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir meginefni frumvarpsins. Ég hef vakið athygli á því að það tekur einnig á því máli sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna ályktaði um, þ.e. að hér væri óeðlilegt fyrirkomulag sem byggðist á því að ef sjómenn vildu sækja til fiskjar þá skyldu þeir leigja réttinn af einhverjum öðrum sem hefði fengið hann. Þessi tillaga okkar um breytingu á lögum tekur einnig til þess að opnaður yrði ákveðinn réttur og yrði viðurkenning á því að réttarstaða manna er ekki jöfn til fiskveiði eða með neinum hætti til að nýta frá ströndinni öðruvísi en — rétturinn sem búið er að úthluta í mörg ár situr fastur hjá þeim sem fengu hann á sínum tíma og aðrir verða að kaupa réttinn hjá þeim. Það er sem sagt gamla vistarbandshugsunin, að kaupa atvinnurétt sinn af öðrum og borga fyrir það, að hér skuli mönnum úthlutað gæðum og aðrir borgi þeim svo fyrir að fá að nýta þau gæði. Það teljum við í Frjálslynda flokknum að eigi að afleggja. Við gerum okkur grein fyrir því að til að gera það þarf að marka skynsamlega vegferð í þeim málum. Ég kem að því, hæstv. forseti, í næsta máli og ætla ekki að orðlengja það lengur undir þessum lið. Það er einfaldlega þannig að ef þetta frumvarp fengi að fara í gegnum þingið væri alla vega búið að viðurkenna lítinn rétt byggðanna, lítinn og takmarkaðan rétt byggðanna en þó frelsisrétt og einnig rétt þeirra sem eiga land að sjó, sjávarjarðanna, þaðan sem gott er að sækja fisk. Það mundi muna miklu, hæstv. forseti, víða í byggðum landsins ef fólk sem stundar landbúnaðarstörf og býr við flóa og firði — og þannig hagar til að það getur sótt sjó — fengi takmarkaðan rétt til að auka tekjur sínar með sjósókn. Það mundi víða skipta miklu máli varðandi byggðaþróun og atvinnutekjur þessa fólks

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):
Herra forseti. Ég ætla aðeins að leggja nokkur orð í belg um það frumvarp eða þau mál sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson er með á dagskrá og tengjast sjávarútvegsmálum. Ég vil fyrst segja að hv. þingmaður er kunnur áhuga- og eljumaður um málefni sjávarútvegsins og hefur lagt mikið til þeirrar umræðu á undanförnum árum, þar á meðal þessar hugmyndir sem hér eru í frumvarpi á þskj. 63 um að opna fyrir handfæraveiðar á minni fiskiskipum. Ég verð að játa að ég hef oft hugsað svipaðar hugsanir sjálfur og er að mörgu leyti skotinn í hugmyndum af því tagi að einhvern veginn yrði reynt að opna fyrir eitthvert uppeldi eða nýliðun neðan frá og eitthvert frelsi í þeim efnum. Oftast staðnæmist maður þá við einhverja möguleika sem tengjast sumarútgerð á minnstu fiskiskipunum. Ég hef líka oft velt fyrir mér stöðu sjávarjarðanna í þessum efnum og hversu dapurlegt það er að jarðir við sjávarsíðuna sem hafa frá alda öðli byggt afkomu sína að hluta til á því að geta sótt á grunnmiðin við landið standi núna uppi réttlausar eins og raun ber vitni.

Þessir hlutir hafa skipast með tilteknum hætti eins og við öll þekkjum og er það mikil saga, 25 ára gömul, frá því að lög um stjórn fiskveiða voru afgreidd fyrir áramótin 1983. Það vill svo til að sú saga er jafngömul veru ræðumanns á Alþingi og ég minnist mjög þeirrar umræðu sem varð í desembermánuði og inn í jólaleyfi og tengdist ekki síst þá miklum átökum um tilurð kvótakerfisins í sinni upphaflegu mynd. Varðandi hins vegar það frumvarp sem hér er flutt af hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni, Grétari Mar Jónssyni og Jóni Magnússyni, þingmönnum Frjálslynda flokksins eða a.m.k. þáverandi þingmönnum Frjálslynda flokksins, verð ég að segja að þegar ég staldra aðeins við útfærslur þær hlýt ég að hafa á því mikla fyrirvara sem hv. málshefjandi og framsögumaður kom svo sem inn á sjálfur. Spurningin er hversu umfangsmiklar veiðar mundu geta skapast ef þessu yrði svona fyrir komið að allir íslenskir ríkisborgarar með tiltekin réttindi gætu stundað veiðar á tímabilinu 1. apríl til 1. október ár hvert sem er stór hluti ársins og sá hluti þegar gæftir eru að jafnaði bestar á fiskiskipum allt að 30 tonnum eða 30 brúttórúmlestum. Þeir mættu hafa sínar tvær sjálfvirku handfærarúllurnar hvor þó að tveir menn væru í áhöfn. Fljótt á litið sýnist mér að það gæti orðið býsna umfangsmikil útgerð og drjúgur afli ef harðsnúnir fiskimenn á kraftmiklu skipi, tæpar 30 brúttórúmlestir, mundu sækja stíft allan þennan tíma. Það mundi geta haft umtalsverð áhrif á heildarmagnið sem tekið væri úr þeim stofnum sem yfirleitt gefa mest af sér á handfæraveiðum. Ég hlýt að segja fyrir mitt leyti að jafnvel þótt menn vildu skoða í fullri alvöru möguleikana á því að opna þarna með einhverjum hætti glugga, sem mér finnst sjálfsagt mál að gera, mundi kannski vera óvarlegt að gera það nema á grundvelli allmikið meiri takmarkana og stífari reglna en þarna er gert ráð fyrir. Sérstaklega ekki ef ætlunin væri að það yrði fyrst að fimm árum liðnum sem það yrði þá endurskoðað hvaða strik þetta setti í reikninginn eða hvaða magn kæmi þarna til sögunnar.

Ýmsar hugmyndir í þessa veru hafa verið á kreiki og maður rekst á þær oft á fundum við sjávarsíðuna allt niður í það að þetta eigi að vera bundið við allra minnstu skipin sem við mundum hafa kallað trillur og jafnvel að menn séu þá með í huga gömlu gerðina. Þetta eigi ekki að vera stórir hraðfrystibátar heldur séu hugmyndirnar kannski komnar út í svolitla rómantík, að reyna að endurvekja það sem í daglegu tali hefði verið kallaðar trillur eða minni mótorbátar. En ég segi fyrir mitt leyti að sú afstaða mín hefur ekki breyst að mér finnst sjálfsagt mál að hafa þetta með í umræðunni og til skoðunar því að það er óumdeilanlega ágalli á núverandi kerfi og býsna háskalegur að ekki verður sú endurnýjun og það uppeldi og þróun sem alla tíð hefur alltaf verið í íslenskum sjávarútvegi fram á síðustu ár að smábátaútgerðin er undirstöðutengingin við auðlindina í sjávarbyggðunum. Þar öðlast menn gjarnan sína fyrstu reynslu og sumar veiðar á litlum skipum upp við landið eru náttúrlega ákaflega góð og holl aðferð til þess og flestir sammála um að það séu vistvænustu veiðar sem hægt er að stunda með minnstum orkukostnaði og minnstri áhættu fyrir lífríkið hvað varðar brottkast eða aðra slíka hluti. En útfærsluna yrði að ræða um og skoða ef menn vildu gera einhverjar tilraunir í þessa veru sem ég skil raunar frumvarpið sem ákveðna hugmynd um, að gera þarna tilteknar tilraunir.
Vegna þess að hér er á dagskrá annað mál frá hv. þingmanni sem ég veit ekki hvort ég næ að vera viðstaddur umræðuna um vil ég bara segja að þar er öllu meira færst í fang, þ.e. að taka kerfið í heild sinni undir og innkalla allar veiðiheimildir úr núverandi kerfi og færa þær yfir á leigumarkað. Það er að sjálfsögðu ein aðferð sem oft hefur verið rædd. Hún hefur vissulega sína kosti en hún hefur líka sína galla því að í henni eru fólgnar ýmsar áhættur. Ég verð að segja að ég hef verið talsmaður annarra sjónarmiða, ekki þeirra að ekki eigi að reyna að lagfæra núverandi kerfi og komast út úr því á ábyrgan og yfirvegaðan hátt heldur kannski ekki síður að menn hafi þá lagt sæmilega niður fyrir sér hvað við eigi að taka. Ég hef meiri efasemdir og áhyggjur af því að setja allar veiðiheimildir á einn opinn leigumarkað. Hvað yrði þá um stöðu minni aðila, minni sjávarbyggða? Hvert yrði þeirra öryggi í slíku kerfi ef afl fjármagnsins í gegnum það að geta boðið í útleigðar veiðiheimildir réði þá miklu um það hvert þær lentu?

Ég kemst yfirleitt að sömu niðurstöðu sem er kannski ekkert óskaplega frumleg. Mönnum finnst að það yrði að byggja inn í framtíðarkerfið og það eigi að byggja inn í það eitthvert öryggi byggðanna og fólksins sem þar býr í formi einhverrar byggðatengingar a.m.k. hluta afnotaréttarins. En mér finnst það mál hins vegar tengjast öðru sem rétt er að nefna og það er spurningin um það hvenær menn ætla að manna sig upp í að fara í einhvers konar heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnarfyrirkomulaginu og þeim lögum sem um það gilda. Því hafa menn ýtt á undan sér. Nú liggur þessi langa reynsla fyrir. Menn geta lesið í hana, kannað og rannsakað hvaða afleiðingar og áhrif kerfið hefur haft í byggðalegu tilliti hvað varðar afkomu í greininni, skuldsetningu hennar en síðast en ekki síst það sem mestu máli skiptir: Hefur kerfið skilað okkur þeim árangri sem ætlast var til í sambandi við uppbyggingu fiskstofnanna? Þar er því miður svarið nei. Staðan þar er ansi dapurleg og fjarri því að þau markmið sem lög um stjórn fiskveiða byggja muni nást eða hafi náðst.

Með því er að sjálfsögðu ekki hægt að segja eða fullyrða að þar sé við fiskveiðistjórnarkerfið eitt að sakast. Það er margflókið samspil sem þar er á ferðinni, veiðarnar og hvernig þær eru stundaðar er að sjálfsögðu þáttur þar í sem ekkert verður undan dreginn. Ég mundi segja að þar bæri allt að sama brunni að auðvitað þurfa Alþingi og stjórnvöld að búa sig undir það mikla verkefni að fara í heildstæða endurskoðun á þessu fyrirkomulagi og lagaumgerð. Núverandi ríkisstjórn hefur náttúrlega afar skamman tíma til starfa og mun þurfa að forgangsraða mjög grimmt þeim verkefnum sem hún ræðst í. Þau snúa þar fyrst og fremst að björgunaraðgerðum á stuttum tíma í þágu heimila og atvinnulífs og lýðræðisumbótum og öðru slíku. Fráfarandi ríkisstjórn hafði það í stjórnarsáttmála sínum eða samstarfsgrundvelli að skipa ætti nefnd til að hefja úttekt á kerfinu, ef ég man rétt, og skoða það eitthvað nánar. Sú nefnd komst aldrei á laggirnar, sat þó ríkisstjórnin í rúmlega eitt og hálft ár. En krafturinn og áhuginn voru ekki meiri á þessu viðfangsefni en svo að það eina sem þar var heitið, að setja nefnd á laggirnar til að takast eitthvað á við þessi fiskveiðistjórnarmál, komst aldrei í gang, sú nefnd var aldrei skipuð. Þannig er nú það.

Eigum við ekki að segja að það bíði sem eitt af stórum verkefnum framtíðarinnar, nýs Alþingis og nýrrar ríkisstjórnar sem tekur til starfa síðla vors eða á vormánuðum að bak kosningum, að hafa þetta stóra viðfangsefni á dagskrá?

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):
Herra forseti. Nú erum við að fjalla um skemmtilegt mál sem er þess virði að tala mikið og lengi um. Ég ætla að byrja á því að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra um álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem kvað á um að óeðlilegt væri að úthluta gjafakvóta til eins aðila sem mætti fénýta síðan kvótann á öðrum eða þriðja aðila og eins varðandi bæturnar handa sjómönnunum sem fóru alla leið fyrir mannréttindanefnd með þetta mál. Er það ekki forgangsmál hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að fara í það mál að leiðrétta það sem brotið hefur verið á íslenskum sjómönnum, sérstaklega þessum tveimur sem fengið hafa úrskurð hjá mannréttindanefndinni? Það er mitt mat að það beri að gera. Og flokkur sem þykist vera mannréttindaflokkur — og kannski þykist það ekki, er það — sannar eiginlega í þessu máli hvort hann er alvörumannréttindaflokkur eða ekki, hvernig hann tekur á þessum mannréttindabrotum sem hafa verið gerð í íslenskum sjávarútvegi? Hann fær tækifæri til þess núna að sýna hver viljinn er í raun og það er ekki hægt að bera því við að of stuttur tími sé til að laga það. Það þarf einfaldlega að láta hæstv. fjármálaráðherra semja um bætur við þessa ágætu menn sem orðið hafa fyrir þessum skakkaföllum og hafa verið brotið mannréttindi á. Það eru tveir menn vestan af fjörðum og er sjálfsagt mál að semja við þá. Það væri þessari ríkisstjórn til mikils sóma að gera það, þótt stuttan tíma hafi. (Forseti hringir.) Ég skora á hæstv. ráðherra að gera það.

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):
Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. Grétari Mar Jónssyni um að þetta er skemmtilegt mál og þetta er mál sem er hægt að tala mikið og lengi um og sjávarútvegsmálin almennt. En hv. þingmaður tekur í raun upp annað mál en það sem undir er þótt tengt sé frumvarpi um frjálsar handfæraveiðar, ef ég má kalla það svo. Það er þá álit mannréttindanefndarinnar og sú niðurstaða sem þar var. Ég sagði það á sínum tíma og við í okkar flokki að við vildum að það álit yrði tekið mjög alvarlega af íslenskum stjórnvöldum. Við lögðum mikla vinnu í að undirbúa það sem við töldum vera eðlileg viðbrögð og sendum frá okkar ítarlega greinargerð um það mál á vordögum þegar það mál var á ferðinni. Það voru að mínu mati miklum mun efnislegri og viðameiri viðbrögð af okkar hálfu en þau sem ríkisstjórnin síðan sendi frá sér.

Nú verð ég hreinskilnislega að viðurkenna að ég hef ekki haft tíma til að fara vel ofan í það hvar það mál er á vegi statt. Það hafa einhverjar bréfaskriftir verið í gangi, ef ég veit rétt, milli íslenskra stjórnvalda og mannréttindanefndarinnar og ég þarf að setja mig betur inn í það. Aðrir hlutir hafa haft svolítinn forgang að undanförnu varðandi sjávarútveg. Þá er afkoma greinarinnar því miður heldur bágborin og viðræður við LÍÚ og fleiri aðila um það mál. Það er loðnuvertíðin sem nú er í höndum okkar og örlög hennar að ráðast og svo kannski hvalamál og ýmsir slíkir hlutir þannig að ég þarf aðeins að fá þá betri tíma til að setja mig betur inn í það hvar þessi samskipti eru að öðru leyti á vegi stödd.
Varðandi bótaþátt málsins mundi ég reikna með að þau mál væru á mínum herðum en undir öðrum hatti. Ég geri þá ráð fyrir því að það sneri að fjármálaráðherra og ríkislögmanni þar sem venjan er þegar mál eru sótt gegn ríki eða málin snúast um bótagreiðslur af því tagi en það þarf ég sömuleiðis að kynna mér.

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):
Herra forseti. Ég neita því ekki að ég er bjartsýnni núna en ég hef kannski verið lengi og ég ber væntingar í brjósti til þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra láti þessi mál til sín taka. Ég verð að viðurkenna enn og aftur að ég er bjartsýnni.
Hvað varðar þetta beina frumvarp sem við erum að tala um er auðvitað hægt að setja á það 10 þús. tonna þak í þorski, það er hægt að setja helgarfrí inn í þetta, minnka bátana úr 30 tonnum niður í 15 tonn eða 12 eða 10. Það er ýmislegt hægt að gera en opna engu að síður fyrir nýliðun og í rauninni hjálpa til við það að virða mannréttindi. Vandamálið í íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu í dag er að þar eru mannréttindabrot. Að opna þetta með einum eða öðrum hætti er hænufet í rétta átt til þess að gera mönnum mögulegt að komast inn í atvinnugreinina án þess að þurfa að borga fyrir aðgang að veiðiheimildum.

Ég treysti því að hæstv. sjávarútvegsráðherra leggi sig fram um það með einum eða öðrum hætti að koma þessu í verk til þess að þetta geti orðið án þess að setja þjóðarskútuna á hausinn. Sjávarútvegur stendur mjög illa núna.

Ég veit ekki hvort sjávarútvegsráðherra getur verið með okkur hér áfram í dag en leigumarkaði á veiðiheimildum er hægt að skipta upp í landshluta, skipta eftir stærð á skipum og það er líka hægt að tryggja það þannig að þegar menn nýta veiðiheimildina, hvort sem það er sóknardagur, tonn eða kíló, borgi þeir (Forseti hringir.) eftir á.

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):
Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir að koma í pontu og gera grein fyrir viðhorfum sínum í þessu máli. Ég skil út af fyrir sig vel að menn hafi ekki mjög langan tíma í þessari ríkisstjórn. Ég hefði hins vegar talið að það skipti okkur mjög miklu máli eins og nú árar að veita það frelsi sem hér er verið að leggja til þó að menn takmarki það frekar. Ég segi bara alveg eins og er, hæstv. forseti, að það er mjög auðvelt að finna upp takmarkanir. Ef menn halda að það skorti hugmyndir í því er ekki svo.

Hæstv. ráðherra vék að því áðan að tveir duglegir menn með tvær handfærarúllur á mann gætu fiskað vel. Það er alveg hárrétt, þeir geta það við vissar aðstæður. En það er líka mjög auðvelt að setja reglu um að fækka þessum handfærarúllum og hafa þær aðeins þrjár svo ég nefni eitthvað sem dæmi. Það er líka auðvelt að setja reglur um að þessir bátar hefðu ekki heimild til að róa um helgar. Það er hægt að setja hina viðurkenndu reglu sem við settum hér á fyrir mörgum árum, að ekki væri eðlilegt að dengja á land miklum fiski í kringum verslunarmannahelgi vegna þess að menn hefðu bara ekki tækifæri til að vinna úr honum. Þetta voru alþekktar reglur og sneru að því að tryggja gæði. Það má líka setja reglu um það að menn séu ekki að þvælast á sjó í kringum þjóðhátíðardaginn eða sjómannadaginn. Það er enginn skortur á hugmyndum í takmörkunum, á þetta takmarkaða frelsi sem við erum hér að leggja til, ef menn vilja hleypa þessu af stað.

Ég held hins vegar að það skipti ofboðslega miklu máli, hæstv. forseti, að bregðast við. Þetta getur gefið 100–200 mönnum tækifæri til atvinnusköpunar á þessu ári og (Forseti hringir.) eigi mun af veita. Til framtíðar þarf auðvitað að vanda sig við þetta mál þegar á að setja það inn í lagabálk til margra ára, ég geri mér grein fyrir því.

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):
Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekkert sérstakt til að bregðast við annað en það að ég heyri að hv. þingmaður og flutningsmaður er sér vel meðvitaður um að menn mundu kannski vilja setja inn í þetta ýmsar takmarkanir ef menn færu út í að gera einhverja tilraun á þessu sviði. Ég held hreinlega raunsætt talað að það væri algjör forsenda þess að menn sæju sér fært að leggja í það, það væri að gera þetta þá mjög varlega og yfirvegað í fyrstunni. Mundu sjálfsagt ýmsir verða lítt hrifnir samt, ónefndir vinir okkar sem við þekkjum.

Auðvitað væri hægt að ganga lengra og hafa líka áskilnað um þetta hvað varðar vinnslu í landi. Það væri að mínu mati þá æskilegt að það væri tryggð dreifing á slíkri tilraun á byggðirnar við sjávarsíðuna þannig að þetta kæmi þá ekki síst, og kannski fyrst og fremst, til góða því sem hefðbundið hafa verið smábátaútgerðarstaðir og eiga náttúrlega margir hverjir um mjög sárt að binda. Að sjálfsögðu væri hægt að hugsa sér að fara í þetta með ýmsum slíkum takmörkunum sem mundu gera það að verkum, held ég, að mönnum þætti það fýsilegra en ella að gera einhverja slíka tilraun.
Ég geri ráð fyrir því að hv. flutningsmaður og aðrir átti sig á því að líklega bíður það betri tíma að takast á við þetta enda verða búnar að vera hér kosningar og væntanlega ný ríkisstjórn eða ríkisstjórn með endurnýjað umboð sest að völdum á nýjan leik, eigum við ekki að segja bara strax fyrir mánaðamót apríl/maí, og hún getur sett þetta á verkefnalista sinn ef hugur hennar stendur til þess.

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):
Hæstv. forseti. Ég vil bara vekja athygli á því að ég held að einhver slík opnun sem hér er verið að leggja til væri jákvætt skref í núverandi stöðu, mjög jákvætt skref, og gæti skipt talsverðu máli í að lyfta aðeins af stað atvinnustiginu vítt og breitt um landið. Við værum að senda jákvæð skilaboð.
Ég geri mér hins vegar alveg grein fyrir því, hæstv. sjávarútvegsráðherra, að ef ráðherrann beitti sér í því að taka slíka ákvörðun, þótt takmörkuð væri, mjög takmörkuð, yrðu það sennilega ekki miklir hamingjudagar hjá sumum. Ég hugsa að þeir mundi ekki flokkast undir hamingjudaga LÍÚ, þ.e. þessir 70 sem eftir eru. Ég er alveg klár á því að LÍÚ mundi ekki flokka það sem sérstaka hamingju ef þessi tillaga okkar í Frjálslynda flokknum hefði gengið einhvers staðar eftir.

Grétar Mar Jónsson (Fl):
Herra forseti. Þetta frumvarp gengur út á það að opna fyrir frjálsar handfæraveiðar á bátum undir 30 tonnum. Það er ekki neglt niður nákvæmlega hvernig útfærslan á þessu yrði en skipin þurfa auðvitað að hafa haffærisskírteini og þau þurfa að hafa réttindamenn bæði í vél og brú til að uppfylla skilyrði. Þau þurfa að hafa haffærisskírteini og vera með sjálfvirka tilkynningarskyldu þannig að þau uppfylli það sem farið er fram á við skip almennt á Íslandsmiðum.

Ég sakna þess að sjá ekki hér fleiri nefndarmenn úr sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og ég sakna þess líka að sjá ekki nýkjörinn formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Þetta er auðvitað mál sem gæti orðið fyrsta skrefið til þess að virða mannréttindi og fara að tilmælum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Ég geri mér þær vonir enn þá og ég trúi ekki öðru en að vinstri grænir muni beita sér fyrir því og nýta þessa 70 daga sem þeir hafa til að virða þessi mannréttindi. Ég ætla ekki að trúa því fyrr en ég sé fram á það að vinstri grænir bregðist fólkinu í landinu og sjómönnum með þeim hætti að humma þetta fram af sér á meðan þeir eru í ríkisstjórn.

Við erum að tala um uppstokkun á gjafakvótakerfinu og eins og allir vita hef ég lengi talað gegn þessu gjafakvótakerfi. Það hefur ekki gert okkur íslensku þjóðinni nokkurn skapaðan hlut annan en allt til bölvunar. Ég hef stundum kallað þetta gjafakvótakerfi mesta ríkisstyrk til einnar atvinnugreinar og þá er ég að tala um að engin atvinnugrein sem ég veit um á byggðu bóli komst upp með það að veðsetja veiðiheimildir á Íslandsmiðum fyrir allt að þúsund milljarða. Verðmæti gjafakvótans voru þúsund milljarðar fyrir einu ári. Þeir gátu leigt, veðsett og selt veiðiheimildir og margir ágætir menn hafa bent á það að upphafið að aðalógæfu okkar á haustdögum þegar bankakerfið féll hafi verið þetta bannsetta kvótakerfi. Samt horfir maður upp á það að vissir menn treysta sér til að verja það með ýmsum hætti.
Að hleypa nokkrum trillum — eða ekki nokkrum, við skulum bara vona að þær verði sem flestar — inn í einhvern ákveðinn pott upp á kannski 10 þús. tonn sem mundi fríska töluvert upp á atvinnulífið í sjávarbyggðum hringinn í kringum landið, skapa gjaldeyristekjur og atvinnu er auðvitað það sem við þurfum á að halda núna. Við þurfum ekki bara á því að halda, við þurfum að bæta verulega við kvóta í flestum tegundum til þess að auka verðmæti og atvinnu og afla gjaldeyristekna.

Á haustdögum gerðum við að mínu mati mjög slæma hluti þegar Alþingi samþykkti að leyfa mönnum að geyma, ekki bara 20% af kvótum milli ára heldur 33%. Það þýðir að miðað við 160 þús. tonna úthlutun í þorski má núna geyma á milli ára 53 þús. tonn sem auðvitað mundi þýða að allt að þúsund störf töpuðust ef þetta væri allt saman geymt á milli ára. Talað er um að auka við kvótann en svo er hægt að geyma hann allan og þjóðin nýtur þá ekki góðs af honum. Það eru tegundir í kvóta eins og rækja sem enginn getur gert út á í dag af því að einhverjir sægreifar eiga rækjukvótann og vilja fá svo og svo margar krónur fyrir hvert kíló sem þeir leigja frá sér. Hann brennur inni ár eftir ár og hefur ekki verið nýttur en gæti skapað mörg störf í rækjuvinnslum sem enn eru til en eru lokaðar þar sem ekki er verið að vinna í nema sárafáum. Þess vegna segi ég að við þurfum að auka við kvótann og við þurfum að stokka upp sjávarútvegskerfið í heild sinni. Þetta yrði fyrsta skrefið til að opna á nýliðun og gefa fólki tækifæri til að eiga aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, fiskinum í sjónum.
Auðvitað má segja að það sé hægt að búa til þak í þetta í tonnum talið. Við erum að horfa upp á það á Suðurnesjum núna að flotinn er meira og minna stopp sem þarf að leigja til sín þorsk. Þeir eiga jafnvel ufsakvóta og þeir eiga ýsukvóta en þeir geta ekki róið vegna þess að þá vantar þorskkvóta. Leiguverðið á þorski í dag er 200 kr. hvert kíló en söluverð á fiskmörkuðum er ekki nema 210–215 kr., þ.e. þegar búið er að borga leiguna eru 10–15 krónur eftir og þær fara í uppboðskostnað á fiskmörkuðum hjá þeim sem landa á fiskmörkuðum.

Það var ánægjulegt að heyra hæstv. sjávarútvegsráðherra tala um það hér áðan að hann væri hlynntur veiðum smábáta. Auðvitað verður maður bjartsýnn þegar maður heyrir hæstv. ráðherra tala þannig en ég get ekki orða bundist með það að hæstv. núverandi sjávarútvegsráðherra tók þátt í því 1990 að greiða atkvæði með frjálsa framsalinu. Hæstv. sjávarútvegsráðherra innleiddi kvótabraskið í atkvæðagreiðslu á Alþingi 1990 og það tók gildi árið 1991. Hann ber pólitíska ábyrgð á því braskkerfi sem hefur verið hér við lýði og auðvitað óttast maður að hann, sá ágæti hæstv. ráðherra, sé kannski ekki eins mikið á móti þessu fiskveiðistjórnarkerfi og hann vill stundum vera láta. Ég minnist þess líka að frá 1991 til 1995 var hæstv. sjávarútvegsráðherra í minni hluta en leiddi nefnd, var þá formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis.

Þetta er að mínu mati mjög nauðsynlegur hlutur, þ.e. að endurskoða allt fiskveiðistjórnarkerfið okkar, og það á að vera verkefni þessarar ríkisstjórnar að fara í það mál að byrja að opna á glufur fyrir nýliðun til þess að virða mannréttindi. Það er ekki til of mikils ætlast að það verði gert. Þrátt fyrir að ég bendi á að núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi tekið þátt í að koma frjálsa framsalinu á trúi ég ekki öðru en að hans liðsmenn, flokkssystkini hans, sjái um það að Vinstri grænir virði þetta og stígi ákveðin spor í rétta átt til að virða mannréttindi. Ég mun aldrei trúa öðru fyrr en ég tek á því að þau ætli að láta þetta afskiptalaust fram yfir kosningar.

Þegar verið er að ræða þessi sjávarútvegsmál er auðvitað hægt að fara í gegnum þau á margan hátt. Varðandi leigu á veiðiheimildum er, eins og ég benti á í andsvörum við hæstv. sjávarútvegsráðherra, hægt að leigja út veiðiheimildir með því að skipta þeim á landshluta og á bátastærðir þannig að enginn verði afskiptur. Það er hægt að tryggja það með þeim hætti að þeir borgi aðgang að veiðiheimildum, borgi leiguna á veiðiheimildunum um leið og þeir nýta þær, hvort sem það eru dagar, tonn eða kíló.

Ef frumvarpið yrði að lögum væri líka hægt að setja það sem kvöð að þessi fiskur færi ekki í gáma, hann færi allur á íslenska fiskmarkaði, yrði seldur þar fyrir íslenska fiskvinnslu, íslensk fiskvinnsla hefði aðgang að þessu hráefni. Það er hægt að setja viku til 10 daga stopp í kringum verslunarmannahelgi, það er hægt að hafa 4–5 daga stopp í kringum sjómannasunnudag, jafnvel 17. júní og ýmislegt annað. Það er ýmislegt hægt að gera ef menn vilja en fyrst er að vilja gera einhverjar breytingar, stíga einhver hænufet í rétta átt hvað þessi mál varðar og þá er hægt að byrja á því að brjóta ísinn. Það er það sem við þurfum að gera. Hvort LÍÚ sé sátt við svona gjörðir hélt ég að íslenskir sósíalistar létu sig engu varða, hvort einhverjir sem hafa verið með auðlindina síðustu 20 ár eða meira (Gripið fram í.) og braskað með hana, leigt , selt og veðsett óttist virkilega að kalla yfir sig reiði frá íslenskum útgerðarmönnum, hvort sem þeir eru í LÍÚ eða Landssambandi smábátaeigenda. Það er ótrúlegt, en það getur vel verið að það ráði einhverju. Á hæstv. sjávarútvegsráðherra var að heyra sem hann væri eitthvað smeykur við LÍÚ.

Ég vona að hann komist út úr því og ég trúi því og vona að einhver skref verði stigin í rétta átt í þessu, enn og aftur segi ég það og trúi ekki öðru en að þetta frumvarp sem fer væntanlega til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar fái góðan framgang þar og við getum afgreitt frumvarpið á þessu þingi áður en við förum í kosningar.

Jón Bjarnason (Vg):
Herra forseti. Þetta frumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem þrír hv. þingmenn Frjálslynda flokksins flytja og hafa mælt fyrir er um margt gott. Markmið þess finnst mér vera mjög gott en það er að finna leið til þess að hægt sé að opna fyrir fiskveiðar meðfram ströndum landsins á minni bátum, trillum eða bátum af þeirri stærð og kallaðir voru trillur, innan þess fiskveiðistjórnarkerfis sem við búum við. Ekki er hægt að breyta því alveg í hvellinum þó svo að við fegin vildum, það þarf lagabreytingar til. Ég býst við að það muni nú eitthvað flækjast um en það skal ekki að standa á mér í þeim efnum.

Það er alveg gríðarlega mikilvægt að finna leið sem opnar fyrir nýliðun, fyrir það að ungt fólk komi heim í sjávarbyggðirnar á sumrin og vantar atvinnu, vantar að rækta tengingu sína við þær auðlindir sem þær byggðir hafa byggst á. Að hægt verði að opna fyrir svigrúmið og að unnt sé að stunda þar fiskveiðar á litlum bátum undir skilgreindum afmörkunum og takmörkunum.
Ég tek þess vegna heilshugar undir þau sjónarmið og markmið sem sett eru fram í þessu frumvarpi um leiðir til þess að opna fyrir smábátaveiði. Menn leiti frekar leiða til þess að setja þeim þær takmarkanir, bæði í tíma og stærð á bátum og veiðum, fjarlægð frá heimahöfn og þess háttar, setji mörk sem geta þjónað þessum markmiðum en samt verið ásættanleg.

Mér fannst notalegt að heyra hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson sem talaði alveg eins og ég er uppalinn við, að það sé alveg sjálfsagt að vera leyfa ekki veiðar um helgar. Ég er uppalinn við sjóróðra og man að faðir minn reri aldrei á sunnudögum, alveg sama hversu kappsamur hann var við sjósókn. Það er því hægt að setja þessu ýmis mörk. Hv. þm. Grétar Mar Jónsson minntist á að gera stopp um hátíðir, um verslunarmannahelgi og aðrar slíkar hátíðir. En það er mjög mikilvægt að finna einhverja leið ef nokkur kostur er til þess að opna þarna á.

Þó að í frumvarpinu sé lagt til að þetta gildi um alla íslenska ríkisborgara sem hafi vélstjóra- og skipstjórnarréttindi og að jafnframt sé vísað til mannréttindasjónarmiða, sem ég virði og tel mikilvægt að við fylgjum eftir, mætti líka hugsa sér að taka þetta í áföngum. Þetta tengdist þannig fyrst og fremst þeim sjávarbyggðum sem eiga þarna atvinnulega og samfélagslega mest undir.
Ég vitna til orða hæstv. sjávarútvegsráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, hér í umræðunni sem tók undir þetta með jákvæðum hætti. Hann er auðvitað ábyrgur fyrir því hvernig þetta megi ná fram að ganga. Mér fundust undirtektir hans vera fullar af skilningi eins og reyndar var von og vísa í þeim efnum.
En við getum gert fleira hvað þetta varðar. Ég minni á útflutning á óunnum fiski sem er fáránlegur. Þó að settar hafi verið einhverjar hömlur núna nýlega með breytingu á lögum um að hamla útflutningi á óunnum gámafiski er það samt opið og í rauninni í hendi ráðherra hvað gera skal. Sú staðreynd að á milli 50 þús. og 60 þús. tonn voru flutt út óunnin í gámum á fiskmarkaði til þess að vinna frekar erlendis segir okkur að þar er um að ræða afrakstur auðlindar okkar sem við gætum nýtt okkur miklu betur. Menn tala jafnvel um þúsundir starfa á íslenskum sjávarbyggðum sem mundu verða til ef þessi fiskur væri unninn innanlands eða að íslenskar fiskvinnslur ættu að minnsta kosti möguleika á því að kaupa hann og vinna.

Mér finnst að í þeirri stöðu sem við erum núna þegar við verðum að standa vörð um hvert starf, um verðmætaaukningu, verðmætasköpun og nýtingu auðlinda okkar í okkar þágu eins og sjávarauðlindarinnar eigum við að setja þau mörk að fiskur sem veiðist á Íslandsmiðum komi til vinnslu hér innanlands, auki verðmætasköpun og skapi störf. Mér fannst mjög dapurt að fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, skyldi þá ekki ganga skrefið til fulls og setja stopp á útfluttan gámafisk. Við munum hvetja sjávarútvegsráðherra okkar nú til að kanna með hvaða hætti hægt er að koma til móts við þau sjónarmið og kröfu um að fiskur sem veiðist á Íslandsmiðum verði unninn hér innanlands.

Ég vil síðan minna á okkar ágæta frumvarp sem við fluttum á síðasta þingi við hv. þm. Björn Valur Gíslason varaþingmaður, sá sem hér stendur og Atli Gíslason, um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða þar sem við lögðum til að farið væri í heildarendurskoðun á þeim. Sett væri sólarlagsákvæði á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sem kæmi til framkvæmda eftir nokkur ár. Þá væri komið nýtt fiskveiðistjórnarkerfi sem tæki mið af þeim atriðum sem lúta að byggðatengingu, sjálfbærri nýtingu og að fiskurinn verði unninn hér innanlands o.s.frv. (Gripið fram í.)

Þingmaðurinn styður það meginmarkmiðið sem frumvarpið leggur í að kannaðar verði allar leiðir til að opna fyrir þessa smábátaveiði. Þau atriði sem þarna eru til um afmörkun og tillögur get ég ekkert sagt um en markmiðið, að leita skuli allra leiða til að nálgast þetta styð ég, svo að það sé alveg klárt.
Ég vil líka minna á að við, hv. þm. Björn Valur Gíslason, Atli Gíslason og ég, höfum einnig flutt tillögur um að við nálgumst fiskveiðarnar á grunni náttúrulega sjálfbærrar þróunar en jafnframt að þeir sem búa við sjávarsíðuna, stunda sjósókn og nýta þessar auðlindir fái ábyrgð í ræktun og verndun sjávarauðlindarinnar.

Það hefur gefist mjög vel í landgræðslunni við endurheimt landgæða bæði í byggð og í óbyggðum verkefnið Bændur græða landið þar sem bændur eru hluti af „prógrammi“ þar sem verið er að rækta, vernda og nýta land. Nákvæmlega sama hugarfar finnst mér að við eigum að rækta og gefa möguleika meðal sjómanna og þeirra sem búa við sjávarsíðuna, að sjómenn græði hafið. Að sjálfsögðu á að færa til þeirra aftur auðlindina meðfram ströndum landsins sem tekin hefur verið frá þeim.
Ég sé fyrir mér að slíkt tilraunaverkefni fari í gang sem annars vegar tengist því að efla atvinnu í minni sjávarbyggðum og hins vegar því verkefni að sjómenn græði hafið. Ég sé að hér kemur vörpulegur þingmaður, hv. þm. Árni Johnsen, og sé ekki annað en að hann ljómi hreinlega undir ræðu minni.

(Gripið fram í.)

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Við höfum oft átt góða samleið, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, með þingmönnum Frjálslynda flokksins í mörgum málum sem lúta að sjávarútvegsmálum og mannréttindamálum í sjávarútvegi. Þau sjónarmið og hugmyndir sem þarna eru lögð fram um að finna leið til að smærri bátar í sjávarbyggðunum geti á einhvern hátt stundað sumarveiðar á fiski undan ströndinni finnst mér að eigi að skoða mjög vandlega og athuga hvort hægt sé að koma þeim að einhverju leyti í framkvæmd.   Sjá frekari umræðu á þessari krækju:

 

Umræður á Alþingi

Umræður um útræðisrétt strandjarða á Alþingi ( óyfirlesið )

133. löggjafarþing 2006–2007.Þskj. 140  —  140. mál.


Fyrirspurn
til iðnaðarráðherra um útræðisrétt strandjarða.

Frá Sigurjóni Þórðarsyni.
Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að útræðisréttur strandjarða verði virtur að nýju?

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson):

Frú forseti. Ég beini eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. byggðamálaráðherra og formanns Framsóknarflokksins:
Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að útræðisréttur strandjarða verði virtur að nýju?
Hér er um mjög mikilvægt byggðamál að ræða og ég vil benda á að t.d. á Ströndum hafa jarðir ýmis gæði, t.d. æðarrækt og sauðfjárrækt, en ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hefur svipt eigendur sjávarjarða réttinum til að nýta jarðirnar, rétti til að nýta grásleppumið sem eru í eignarlandinu. Ég vil því spyrja hvort hæstv. byggðamálaráðherra ætli að snúa blaðinu við og leyfa fólkinu að nýta eignarlönd sín, en útræðisréttur sjávarjarða snýr einnig að því að bændur geti nýtt nálæg fiskimið eins og þeir hafa gert frá þjóðveldisöld, en nú hefur nýi Framsóknarflokkurinn einhverra hluta vegna svipt þá þeim réttindum.

Ég hef áður borið þessa spurningu upp, m.a. hér á Alþingi við hæstv. landbúnaðarráðherra og hann brást hinn versti við og taldi ákveðinn dónaskap vera fólginn í að spyrja slíkrar spurningar. Mér finnst það ekki. Mér finnst þetta snúast um hvort fólk fái raunverulega að bjarga sér á landsbyggðinni fyrir ofríki stjórnvalda.

Ég hef einnig spurt núverandi hæstv. félagsmálaráðherra sömu spurningar og hann virtist ekkert gera sér grein fyrir því hversu mikilvægt byggðamál þetta væri. Þetta er afar mikilvægt mál og það er mjög sérstakt að Framsóknarflokkurinn hafi daufheyrst við kröfum eigenda sjávarjarða fram á þennan dag. Þeir hafa þurft að leita á náðir dómstóla, ekki einungis hér á Íslandi — þar sem þeir hafa því miður ekki fengið jákvæðar niðurstöður — heldur hafa þeir þurft að fara núna til Evrópu, til sjálfs Mannréttindadómstóls Evrópu til þess að leita ásjár hvort þeir fái að nýta eignarlönd sín. Mér finnst þetta vera hið furðulegasta mál einmitt í ljósi þess að í flokkssamþykktum Framsóknarflokksins er þetta ein af samþykktunum. Samt sem áður vilja ráðherrar Framsóknarflokksins ekki beita sér og finnst þessi samþykkt flokksins í rauninni ekki vera mikilvæg og það kemur fram í svörum þeirra hér.
Auðvitað vitum við hvað liggur hér að baki. Framsóknarflokkurinn er hræddur við að verði bændum leyft að nýta eignarlönd sín muni það að einhverju leyti raska kvótakerfinu sem Framsóknarflokkurinn hefur staðið vörð um. (Forseti hringir.) Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. byggðamálaráðherra hvort hann ætli að virða eignarlönd bænda.

Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson):
Hæstv. forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn frá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni. Hann beinir þeirri spurningu til mín hvort ég hyggist sem iðnaðarráðherra beita mér fyrir því að útræðisréttur strandjarða verði virtur að nýju.

Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þingmanns, það er samþykkt stefnumið á flokksþingi Framsóknarflokksins að vinna að því að útræðisréttur strandjarða verði virtur. Um er að ræða afar forn réttindi jarðareigenda sem eiga sér m.a. stoð í rekabálki Jónsbókar og veiðitilskipun frá árinu 1849. Hins vegar rekast þessi réttindi á sjónarmið um nýtingu og verndun fiskstofna og það er nauðsynlegt að horfa til þess líka.

Það má ekki gleyma því að miklar breytingar hafa orðið á heimildum eigenda fasteigna til nýtingar á eignum sínum með breyttum lifnaðarháttum og breyttu atvinnulífi. Ýmis lagaákvæði takmarka rétt fasteignareigenda til notkunar á landi sínu og koma þar til sjónarmið, m.a. skipulag, umhverfisvernd, verndun fugla og dýra og fleira. Þessar takmarkanir þykja réttlætanlegar í nútímaþjóðfélagi út frá sjónarmiðum um verndun og skynsamlega nýtingu. Ákvæði sem þessi geta vissulega orðið til þess að bótaréttur stofnast en slíkt verður að meta í hverju tilviki.

Kunnugt er að uppi hafa verið deildar meiningar meðal lögfræðinga um það hvort með lögum um stjórn fiskveiða hafi verið gengið of nærri stjórnarskrárvörðum eignar- og atvinnuréttindum þeirra bænda sem land eiga að sjó. Einnig liggur fyrir að eigendur sjávarjarða hafa af þessu tilefni stofnað samtök sem hafa þann tilgang m.a. að fá útræðisrétt sjávarjarða virtan á ný.
Mér vitanlega hefur ekki reynt á túlkun þessa beinlínis fyrir dómstólum en Hæstiréttur hefur með dómi frá árinu 2004 staðfest heimild löggjafans til að vernda nytjastofna í fiskveiðilandhelginni og stuðla að hagkvæmri nýtingu þeirra með því að banna landeigendum veiðar úr þeim innan netlaga sem utan, nema með sérstöku leyfi.

Verndun og nýting fiskstofna er hins vegar málefni sem heyrir undir sjávarútvegsráðuneytið. Af þeirri ástæðu, í fjölskipaðri ríkisstjórn, er ekki unnið að breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu í iðnaðarráðuneytinu.

Jón Bjarnason:
Frú forseti. Útræðisréttur strandjarða er hluti af möguleikum íbúa landsins til að nýta auðlindir þess sér til atvinnusköpunar. Um aldaraðir hefur farið saman það búskaparform meðfram ströndum landsins að bændur hafa samtímis nýtt gæðin til landsins og til sjávarins. Ég er uppalinn við það að þá var til helminga stundaður sjór og landbúnaður.

Það að gefa strandjörðum rétt til ákveðins útræðis finnst mér bara skýlaus krafa sem þess vegna byggðamálaráðherra ætti að beita sér fyrir. Þetta er réttur sem fylgir jörðinni, réttur sem fylgir búsetuskyldu, réttur sem ekki er hægt að selja frá jörðinni eða leigja, heldur einungis nýta af þeim sem á og (Forseti hringir.) situr jörðina á hverjum tíma. (Forseti hringir.) Þennan rétt, frú forseti, þurfum við að standa vörð um og endurvekja.

Magnús Þór Hafsteinsson:
Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða mál sem er á margan hátt mjög mikilvægt, þ.e. að þessi forni réttur bænda til að nýta auðlindir sínar sé virtur. Að sjálfsögðu tek ég fyllilega undir með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni í þessum efnum.

Svör hæstv. ráðherra koma hins vegar ekki á óvart. Það er greinilega enginn vilji hjá ríkisstjórnarflokkunum til að virða þessi fornu réttindi bænda og það ber að harma. Ég hygg að þetta málefni verði til umræðu í kosningunum á vori komanda. Þetta snýst um grundvallarmál.

En afstaða ríkisstjórnarinnar kemur alls ekki á óvart. Hún stendur mjög dyggan vörð um það að halda þessum nýtingarrétti á höndum örfárra einstaklinga og útilokar að sama skapi almenning, þjóðina, frá því að fá að nýta þessar sjálfsögðu auðlindir sem tilheyra landsbyggðinni. Þetta er stefna sem ber mjög að harma. Það er alveg sjálfsagt mál og eðlilegt að þetta verði allt saman tekið til endurskoðunar og það verði gerðar úrbætur í þessum efnum um leið og ný ríkisstjórn tekur við á vori komanda.

Jón Gunnarsson:
Frú forseti. Útræðisréttur strandjarða er forn réttur sem ríkið hefur tekið bótalaust af eigendum jarðanna. Ríkið fer þarna fram í valdi þess að vera hinn sterki og þeir sem eiga jarðirnar verða fyrir bótalausu eignarnámi vegna þess að þeir geta ekki varist ríkisvaldinu.

Þetta minnir mig að hluta til á það sem gerist í framkvæmd ríkisins á þjóðlendulögunum. Þar fer ríkið líka fram í krafti þess að vera hinn sterki gegn þeim sem erfitt eiga með að verja sig. Ég fullyrði t.d. varðandi þjóðlendulögin að þeir þingmenn sem samþykktu þau á sínum tíma á hinu háa Alþingi gerðu sér aldrei grein fyrir því að ríkið mundi fara fram með því offorsi sem ríkið hefur gert og taka eignarlönd og lönd sem menn hafa þinglýsta pappíra fyrir og þinglýsta kaupsamninga af mönnum bótalaust, eins og gert var með útræðisrétt strandjarða.

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson):
Frú forseti. Það var sorglegt að hlýða hér á hæstv. byggðamálaráðherra. Auðvitað ber þó að þakka honum fyrir að koma hreint fram, koma eins og hann er klæddur til dyranna. Hann segir okkur frá því að hann ætli í rauninni ekki að virða þennan rétt, og að honum finnist það réttlætanlegt. Ég vil að hann skoði hug sinn og spyrji sig hvort það sé réttlætanlegt með einhverri verndun fiskstofna að svipta bændur réttinum til að nýta eignarlönd sín sem ná 115 metra út í sjó. Er í lagi með svona hugsanagang?

Ég get ekki séð að það sé hægt að finna einhverja stoð eða einhver rök fyrir því að þetta snúist um vernd fiskstofna, að svipta menn leyfi til grásleppuveiða í eignarlöndum sínum, svo að dæmi sé nefnt, eða veiða þar á krók eða í net. Þetta er í rauninni hrein og klár della.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem hæstv. byggðamálaráðherra kemur hreint fram, heldur hefur hann áður komið fram með sína byggðastefnu. Það gerði hann fyrir tveimur árum. Þá skrifaði hann í Borgfirðingabók að hér ætti að mynda einhvers konar borgríki. Orðrétt segir í þessum skrifum hæstv. byggðamálaráðherra, með leyfi forseta:

„Íslenska sveita- og þorpasamfélagið er úr sögunni. Í stað þess er hér risið nokkurs konar borgríki, samfélag sem ber mjög ólík einkenni og lýtur allt öðrum lögmálum.“
Þetta er hinn nýi Framsóknarflokkur. Það er ágætt að bændur landsins viti að ef þeir merkja við B-ið í næstu kosningum eru þeir sömuleiðis að skrifa undir það að vera áfram sviptir eignarrétti sínum. Það er alveg stórundarlegt að Framsóknarflokkurinn sé kominn í þá stöðu (Forseti hringir.) að ráðast svo gegn hagsmunum bænda.

Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson):
Hæstv. forseti. Það reiknast til misskilnings að ruglast á lýsingu í riti og stefnulýsingu eða óskalista. (SigurjÞ: Á ég að halda áfram með hana?)Það er mikill munur á því hvort menn eru blindir á staðreyndir og eru kannski að harma þær eða hvort menn hvetja til tiltekinnar þróunar. Ég hef reynslu sem íslenskukennari og þekki þetta vandamál hjá nemendum.

Það er hins vegar talsverður samhljómur í því sem hér hefur komið fram um viðhorf til þessara fornu réttinda strandbænda. En ég vísa aftur til þess sem ég sagði um lögformleg rök og stjórnsýsluaðstæður í fjölskipaðri ríkisstjórn.

Umræða á Alþingi um útræðisrétt strandjarða.

Umræða um útræðisrétt strandjarða
132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mar. 2006.

Útræðisréttur strandjarða.
491. mál
[14:16]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson):
Frú forseti. Ég hreyfi hér við máli sem skiptir landsbyggðina og bændur landsins mjög miklu og ég hef áður spurt hæstv. landbúnaðarráðherra þessara spurninga. Hann brást hinn versti við og vildi vísa málinu frá sér, vísaði m.a. á hæstv. sjávarútvegsráðherra og jafnvel fjármálaráðherra. Svo heit kartafla var þetta að hann vildi alls ekki koma nálægt henni.

Þetta er spurning sem varðar hvort virða ætti útræðisrétt strandjarða. Ef allt væri með felldu þá væri þetta spurning sem sjálfstæðismönnum væri annt um að svara, þ.e. hvort virða ætti eignarréttinn. Það er verið að böðlast við að færa eignarrétt á hinum og þessum hlutum, m.a. á vatni og meira að segja í föstu og fljótandi formi, en ég vil spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra: Hyggst hann virða útræðisrétt, beita sér fyrir því að útræðisréttur strandjarða verði virtur á ný? Ef þessari spurningu yrði svarað játandi yrði það örugglega lyftistöng fyrir margar byggðir landsins og ég tala ekki um í okkar ágæta kjördæmi, Norðvesturkjördæminu og menn mundu taka því fagnandi ef svarið yrði já. Ég býst ekkert endilega við að fá skýrt svar. Það verður örugglega út og suður eins og hæstv. ráðherra er oft tamt að svara. Það koma sjaldnast skýr svör þegar verið er að ræða um erfðafræðina eða styrki. En það má reyna hvaða svör við fáum.

Það mátti lesa athyglisverða grein um málið á síðum eins dagblaðanna í vikunni, á sunnudaginn eftir Ómar Antonsson, þar sem hann líkti þessu ástandi sem nú ríkir við algera eignaupptöku, að með kvótalögunum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið vörð um hafi eignarrétturinn verið tekinn af bændum. Ég vil fá skýr svör um hvort menn ætla að láta hér við sitja eða hvort virða eigi eignarrétt bænda í þessum málum. Mér finnst að menn ættu að sjá sóma sinn í því.

Ég er á því að þetta sé ekki mál sem mundi raska kvótakerfinu svo mjög, þessu kerfi sem kvótaflokkunum er svo annt um, en þó virðast þeir vera hræddir við einhverjar glufur ef menn fái að sækja þorsk eða hrognkelsi í fjöruborðið hjá sér þá geti það mögulega orðið sú þúfa sem velti úr sessi þessu óréttláta kerfi. Ég segi bara að farið hefur fé betra, ef sú verður raunin.

132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mar. 2006.

Útræðisréttur strandjarða.
491. mál
[14:19]

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson):
Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig spurningar:
„Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að útræðisréttur strandjarða verði virtur að nýju?“
Í umræðu um þessi mál er því stundum haldið fram að með lögum um stjórn fiskveiða frá árinu 1984 hafi strandjarðir verið sviptar rétti umfram aðra. Það er hins vegar vafasöm fullyrðing. Frá upphafi byggðar hér á landi voru veiðar utan netlaga öllum heimilar. Þegar ákveðið var í upphafi árs 1984 að taka upp nýja skipan við stjórn fiskveiða var ákveðið hér á Alþingi að veiðiheimildir skyldu bundnar við fiskiskip en ekki jarðeignir, hafnir eða byggðarlög. Hafi jarðeigendur gert út báta á þeim tíma sem lagður var til grundvallar við úthlutun veiðiheimilda þá hafa þeir fengið úthlutun í samræmi við aflareynslu báta sinna. Ekkert er því til fyrirstöðu að bændur rói frá jörðum sínum og það viðurkennt að þeir einir geti stundað veiðar innan netlaga jarða sinna, hafi þeir til þess nauðsynlegar veiðiheimildir eða fiskveiðirétt að öðru leyti. Annað mál er að hér virðist ekki ljóst hver netlög séu þegar til fiskveiða koma. Það hafa gengið dómar sem gera það að verkum að spurningin um hver þessi netlög séu er enn þá uppi að því er mér sýnist og þegar ég fer yfir ræðu hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar þá er mér alls ekki ljóst nákvæmlega hvaða útræðisrétt hv. þingmaður er að tala um. Er hann að tala almennt um að eigendur strandjarða hafi sérstakan fiskveiðirétt í landi okkar eða er hv. þingmaður að tala um að þessi fiskveiðiréttur nái eingöngu til veiða innan netlaga?

Það er alveg ljóst að þeir sem hafa gagnrýnt þessi mál út frá sjónarhóli eigenda sjávarjarða hafa beitt alveg tvenns konar rökum. Það hefur m.a. komið fram í málflutningi tiltekinna lögfræðinga að þeir hafa haft uppi algerlega tvö sjónarmið í þessum efnum. Annars vegar eru þeir sem hafa sagt sem svo: Það er þannig að þeir sem eru eigendur strandjarða eða sjávarjarða eiga rétt til veiða innan netlaga sinna alveg án tillits til þess hvort þeir eru með grásleppuleyfi eða hvort þeir eru með kvóta eða annan fiskveiðirétt. Svo eru aðrir sem halda því fram að þetta sé brot á mannréttindum og að þetta sé eignaupptaka vegna þess að bændur á sjávarjörðum eigi miklu víðtækari atvinnuréttindi en sem þessu nemur. Þetta er það sjónarmið sem mér sýnist menn halda mjög fram núna, þ.e. að eigendur sjávarjarða í landinu eigi almennan fiskveiðirétt út frá jörðum sínum og það sé þá ekki bundið við netlögin. Þetta er auðvitað miklu stærra mál sem gæti haft veruleg áhrif, eins og hv. þingmaður sagði áðan, ef menn gætu átt sjálfstæðan rétt langt umfram fiskveiðirétt innan netlaga sinna.

Það var hins vegar athyglisvert að hv. þingmaður talaði um eignarrétt í þessu sambandi og hann lítur greinilega þannig á að rétturinn til fiskveiða sé þar með eignarréttur. Hann er ekki að tala um atvinnuréttindi, eins og til að mynda prófessor Sigurður Líndal hefur talað um í þessu sambandi. Hann er að tala um miklu víðtækari réttindi. Hv. þingmaður talaði algerlega fortakslaust og án þess að hafa neina fyrirvara á því að um eignarrétt í þessu sambandi (SigurjÞ: Ætlarðu að svara þessu eða ekki?) og ég hef verið að svara spurningunni, hv. þingmaður. Hv. þingmaður telur hins vegar að líki honum ekki svarið og sé ekki sammála því þá sé það ekki svar. En hv. þingmaður verður að átta sig á því að það kunna að vera uppi álitamál í þessum efnum og ég var einfaldlega að rukka hv. þingmann um að hann reyndi t.d. að útskýra fyrir mér þessa einföldu spurningu sem ég hélt a.m.k. að menn ættu að geta gengið út frá að væri forsendan í umræðunni, hvort við værum að tala um fiskveiðirétt sem hv. þingmaður talar algerlega undanbragðalaust um sem eignarrétt, en það eru nokkur tíðindi í þessari umræðu að eignarrétturinn, sem hann kallar svo, nái ekki bara til veiða í netlögum heldur sé líka hinn almenni veiðiréttur ef menn eiga sjávarjarðir. Ég tel því að það sé ekki ástæða til að breyta þeirri framkvæmd sem hefur verið og svarið verður þá væntanlega mjög skýrt, er það ekki, hv. þingmaður? Ég tel að þau lög sem núna gilda geri það að verkum að þeir sem séu eigendur sjávarjarða hafi ekki sjálfstæðan fiskveiðirétt umfram það sem almenn lög og reglur kveða á um.

132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mar. 2006.

Útræðisréttur strandjarða.
491. mál
[14:24]

Jón Bjarnason:
Frú forseti. Réttur strandjarða til að nýta fiskveiðihlunnindi fyrir löndum jarðanna hefur verið til staðar öldum saman og búskapur og búseta í landi hefur byggst jöfnum höndum á lands- og sjávargæðum. Ég tel að ekkert eigi að vera því til fyrirstöðu að strandjarðir fái viðurkenndar veiðiheimildir sem séu bundnar við jörðina, bundnar við búsetu á jörðinni, nýttar af þeim sem þar búa, óframseljanlegar. Séu þær ekki nýttar af viðkomandi ábúanda sofni sá réttur og bíði þangað til annar komi. Það er útilokað að hugsa sér að þarna sé um einhvern framseljanlegan rétt að ræða. Mér finnst þetta vera hinn eðlilegi réttur, að sá sem býr á jörðinni megi stunda sjóinn upp að einhverju ákveðnu marki, (Forseti hringir.) ákveðin aflahlutdeild en óframseljanleg, frú forseti.

132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mar. 2006.

Útræðisréttur strandjarða.
491. mál
[14:25]

Össur Skarphéðinsson:
Frú forseti. Ég var hissa á að heyra þetta afdráttarlausa svar hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra. Þetta virðist opinbera enn einn ágreininginn innan ríkisstjórnarinnar vegna þess að Framsóknarflokkurinn hefur tekið alveg afdráttarlaust af skarið í þessum efnum. Hann telur að það eigi að virða útræðisrétt strandjarða.
Ég er þeirrar skoðunar líka. Ég er þeirrar skoðunar að hér sé um að ræða fornan rétt sem menn hafi nýtt sér og hann eigi að vera bundinn við þessar jarðir. Hann á að vera bundin við búsetu og hann á ekki að vera framseljanlegur. Þetta finnst mér. Mér finnst jafnframt að það komi vel til greina að setja einhvers konar takmarkanir á það hvers konar útvegur er stundaður frá slíkum jörðum og hversu aflmikill hann er en rétturinn er fyrir hendi. Hann var tekinn af mönnum með kvótakerfinu og ég tel að hægt sé að færa full rök fyrir því að þar hafi eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar verið brotið. Það þyrfti ég að gera í miklu lengra máli. En ég tel sem sagt að þennan rétt, útræðisrétt strandjarðanna, eigi að virða.

132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mar. 2006.

Útræðisréttur strandjarða.
491. mál
[14:26]

Magnús Þór Hafsteinsson:
Virðulegi forseti. Á leið minni til þings í morgun ók ég í gegnum jörðina þar sem ég ólst upp að stórum hluta, þar sem afi minn og amma bjuggu en frændfólk mitt byggir í dag. Þetta er Innri-Hólmur í Innri-Akraneshreppi við norðanverðan Hvalfjörð, jörðin þar sem Hvalfjarðargöngin koma upp. Í fjörusteinunum voru tvær trillur að veiða, stórar trillur, ein stór netatrilla og síðan ein línutrilla að mér sýndist. Þá varð mér hugsað til þess hvers vegna ættingjar mínir ættu ekki neinn rétt til að nýta þessa náttúruauðlind. Það hefur flætt fiskur inn í Hvalfjörð á undanförnum árum. Hvar er til að mynda frumbyggjarétturinn í þessu öllu saman? Af hverju má fólk sem á sjávarjarðir, jarðir sem liggja að sjó og þá jafnframt oft og tíðum að fiskimiðum, ekki að fá rétt til að nýta þessar náttúruauðlindir?

Auðvitað var þetta ekkert annað en eignaupptaka og þjófnaður sem átti sér stað þegar kvótalögin voru samþykkt á sínum tíma. Þessi eignaupptaka og þjófnaður hefur verið færður í verk kerfisbundið allar götur síðan þá en að sjálfsögðu er kominn tími til að hnekkja þessu og virða hin fornu réttindi. Að sjálfsögðu. Og það verður gert um leið og við verðum búin að sparka núverandi ríkisstjórn frá völdum.

132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mar. 2006.

Útræðisréttur strandjarða.
491. mál
[14:27]

Jóhann Ársælsson:
Hæstv. forseti. Hér áður áttu stórbændur útræðið. Nú eiga sjóbændur útræðið. Rétturinn var tekinn af öllum öðrum. Hann var tekinn af þeim sem eiga sjávarjarðir en hann var líka tekin af þeim sem búa við ströndina og höfðu haft rétt til að stunda sjóinn í gegnum tíðina frá því að stórbændaveldinu var hnekkt á sínum tíma. Að stjórnvöld á Íslandi skyldu ekki gæta jafnræðis þegar þessu fiskveiðikerfi var komið á verður mönnum ævinlega til skammar í sölum Alþingis. Það er það sem vantar inn í þetta fiskveiðistjórnarkerfi, að koma á einhverju jafnræði til að nýta þessa auðlind og þá eiga þeir sem búa við ströndina, eiga sjávarjarðir og vilja nýta sjósóknina að fá að sitja við sama borð til að nýta hana, en ekki að búa við slíkt lokað einokunarkerfi sem lokar fyrir alla nýliðun eins og við búum núna við.

132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mar. 2006.

Útræðisréttur strandjarða.
491. mál
[14:29]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson):
Frú forseti. Það er að mörgu leyti sorglegt að heyra fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, hæstv. ráðherra taka hér til máls, flokks sem einhvern tíma kenndi sig við einkaframtak að hann skuli vera hér í þeim sporum að meina mönnum að bjarga sér, meina mönnum að róa út frá jörðum sínum og reyna að koma í veg fyrir að þeir nýti eignarlönd sín.
Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að þessu máli má skipta í tvennt: Annars vegar réttinn til að nýta eignarlöndin, 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði og síðan rétt til að sækja enn lengra, frá fornu fari. Ég er á því að það sé lágmarkið að Sjálfstæðisflokkurinn virði að bændur geti veitt í fjöruborðinu hjá sér. Mér finnst það vera alveg út úr öllu korti að menn séu að bera við einhverju kerfi, kvótakerfi, einhverju haftakerfi til þess að meina mönnum að nýta eignarlönd sín. Mér finnst það með ólíkindum. Þetta kerfi var fundið upp til fiskverndar og til að byggja upp fiskstofna en raunin hefur verið önnur. Niðurstaðan er sú að þorskaflinn er helmingi minni nú en fyrir daga kerfisins þannig að árangurinn er enginn og það á að nota þetta kerfi sem afsökun í að berja á fólki sem vill bjarga sér í hinum dreifðu byggðum landsins. Mér finnst það vera ömurlegt spor sem hæstv. ráðherra er í.
Hann nefnir hér að kvótinn hafi verið bundinn á fiskiskip. Þetta er alveg með ólíkindum og það má velta því upp vegna þess að við erum að ræða landbúnaðarmál hvort kvótinn í landbúnaði eigi að vera bundinn traktorum. Eigum við ekki að fara að tala um þessi mál af einhverri skynsemi og reyna að finna einhverja lausn á þessu í stað þess að vera bundinn í kvóta bæði á höndum og fótum?

132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mar. 2006.

Útræðisréttur strandjarða.
491. mál
[14:31]

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson):
Virðulegi forseti. Það getur vel verið að útræðisrétturinn yrði bundinn við traktorana á jörðunum. En þessi umræða hefur að mínu mati varpað ljósi á það, þegar menn ræða málið án upphrópana og sleggjudóma, að jafnvel þeir sem tala um þennan útræðisrétt séu ekki alveg vissir í sinni sök þegar kemur að því að reyna að ræða þetta út í hörgul.
Fyrst töluðu menn þannig að þetta væri tiltölulega einfalt mál, útræðisrétt án hliðsjónar af því hvort við værum að tala um útræðisrétt innan netlaga eða hvort við værum að tala almennt um fiskveiðirétt út frá jörðum. Þannig gæti t.d. maður, sem ætti fyrirtækið Lífsval, keypt jörð sem lægi vel við sjó. Hann fengi þar með rétt til almennra fiskveiða í landinu. Auðvitað kom það í hug hv. þingmanna sem hér voru að tala að slíkt mundi ekki geta gengið heldur yrði að setja inn einhverjar aðrar reglur sem gerðu það að verkum að útræðisrétturinn yrði þegar í stað takmarkaður. Það sem hv. þingmenn voru að tala um var mjög takmarkaður fiskveiðiréttur, fiskveiðiréttur eins og hv. þm. Jón Bjarnason var að tala um, sem væri bundinn við búsetuna, bundinn við tiltekna sókn eða, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði, bundinn við veiðarfæri eða aðra hluti.

Um leið og við fórum að ræða þessi mál af alvöru, sem við þurfum auðvitað að gera. Þegar til umfjöllunar eru stórmál sem lúta bæði að eignarréttinum og atvinnuréttinum og stöðu einstakra jarða þá verðum við að gera þær kröfur til hv. þingmanna að þeir leggi á sig að hugsa þessi mál til enda, þótt ég viti að stundum er það erfitt fyrir menn sem gera fyrst og fremst út á það í stjórnmálum, að tala með gaspurslegum hætti og vilja ekki koma að kjarna málsins.

En það sem blasir við og stendur upp úr (SigurjÞ: Þú vilt engu breyta.) er að hv. þingmenn (Forseti hringir.) Sigurjón Þórðarson, Jón Bjarnason og Össur Skarphéðinsson hafa allir litið þannig á að (Forseti hringir.) fiskveiðiréttur sé eignarréttur. Það eru hin stóru pólitísku tíðindi í þessari umræðu. Ég tók eftir því að hv. þm. Jóhann Ársælsson skautaði fram hjá því, sem von var.

Útræðisréttur strandjarða

Fyrirspurn á Alþingi 23. febrúar 2005.

Útræðisréttur strandjarða, fyrirspurn 23. febrúar 2005.

Fyrirspyrjandi Sigurjón Þórðarson, 524. mál. — Þskj. 798.

Bráðabirgðaútgáfa.

[13:39]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson):
Herra forseti. Ég hef beint eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. landbúnaðarráðherra:Hefur ráðherra beitt sér fyrir því að útræðisréttur strandjarða verði virtur að nýju? Og hvernig hefur hann beitt sér ef hann hefur á annað borð beitt sér í málinu?Fyrirspurnin varðar réttindamál bænda og landeigenda og ætti því að vera eitt af þeim málefnum sem hæstv. ráðherra beitti sér fyrir. En það verður að segjast eins og er, því miður, að ég hef ekki orðið var við það að ráðherra hafi beitt sér með neinum hætti í málinu. Það er æ undarlegra í því ljósi að fyrir liggur flokkssamþykkt Framsóknarflokksins í málinu sem hljóðar svo:„Útræðisréttur strandjarða verði virtur á ný …“Frá upphafi hafa fjölþættar sjávarnytjar fylgt jörðum á Íslandi, bæði innan landamerkjajarðanna, þ.e. innan netlaga, hafsvæði sem liggur 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði og síðan almennur réttur til sjósókna. Ríkisstjórn kvótaflokkanna, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hafa reynt að gera þennan rétt að engu. Með lögum um stjórn fiskveiða hafa flokkarnir ekki einungis komið í veg fyrir að jarðirnar hafi getað nýtt sér almennan rétt til sjósóknar heldur einnig gengið á einkarétt og einkalönd jarðanna og við það verður ekki unað. Það er æðiundarlegt að verða vitni að því að flokkur sem hefur löngum kennt sig við að vera málsvari bænda skuli ganga svo fram fyrir skjöldu að ganga á einkalönd bænda með því að svipta þá rétti til sjósóknar í einkalöndum sínum eða 115 m út frá stórstraumsfjöruborði.Þau rök sem hafa verið færð fyrir að taka umrædd réttindi af sjávarjörðum eru eitthvað á þá leið að um sé að ræða fórnarkostnað fyrir kvótakerfið. Því kvótakerfi hefur ekki mátt hrófla við og hafa menn þá jafnvel gengið á réttindi og einkalönd bænda í því efni að halda kvótakerfinu óskertu. En það er umhugsunarefni að þetta kerfi hefur í engu skilað og það að fórna einkalöndum bænda án þess að nokkrar bætur komi fyrir er með ólíkindum fyrir kerfi sem hefur skilað helmingi minni afla á land og þorskstofninn er umtalsvert minni. En því miður virðist kvótakerfið vera svo heilagt hjá Framsóknarflokknum, enda er sjálfur formaður flokksins guðfaðir kerfisins, að ekki megi hrófla við því með nokkrum hætti heldur eigi að ganga á lögboðinn eignarrétt bænda og mér finnst það með ólíkindum.

[13:41]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):
Hæstv. forseti. Ég segi eins og maðurinn að þetta mál er ekki á mínu forræði. Í rauninni ætti ég ekki að svara svona dónalegri ræðu sem hér var flutt og ódrengilegri, því vissulega er hún ódrengileg.Ég get sagt frá því að ég hef setið aðalfund og flutt ræðu yfir þessum aðilum og átt með þeim ágætar stundir. Þeir hafa heimsótt mig og farið yfir sín mál og hugsjónir í baráttu sinni. Þetta er náttúrlega ekki bara spurning, þetta er eignarréttarmál sem heyrir þá kannski þess vegna undir hæstv. fjármálaráðherra frekar en þann sem hér stendur. Þetta er sjávarútvegsmál hvað kvótann varðar. Þetta er vissulega heilmikið nýtt deilumál sem gaus upp fyrir nokkrum árum og ekki einfalt mál og getur tekið langan tíma.Nú í nokkurn tíma hafa eigendur jarða sem land eiga að sjó og eiga þar með ákveðinn veiðirétt í netlögum deilt um það við ríkið hvort þær almennu takmarkanir sem felast í útræðisrétti og fiskveiðum og fram komu í lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, séu andstæðar stjórnarskrá. Það er ekki verið að deila um þetta við landbúnaðarráðherra heldur ráðherra sem þetta heyrir undir.Mér er kunnugt um að í undirbúningi séu málaferli á hendur ríkinu um viðurkenningu á þessum meinta rétti strandjarða til að stunda útræði. En séu málaferli fram undan hvað þetta varðar er þess vegna kannski ekki eðlilegt að einn ráðherra úr ríkisstjórn, þótt hann sé vinur allra og ekki síst bændanna, sé að tjá sig á því stigi með sterkum orðum úr ræðustól þegar málið heyrir ekki einu sinni undir hann.Hvað viðkemur fyrirspurn þingmannsins er rétt að taka fram að í landbúnaðarráðuneytinu hefur ekki verið unnið sérstaklega að því að fá viðurkenningu á útræðisrétti strandjarða. Ég hef hlustað á rök þeirra og farið yfir þau og við höfum alltaf gert okkur grein fyrir að þetta væri ekki okkar mál og ekki á okkar forræði.Bændasamtökin hafa hins vegar verið með menn í þessu og lögmenn sem þeim ber fyrir stéttarbræður sína um land allt. Gengið hefur verið út frá því að lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, ásamt síðari breytingum, standist stjórnarskrá og að í þeim sé ekki gengið með ólögmætum hætti á eignar- eða atvinnuréttindi eigenda strandjarða. Þetta er sem sé stóra málið í þessu deiluefni og við það verða menn auðvitað að eiga á hinum rétta vettvangi.Einnig skal bent á að hugsanlegt deilumál og lagasetning um það með hvaða hætti eigendur strandjarða nýta veiðirétt sinn í netlögum á nytjastofnum sjávar öðrum en ferskvatnsfiskum heyrir undir sjávarútvegsráðherra eins og ég hef nefnt og kannski eignarrétturinn undir hæstv. fjármálaráðherra. Kannski er lítið um það að segja en ef til vill flytur hv. þm. Sigurjón Þórðarson þetta til að geta haldið eina dæmalausa ræðu um Framsóknarflokkinn með ásökunum og fúkyrðum. Það hefur hann stundað hér, hæstv. forseti, og er ekkert við því að segja. Það eru hans mannréttindi í þingsal. Ég veit ekki hvort hann græðir á því, því það borgar sig eins og kemur fram í flestum málum að vera drengilegur og málefnalegur í umræðum. Það skilar yfirleitt mestum árangri.

[13:45]

Jón Gunnarsson:
Herra forseti. Kötturinn sagði: Ekki ég. Ekki á mínu forræði þó að ég sé vinur bændanna, sagði hæstv. landbúnaðarráðherra.Hlunnindi jarða hafa verið mikils virði í gegnum tíðina og það má segja þeim mun meira virði eftir því sem dregið hefur úr hefðbundnum landbúnaði. Ýmis hlunnindi þessara jarða hafa fært auknar stoðir undir þann rekstur sem fram fer á jörðunum og nægir þar að nefna veiðirétt í ám og vötnum. Til forna voru það aldeilis hlunnindi að hafa útræðisrétt frá sjávarjörðum en þessi hlunnindi hafa verið tekin í burtu af þeim bændum sem eiga þessar jarðir með lögum um stjórn fiskveiða. Ég ætla bara að lýsa þeirri von minni að hæstv. landbúnaðarráðherra reyni í þessu máli að vera skjöldur og sverð þessara bænda, ekki síður bænda sem búa á sjávarjörðum en annarra bænda því að þeir sögðu mér að hæstv. ráðherra teldi sig eiga að gæta hagsmuna bænda. Því hljóta þessir bændur að vera þar í hópi líka.

[13:47]

Jóhann Ársælsson:
Hæstv. forseti. Kannski er sú skýring á því að hæstv. ráðherra telji þetta ekki í sínum verkahring að hann mun vera alinn upp nokkuð langt frá sjó. (Gripið fram í.) Ég hygg að þeir bændur sem eiga land að sjó skilji vel það sem hér er verið að tala um. Mér finnst hæstv. landbúnaðarráðherra eiga að hafa vakandi auga með öllum hlunnindum og öllum réttindum bænda og hafa á því skoðun hvernig farið er með bændur við aðra lagasetningu en þá sem vill þannig til að heyrir undir ráðuneyti hans. Ég get ekki séð annað en að það sé fullkomlega í hans verkahring að fylgjast með þessum hlutum og hjálpa bændum við að ná rétti sínum ef þeir telja á sér brotið, sem sannarlega er. Lögin um stjórn fiskveiða hafa óumdeilanlega tekið réttindi frá eigendum sjávarjarða. Á því er enginn vafi.

[13:48]

Jón Bjarnason:
Herra forseti. Ég tel að hæstv. landbúnaðarráðherra ætti að beita sér sem stjórnsýslulegur umboðsmaður þessa málaflokks landbúnaðar og bænda. Til er fjöldi jarða þar sem útræðisréttur var jafnnýttur og beitarréttur. Ég er sjálfur uppalinn við það á þeirri jörð þar sem ég fæddist. Þar var jöfnum höndum róið til sjávar og beit nýtt á landi. Það var gríðarlegur styrkur í mörgum landshlutum ef hægt var að nýta þetta saman. Það er alveg hægt við núverandi kvótakerfi, þó svo það sé bölvað, með því að úthluta ákveðnum tonnafjölda á jörð, á býli, gera það að skyldu að viðkomandi yrði að búa á jörðinni og nytja hlunnindin sjálfur þaðan. Sá réttur sofnaði ef hann nýtti þau ekki sjálfur eða jörðin færi í eyði en fylgdi henni sem slíkur eins og önnur jarðargæði. Þetta finnst mér ósköp einfalt mál og ætti að vera hægt að sameinast um.
[13:49]

Björgvin G. Sigurðsson:
Virðulegi forseti. Svar ráðherra endurspeglaði togstreituna sem er í þessum málum milli ráðuneyta og hve mikilvægt er að sameina landbúnaðarráðuneytið, sjávarútvegsráðuneytið og iðnaðarráðuneytið í eitt atvinnuvegaráðuneyti til að hlutirnir gangi eðlilega fyrir sig í stjórnkerfinu en þvælist ekki fyrir ráðherrum í jafnmikilvægu máli og þessu.Um leið harma ég það hve lítils áhuga og skilnings virtist gæta á þessu grundvallarmáli hjá hæstv. landbúnaðarráðherra. Þetta tilheyrir og á að tilheyra grundvallarréttindum jarðanna, þ.e. að þeim fylgi útræðisréttur, og ég skora á ráðherrann að herða upp hugann þó að togstreitan sé uppi milli ráðuneytanna og hlutirnir þvælist þar fyrir mönnum og berjast með bændunum í þessu máli. Þetta er mikilvægt hagsmunamál fyrir þá sem eiga þarna hlut að máli. Því skora ég á hann að taka sér tak.
[13:50]

Magnús Þór Hafsteinsson:
Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa yfir undrun á viðbrögðum hæstv. landbúnaðarráðherra. Það er eins og hann kveinki sér undan þessari umræðu. Hann ætti miklu frekar að fagna því að hafa fengið þessa fyrirspurn því að hún gefur honum alveg glimrandi tækifæri til að lýsa yfir eindregnum stuðningi við sjálfsagðar og eðlilegar kröfur eigenda sjávarjarða.Ég vil fá að nota þessar örfáu sekúndur sem ég hef til að lýsa eindregnum stuðningi við baráttu þeirra. Þetta eru sanngjarnar og réttlátar kröfur sem þeir eiga samkvæmt ævafornum lögum þessa lands. Á því er enginn vafi. Það væri ekkert mál að koma því þannig fyrir að þeir endurheimtu þennan sjálfsagða rétt, búa til reglur í kringum það umhverfi. Þetta gæti orðið til þess að sveitir landsins með ströndum fram mundu ná vopnum sínum á nýjan leik og fengju að blómstra. Þessar byggðir byggðust upphaflega upp á því að menn nýttu þar náttúruauðlindir og hafið var ein af þeim auðlindum. Þessu ætti hæstv. landbúnaðarráðherra að gera sér fulla grein fyrir.
[13:51]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson):
Herra forseti. Ég var sakaður um að flytja ódrengilega og dónalega ræðu en það kom ekki fram í máli hæstv. landbúnaðarráðherra hvað hafði verið dónalegt og ódrengilegt. Það væri fróðlegt að fá það gefið upp því að ég vil gjarnan bæta mig og fá þá fram hvað var svona dónalegt. Ég sé það ekki. Var það þegar ég vitnaði t.d. í flokkssamþykkt Framsóknarflokksins, að útræðisréttur strandjarða verði virtur á ný? Mér finnst með ólíkindum að hæstv. ráðherra skuli kveinka sér undan þessari umræðu, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. ráðherra flutti efnismikla ræðu um útræðisrétt strandjarða á fundi eigenda sjávarjarða. Þar kom fram að hann tekur eindregið undir að þetta skipti verulega miklu máli, þetta væri mikið byggðamál. Þess vegna tel ég að hæstv. ráðherra ætti að leggja áherslu á að ná þessum rétti aftur fyrir bændur í landinu.Hvað það varðar að saka mann um dónaskap, ég átta mig ekki á því. Ég hefði miklu frekar viljað heyra hæstv. ráðherra lýsa hér yfir stuðningi við baráttu bændanna, að hann ætlaði að leggja þeim lið í því að ná fram réttindum sínum. Eftir því sem ég kynni mér þetta mál betur tel ég einsýnt að verið sé að brjóta eignarrétt á bændum. Það liggur í hlutarins eðli þegar verið er að svipta þá hlunnindum innan netlaga.
[13:53]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):
Hæstv. forseti. Sumir eru orðnir svo frjálslyndir að þeir vita ekki í hverju þeirra eigin dónaskapur liggur. Þeir verða að fara yfir og lesa sínar ræður sjálfir.Ég get sagt eftir þessa umræðu að ég get aftur á móti í meginatriðum tekið undir ræðu hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar sem er flokksbróðir hv. þingmanns. Í meginatriðum get ég tekið undir þá ræðu, þá sýn og þá hugsjón sem hann setti fram. Það liggur fyrir að sumir bændur eru í útræði frá jörðum sínum, trillukarlar eru t.d. í fiskveiðikerfinu (Gripið fram í.) í dag. (Gripið fram í.) Aðrir eru þar ekki. Það liggur líka fyrir að menn eiga veiðirétt og netlagnir í sjónum í dag, útræðisjarðir. En deilan snýst um það að þeir vilja komast inn í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Það er deila við hæstv. sjávarútvegsráðherra, ekki þann sem hér stendur, og hana heyja þeir auðvitað á þeim vettvangi. Sjálfsagt leita þeir samninga.Ég get sagt það hér að auðvitað liggur öll sú fyrirgreiðsla fyrir. Allar þær upplýsingar sem þeir biðja um og eiga samstarf um við landbúnaðarráðuneytið eru þeim látnar í té til að þeir geti farið yfir sín mál. Bændasamtökin hafa tekið samstarfið í fóstur og vinna í því. Þeir hafa veiðirétt sinn í netlögnum. Sumir eru í kvótakerfinu frá útræðisjörðum og aðrir vilja komast inn í það. Um þetta snýst deilan og stefnir kannski í að fari fyrir dómstóla. Ég hef svo sem lítið meira um málið að segja á þessu stigi. Ég get tekið undir að vissulega mundi þetta styrkja sjávarjarðirnar hringinn í kringum landið sem búsetujarðir og kraftmiklar jarðir ef þeir næðu þessum rétti sínum. Þarna er við lagaflækjur að eiga og lögfræðingar beggja vegna sitja yfir því. Kannski stefnir þetta mál fyrir dómstóla til úrskurðar.